131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[12:21]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tel fulla þörf á að ræða þetta mál undir lok þingsins og þakka fyrir að það hafi verið tekið upp. Ég hvet til þess að formenn þingflokka ræði málið í þingflokkum sínum núna og að þar fái menn síðan efni í framhaldsvinnu sem verði þá unnin í sumar og að stefnt verði að því að breyta þingsköpunum.

Það er eitt sem ég legg áherslu á að menn skoði í því samhengi, og það er að þannig verði farið með breytingu á þingsköpunum að mál deyi ekki í nefndum þingsins þegar þing fer heim að vori eða sumri, heldur að þau lifi næsta þing á eftir í höndum nefnda. Þannig yrði á verkefnaskrá viðkomandi nefndar að fjalla um þau þingmál sem hafa komið til nefndar á liðnum vetri hverju sinni.

Þetta mundi þýða mikla fækkun endurfluttra mála á Alþingi og ég hvet eindregið til að sú leið verði skoðuð. Þessi sífelldi og endalausi endurflutningur mála sem fá kannski aldrei lokameðferð í þinginu vegna þessa fyrirkomulags er óþolandi fyrir þingmenn. Ég tel að bara með þeirri breytingu væri hægt að fækka þingmálum verulega, þ.e. endurflutningi mála mjög mikið, og það mundi auðvitað greiða fyrir þingstörfum.

Ég vildi að þetta kæmi fram við umræðuna en hvet annars til að menn haldi áfram með málið í sumar.