131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[12:55]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er haft eftir hv. þingmanni, eða réttara sagt hæstv. ráðherra Geir Haarde, sennilega meðan hann var hv. þingmaður — og sjálfsagt ranglega — að kostir við starf þingmannsins séu einkum fjórir, þeir heiti júní, júlí, ágúst og september. Þar hefur þingmaðurinn og ráðherrann auðvitað verið að brosa í kampinn og verja sig með kímni gagnvart þeirri ásökun eða þeirri kenningu að sumarfrí standi yfir meðan þingmenn eru í þessu langa hléi frá því um miðjan maí og fram í október, eins og menn hafa verið að kvarta undan, sumir hér, að verða fyrir í störfum sínum og vola nokkuð í þessum stól, í þessari umræðu sem að öðru leyti hefur verið alveg ágæt.

Þetta er ekki sumarfrí nema þingmenn vilji það sjálfir og það er þá kjósenda að ráðstafa þeim þingmönnum sem haga sér þannig með sínum hætti. Þetta er hjá flestum þingmönnum vinnutími þó að þeir stjórni sér sjálfir og geti kannski unnið á ýmsan hátt skynugar en hægt er þegar þinghríðin er hvað örust.

Það er auðvitað samt svo að ef menn vilja reka af sér slyðruorðið í þessum efnum væri skynsamlegt, þótt ekki nema væri af PR-ástæðum, að breyta þingtímanum og það er skynsamlegt að ýmsu öðru leyti eins og hér hefur verið rakið.

Af hverju gerist þetta ekki? Ætli það séu ekki einkum tvær ástæður til þess, forseti, annars vegar sú tregða sem er eðlislæg stofnunum sem bera með sér gamlan tíma, sem hér hefur verið rakið, og binda starf sitt og hætti ýmsum hagsmunum sem síðan verður erfitt að rjúfa. Hins vegar er auðvitað það hvernig háttar til um þinghald hér á landi, þáttur í sókn framkvæmdarvaldsins inn á svið löggjafans sem hér hefur verið eitt af einkennum í íslenskri stjórnskipan undanfarna áratugi. Ríkisstjórnin á hverjum tíma, eða framkvæmdarvaldið, hefur viljað hafa þingið sem auðstjórnanlegast, telur sig þurfa að hafa frið þessa 4–5 mánuði á hverju ári frá þinginu, m.a. með þeim rökum sem ég hef heyrt í ráðuneytum að ella væri ekki hægt að undirbúa þessi frumvörp sem hv. þm. Pétur Blöndal kvartaði réttilega yfir að okkur væru rétt hér, til samþykktar aðallega, síður synjunar, af sérfræðingum framkvæmdarvaldsins. Þetta er ekki tæk röksemd því að sjálfsögðu má haga störfum bæði þings og ráðuneyta og undirstofnana þannig að þessi friður fáist. Það er einfalt að gera það, eins og lagt er til í tillögu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og fleiri, með því ekki endilega að lengja þingtímann í heild eða fjölga fundunum heldur að haga þessu á annan hátt þannig að hléin verði þá frekar fleiri. Ég held að ef við lengjum hvert þeirra muni sá vinnutími verða skynsamlegri fyrir þingmenn og þá sem við störfum með.

Við þurfum að stefna að vitlegri vinnubrögðum í þessu og við þurfum að stefna að betri afgreiðslu mála. Þessi umræða getur kannski, ásamt frumvörpum sem hér hafa verið flutt, orðið til þess að það verði í framtíðinni.

Hin ástæðan, fyrir utan þennan frið, er auðvitað sú að ríkisstjórninni og ráðherrunum er það í hag, þ.e. ráðherrarnir telja sér það í hag að þurfa ekki að búa við aðhald þingsins í 4–5 mánuði á hverju ári. Þegar þingið er sent heim — það verður að tala um það í þolmynd, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist á er það formlega forsætisráðherra sem gerir það með forsetabréfi — er auðvitað þessi ræðustóll ekki lengur í gangi sem fjölmiðill í landinu, sem samskiptamiðill við almenning, sem vettvangur þeirrar umræðu sem hér á að fara fram. Það er svo einmitt þessa 4–5 mánuði að stundum líður manni eins og ekki sé neitt þing, heldur sitji bara ráðherrarnir og fari um landið og fjölmiðlana og notfæri sér til hins ýtrasta þá stöðu sem upp er komin þegar þingið er ekki lengur í gangi og aðhald þess felst í því einu að einstakir þingmenn kveðja sér hljóðs á torgum eða í fjölmiðlum.

Vegna þess að framkvæmdarvaldið hefur þennan meiri hluta hér í þinginu sem kunnugt er með þingræðisskipaninni sem byggist á meirihlutavaldi hér í þinginu, sem reyndar er kannski orðið öfugt eins og við tíðkum þetta, er hætt við að upp komi eins konar eilífðarvél í þessum efnum. Stjórnarandstöðumenn, þeir sem eldurinn brennur á, kvarta en stjórnarmeirihlutinn er bundinn forustu sinni sem er ráðherrarnir í framkvæmdarvaldinu og hefur þess vegna ekki hug á því að breyta þessari skipan. Síðan verður stjórnarandstaðan eða hluti hennar eftir atvikum að stjórnarmeirihluta o.s.frv. og síðan heldur þetta áfram með umkvörtunum á hverju þingi og sífelldri umræðu í blöðunum.

Kannski þarf það að verða svo, kannski er það nauðsynlegur undanfari þessara breytinga, að ráðherrar séu ekki lengur hluti af þinginu, að ráðherrarnir láti af þingstörfum og aðrir komi inn í stað þeirra, eins og við ræddum hér á þinginu í vetur. Það mundi auka sjálfstæði þingsins beinlínis líkamlega í persónum gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Vegna þessarar stöðu fagna ég sérstaklega því að þessi umræða skuli hér hafa hafist af hálfu stjórnarþingmanns, hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, og að a.m.k. hv. þm. Pétur Blöndal skuli hafa tekið þátt í henni, sem líka er stjórnarþingmaður. Ég hvet til þess að við látum okkur segjast í þessu efni og reynum í haust að skapa samstöðu stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga um endurskoðun á þingstörfunum. Við samfylkingarmenn getum lagt til þeirra mála tillögu Rannveigar Guðmundsdóttur og fleiri þingmanna okkar en flokkslínur eiga hér ekki að skipta máli, heldur heill og heiður þjóðarinnar, vegur Alþingis og sómi þess.