131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[12:29]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mjög þarft að ræða hvernig hægt er að bæta starfshætti þingsins. Við megum hins vegar ekki festast í því farinu að einblína á lengd þinghaldsins. Jafnvel meira máli skiptir hvernig þingið starfar þegar það á annað borð er að störfum.

Síðan tel ég mikilvægt að eyða þeim misskilningi, eða fordómum sem ég tel vera ríkjandi í þjóðfélaginu, að þingið starfi ekki utan eiginlegs þingtíma. Hið rétta er að sjálfsögðu að nefndir þingsins koma iðulega saman utan þessa tíma, og það hefur nokkuð verið að færast í vöxt. Ég nefni t.d. efnahags- og viðskiptanefnd í því efni.

Annað sem þegar liggur tillaga fyrir um frá minni hlutanum í menntamálanefnd er að hún komi að umræðu um framtíð Ríkisútvarpsins, reyndar á miklu víðtækari grunni, kallaðir verði að fleiri aðilar. Þetta er dæmi um leiðir sem þingið getur farið til að efla starf sitt utan eiginlegs þingtíma.

Þetta litla innskot vildi ég láta nægja í þessa umræðu núna. Hún er mjög þörf en það skiptir máli hvernig við eflum og bætum þingstarfið.