131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[12:51]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þær áherslur hjá hv. þm. Pétri Blöndal sem lúta að störfunum í nefndum. Það að mál fari hér til nefndar frá þingmönnum, frá ríkisstjórn eða öðrum og séu síðan ekki afgreidd þaðan með einum eða öðrum hætti til samþykktar, vísað t.d. aftur til flutningsmanna eins og hv. þingmaður nefndi og þeir beðnir að vinna þau betur, þ.e. að þessi mál fái ekki afgreiðslu nefndarinnar er forkastanlegt. Ég tel það bara vera skyldu nefndarinnar að gera það og tek alveg heils hugar undir þessi orð hjá hv. þingmanni.

Við þingmenn, sérstaklega t.d. í stjórnarandstöðunni, flytjum þingmál, leggjum í þau bæði vinnu og pólitíska sýn, og fáum í besta falli að mæla fyrir þeim hér, þó ekki alltaf. Fyrir flestöllum þingmálum þingmanna sem koma inn á þing eftir áramót hefur ekki verið mælt, er ekki enn búið að mæla fyrir, þau fá ekki einu sinni að fara umræðulaust til nefndar. Þetta finnst mér vera veruleg þrenging á lýðræðinu og röng vinnubrögð.

Sama er, eins og hann nefndi, með frumvörp sem ríkisstjórnin leggur fyrir þingið. Oft eru þau samin einmitt af þeim sem eiga að framkvæma þau, stundum eru meira að segja þingmenn í viðkomandi nefnd án þess að þingið hafi skipað þá í hana.

Hv. þingmaður minntist á ræðutímann og ég tel að það eigi að verja málfrelsið. Ef þessi vinnubrögð yrðu tekin upp inni í nefndunum, bæði hvað varðar afgreiðslu mála út úr nefnd og samningu frumvarpa, mundi það vafalaust breyta töluvert vinnulagi hér og einmitt umræðutíma. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það að þetta vinnulag fari svolítið saman.