131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[12:46]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þetta hefur verið mjög gagnleg umræða um störf þingsins og hvernig hægt er að hafa skikkan á henni. Það að við séum að hætta hérna 11. maí stafar kannski líka af því að stjórn þingsins virðist vera orðin nokkuð skilvirkari hin síðari ár þannig að mál ganga skipulegar fram. Ég tek þó undir það að þingið mætti starfa lengur og hugsanlega í þremur lotum eins og nefnt hefur verið.

Það er náttúrlega rangt að segja að þingmenn fari í frí, því að þingmenn hafa eiginlega bara þetta hlé til að vinna að frumvörpum og öðru slíku og til að efla tengslin við kjósendur sína. Flestir, eða allir, þingmenn hygg ég að noti þennan tíma til vinnu.

Hér hefur nokkuð verið rætt um afgreiðslu mála úr nefndum og ég hef margoft sagt að mér þyki ankannalegt að mál deyi í nefndum eða sofni. Ég hef viðrað þá hugmynd að þingnefndir taki afstöðu til allra mála, að þær beini því til Alþingis að samþykkja viðkomandi tillögu eða beini því til Alþingis að vísa henni til flutningsmanna, það eigi að vinna hana betur, og þá með rökstuðningi um hvað megi betur fara, eða vísi henni til ríkisstjórnarinnar ef kunnugt er að ríkisstjórn er að vinna í svipuðum málum. Enn fremur má hugsa sér að leggja hreinlega til við Alþingi að viðkomandi tillaga verði felld og það er kannski heiðarlegast ef mönnum líkar ekki við tillöguna. Enga tillögu ætti að daga uppi í nefndum, nefndir ættu að klára allar tillögur sem fyrir þær eru lagðar.

Svo hef ég margoft nefnt það að samningu frumvarpa er mjög ábótavant, þ.e. lagafrumvörp eru yfirleitt samin utan Alþingis, þau sem samþykkt eru og verða að lögum. Þetta held ég að sé mjög neikvætt og hættulegt lýðræðinu af þeirri ástæðu að oft semja ráðuneytin þessi frumvörp, framkvæmdarvaldið sem vinnur gagnvart borgurunum. Stundum eru það jafnvel stofnanir, sérfræðingar á stofnunum sem vita allt um viðkomandi mál, ég nefni samkeppnislög eða tollamál eða skattamál eða eitthvað slíkt, sem vinna tillögur um lög sem þeir sjá síðan um að framfylgja. Þetta er alvarlegt brot á þrískiptingu valdsins sem á að vernda borgarann fyrir einmitt því að sami aðilinn setji lög og framkvæmi þau, hvað þá ef hann dæmir eftir þeim líka. Þarna eru frumvörpin samin af þeim sem eru að framkvæma og það er svo mikil hætta á því að þeir semji vopn í hendurnar á sér til þess að berja á borgurunum af því að það er auðveldara fyrir þá. Við erum að sjá hérna fjöldann af frumvörpum sem ganga einmitt út á þetta, t.d. hér á eftir um fjarskiptalög.

Ég hugsa að það væri miklu betra að frumkvæði og samning frumvarpa færi fram á Alþingi með öflugri nefndaskrifstofu og með skipulegri vinnu þingnefnda og þingmanna. En þetta er náttúrlega töluvert mikil breyting og er ekki hefð fyrir því heldur í öðrum þingum. Sérfræðingaveldi nútímans veldur því að lög verða sífellt flóknari og flóknari og það er sífellt erfiðara að átta sig á því hvaða afleiðingar lögin hafa sem hv. Alþingi er að setja.

Svo mætti að sjálfsögðu ræða um ræðutímann. Það er dálítið ankannalegt að sitja undir 2–3 tíma ræðu þar sem öll aðalatriðin eru farin, maður er búinn að gleyma þeim, og athyglin hefur dofnað og það er verið að lesa sama kaflann, kannski margar síður, af mörgum ræðumönnum, trekk í trekk. Það er dálítið ankannalegt. Ég mundi vilja að menn huguðu virkilega að því að takmarka ræðutímann í öllum umræðum nema fyrir liggi samþykkt Alþingis um að hafa ótakmarkaðan ræðutíma.

Þetta er allt saman mjög gagnleg umræða og ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn ræði öðru hverju einmitt um þetta.