131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[12:38]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er á sínum stað að ræða um starfstíma eða fundatíma Alþingis þegar tillaga forsætisráðherra um frestun á þingfundum er til umræðu eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hóf og kemur reyndar úr þingflokki hæstv. forsætisráðherra, þannig að það er á sínum stað.

Ég held hins vegar að menn verði að horfa á það eins og það er að það er að sjálfsögðu ekki bara starfstími Alþingis mældur í dögum eða vikum sem hér skiptir máli. Ég held að þetta snúist miklu meira um það hvernig störfin eru skipulögð og hvernig þau ganga fram. Ég hef verið þeirrar skoðunar að fremur væri ástæða til að ganga út frá því sem reglu að lengja þingfundatímann að hausti en að binda sig fyrir fram við einhverja fasta dagsetningu að vori, einfaldlega vegna þess að það hlýtur eðli málsins samkvæmt að ráðast nokkuð af aðstæðum hverju sinni.

Ég held að lengra þinghald að hausti hefði þann kost að það gæfist rýmri tími til fjárlagavinnunnar og það liggi að mörgu leyti betur við almanakinu og taktinum í þjóðfélaginu að þingið hefji störf 15. september, jafnvel 10. eða 1. september og hefði lengri samfelldari fundalotu fram undir áramót.

Úr því að þessi umræða er hafin hér á annað borð held að nauðsynlegt sé að rifja upp í þessu sambandi að gerð var grundvallarbreyting á þingsköpum og fyrirkomulagi öllu og starfsháttum Alþingis með nýjum þingsköpum 1991. Það var ekki bara að Alþingi sameinaðist í eina málstofu sem auðvitað hefur gert störfin hér á margan hátt skilvirkari og einfaldari en áður var. Þá var líka gerð sú grundvallarbreyting að þingið starfar allt árið, að þingið er við störf með fullu umboði allt árið og það er aðeins eina nótt, aðfaranótt 1. október, sem þingið er í raun ekki við störf. Þingnefndir halda umboði sínu allt árið og geta hvenær sem er komið saman sem og þingið með eins til tveggja daga fyrirvara ef á þarf að halda og hafið fundi á nýjan leik. Það sem við ræðum hér er eingöngu ákvörðun um frestun funda. Nú er það þannig, sem er að mínu mati tímaskekkja, að hæstv. forsætisráðherra í samráði við forseta lýðveldisins leggur til slíka tillögu.

Það vill svo til að það er nefnd að störfum sem hefur það verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Eitt af því sem sú nefnd á að mínu mati að taka fyrir og vonandi leggja til er að þeim gamla arfi verði hent og að þingið sjái alfarið um þetta. Forseti lýðveldisins og forsætisráðherra eiga hér ekkert hlutverk að hafa. Alþingi á að ákveða þetta án utanaðkomandi afskipta frá forseta eða framkvæmdarvaldi.

Ef menn vilja hins vegar taka upp umræður um breytingu á þingsköpum almennt, eins og hefur að hluta til blandast inn í, held ég að menn verði að horfast í augu við það að það er vandasamt verk hverju sinni að breyta þingsköpum og allar slíkar breytingar hljóta að þurfa að skoðast heildstætt. Þær verða að skoðast í heildarsamhengi. Það eru t.d. hlutir sem snúa að samskiptum og stöðu stjórnar og stjórnarandstöðu á hverjum tíma og fleira í þeim dúr sem fljótlega kemur upp jafnvel þótt menn væru fyrst og fremst að velta fyrir sér tilhögun fundahaldsins, lengd þess o.s.frv. En slíkir hlutir eru jafnan skammt undan ef umræður hefjast um þetta á annað borð. Ég held að það verði að horfast í augu við það að uppsöfnun þingmála, mikill fjöldi tillagna sem hér er fram borinn en nær jafnvel ekki einu sinni að komast til umræðu, menn ná ekki að mæla fyrir málum í stórum stíl sem lögð eru fram jafnvel um miðjan vetur og eða fyrr og þaðan af síður er þingið að afgreiða nema lítið brot af þeim málum sem hér eru flutt og síðan endurflutt oft og iðulega. Það er fyrirkomulag sem vel mætti skoða, að þingmálin vakni á nýju þingi á þeim stað sem þau voru þegar það þing lauk störfum. Þó er ekki einhlítt að nota það fyrirkomulag.

Önnur möguleg leið væri sú að áskilnaður væri um það, t.d. í þingsköpum í kafla um störf þingnefnda, að hafi þingmál verið flutt og síðan endurflutt í aðalatriðum óbreytt á fleiri en tveimur þingum skuli einhvers konar afgreiðsla fara fram á því, t.d. í formi þess að þingnefnd sé þá skyldug að gera þinginu grein fyrir skoðun sinni á málinu og leggja eitthvað til um afdrif þess. Með því væri eitthvað dregið úr þeim mikla málafjölda og mikla endurflutningi mála sem hér er og þjónar auðvitað takmörkuðum tilgangi. Hins vegar skulum við þingmenn líka vera alveg heiðarleg og viðurkenna að í sumum tilvikum er það ekki endilega ósk þingmannsins að málið hverfi úr sögunni. Oft eru menn að vekja athygli á málum og halda því við með því að endurflytja þau og óska ekki endilega eftir því að það verði fellt eða það fái t.d. snautlega afgreiðslu í því formi að því sé vísað til ríkisstjórnar. Þá er spurningin: Vilja menn hafa valið eða mundu menn sætta sig við að reglurnar væru eitthvað á þá leið að t.d. eftir tvö þing skyldi viðkomandi þingnefnd afgreiða málið með einhverjum hætti eða gera grein fyrir því?

Ég held að það sé hið þarfasta mál að ræða hvort fara á í heildarendurskoðun á þingsköpum. Það verður þá að gerast í góðu samstarfi allra aðila. Það mætti vel hugsa sér að það tengdist með vissum hætti endurskoðun stjórnarskrárinnar því þar geta verið undir hlutir sem skipta máli í sambandi við starfshætti og starfstíma Alþingis. Hvort þetta ætti að vinnast samhliða eða í kjölfar þess að stjórnarskrárnefnd skilar tillögum skal ég ekki segja um en legg fyrst og fremst áherslu á að þetta þarf að skoðast í heildarsamhengi.

Ég tek undir það að lokum sem fleiri þingmenn hafa nefnt að ég held að við þingmenn verðum líka að verja svolítið sjálfa okkur og heiður stofnunarinnar hvað það varðar að fólk tali ekki eins og að með því að fundum Alþingis verður frestað í kvöld séu allir þar með komnir í 4–5 mánaða frí og muni ekkert aðhafast sem starfinu tengist þar á milli. Það er að sjálfsögðu ekki svo. Þingið er áfram við störf með fullu umboði sem og þingnefndir. Margvíslegar aðrar skyldur hvíla á herðum þingmanna, alþjóðasamskipti hafa stóraukist á undanförnum árum og talsverður hluti þeirrar vinnu fer fram vor og haust, ferðalög þingnefnda og samskiptin við kjósendur. Það er mín reynsla t.d. að sumarið gerist sífellt annasamari tími hjá þingmönnum m.a. vegna mikilla óska um að þingmenn séu þátttakendur í ýmiss konar samkomuhaldi og hátíðum úti í héraði sem eðlilegt og sjálfsagt er en brýtur auðvitað upp þann tíma sem menn ella hefðu.

Að lokum er rétt að hafa í huga að flest þjóðþing haga því þannig að störfin liggja niðri, hið formlega fundahald liggur niðri um alllangan tíma frá vori eða snemma sumars og fram undir haust. Það er af ýmsum praktískum ástæðum. Þá eru sumarleyfi jafnframt í stjórnsýslunni og það yrði kannski minna úr þeim tíma en ætla mætti ef menn væru að reyna að funda og vinna hefðbundin löggjafarstörf kannski frá því um miðjan júní og fram í miðjan ágúst. Við erum því ekki það frábrugðin öðrum þingum þegar allt kemur til alls og ég held að skemmtilegar kenningar um að þetta ráðist allt saman enn þá af gömlum tímum, sauðburði, göngum og réttum og vertíðarlokum eigi við lítil rök að styðjast þegar betur er að gáð enda hafa mjög miklar breytingar orðið á starfsháttum Alþingis og tilhögun allri á undanförnum 15–25 árum.