131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[13:03]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er nokkuð óvænt hafin mikil umræða um lok þingsins og hversu lengi þingið eigi að standa á hverju ári. Það er í sjálfu sér alveg ágæt umræða og að mörgu leyti þörf. Við tókum þessa umræðu í vetur í kringum þingmál sem mig minnir að þingmenn Samfylkingarinnar hafi staðið fyrir. Mér hefur ekki gefist tími til að fara yfir það sem ég sagði þá, en ef ég man rétt tók ég undir þau sjónarmið sem þar komu fram.

Ég get líka að mörgu leyti lýst mig fylgjandi þeim sjónarmiðum sem málshefjandi, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, lýsti í ræðu sinni áðan. Ég tel að þingið starfi of stutt á hverju ári og það komi niður á vinnubrögðum Alþingis, löggjafarvaldsins í landinu, þessum hornsteini lýðræðis á Íslandi. Að sjálfsögðu ættum við að byrja fyrr á haustin og hætta seinna á vorin, til að mynda byrja í september og halda áfram út júní. Það væri manni alveg að meinalausu. Þau vinnubrögð sem ég hef orðið vitni að á þeim tveimur vetrum sem ég hef setið á þingi finnst mér að mörgu leyti óverjandi, sérstaklega vinnubrögðin undir lok hvers þingtíma þar sem stjórnarflokkarnir virðast iðka það, ráðherrarnir, því miður og það ber að harma — ég vona reyndar að ráðherrarnir fari að taka sér tak hvað það varðar — að leggja fram mjög stór og þung frumvörp mjög seint á þingtímanum og ætlast síðan til að við þingmenn sitjum hér með gúmmístimplana á lofti og afgreiðum þau með hraði.

Það hefur ítrekað komið í ljós að þetta hefur leitt til þess að héðan hafa verið afgreidd frumvörp sem hafa að mörgu leyti verið gölluð, meingölluð. Fólki hefur hreinlega ekki gefist tími til að koma auga á gallana, ígrunda málin nægilega vel áður en þau hafa verið afgreidd frá hinu háa Alþingi og eftir situr þjóðin með skaðann af flausturslegum vinnubrögðum okkar sem hér sitjum.

Mér finnst ekki verjandi að þurfa að taka þátt í slíku, sem oft og tíðum er hreinn skrípaleikur, þannig að það er mál að linni. Þetta mætti laga að verulegu leyti með því að ráðherrarnir tækju sér tak og kæmu með stjórnarfrumvörpin t.d. á haustin, reyndu að leggja áherslu á að koma með þau strax í þingið á haustin þannig að okkur sem sitjum í þingnefndum yfir veturinn gæfist þá tími til að fara gaumgæfilega yfir frumvörpin.

Mér fannst svolítið spaugilegt og á margan hátt mjög athyglisvert að sjá nýja dagbókarfærslu hjá einum hv. þingmanni stjórnarliða, Dagnýju Jónsdóttur, þann 6. maí sl., sem skrifaði á heimasíðu sína eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í fyrramálið þarf ég að vera á tveimur nefndarfundum í einu, menntamálanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Á báðum fundum er sama mál á dagskrá, RÚV. Ég mun því þurfa að flakka á milli, sem reyndar er alveg óþolandi. Hálfellefu hefst þingfundur en umræður um landbúnaðarmál munu verða allsráðandi á morgun.“

Þarna er sem sagt einn þingmaður stjórnarliða, sem situr í fjölmörgum þingnefndum, á mörgum fundum samtímis á lokadögum þingsins, að vinna í mjög stóru og þungu máli, frumvarpinu um Ríkisútvarpið. Sem betur fer sáu stjórnarliðar að sér og ákváðu að reyna ekki að troða því í gegnum þingið á vordögum. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að það að þingmenn, ekki síst kannski stjórnarþingmenn sem oft hafa tögl og hagldir í þingnefndum, skuli í raun vera settir í þá aðstöðu að þurfa að vinna með þeim hætti að sitja á mörgum nefndarfundum samtímis við að afgreiða mjög mikilvæg þingmál er fyrir neðan allar hellur.

Það er mér mjög minnisstætt einmitt með sama þingmann, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, að hún var kölluð á fund í sjávarútvegsnefnd þar sem ég sit, vegna þess að hvorugur þingmanna Framsóknarflokksins var á þeim fundi sem var mjög mikilvægur fundur um daginn þar sem formaður sjávarútvegsnefndar ákvað skyndilega og óvænt að afgreiða fjölmörg mál út úr nefndinni á þeim fundi. Þegar í ljós kom að þar vantaði af einhverjum orsökum tvo þingmenn Framsóknarflokksins voru kallaðir til tveir aðrir þingmenn flokksins sem aldrei hafa setið fundi sjávarútvegsnefndar, þeir voru bara kallaðir inn á fundinn og látnir skrifa upp á að þessi mál ætti að afgreiða út úr nefndinni.

Ég get alveg fullyrt það með fullri vissu að hvorugur þessara þingmanna hafði hugmynd um hvað þeir voru að skrifa undir. Þeir vissu sáralítið, gott ef nokkurn skapaðan hlut, um þau mál sem verið var að afgreiða úr nefndinni. Annar þessara þingmanna var varaþingmaður og var búinn að sitja á þingi í aðeins örfáa daga.

Þessi mál voru afgreidd úr nefndinni og annað þeirra kemur reyndar til umræðu seinna í dag. Þar er að finna nefndarálit meiri hluta nefndarinnar, sjávarútvegsnefndar, og tveir þingmenn Framsóknarflokksins hafa skrifað undir það mál sem ég tel vera mjög mikið og stórt mál, mál sem mun hafa alvarlegar afleiðingar, ekki síst fyrir sjávarútveg í Norðausturkjördæmi þaðan sem annar þessara þingmanna kemur reyndar, þ.e. hv. þm. Dagný Jónsdóttir. Þetta frumvarp mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútveg í því kjördæmi ef það nær fram að ganga í óbreyttri mynd. Þetta eru mjög skýr dæmi um óvönduð og algerlega óverjandi vinnubrögð, gott dæmi um hvernig þingmenn, að ég tel, eru hreinlega settir í þessa afleitu aðstöðu. Þeim er hreinlega gert að vinna undir þessum skilyrðum sem eru óþolandi. Ég er ekki með þessu að leggja þessum þingmönnum neitt illt til, þingmenn eru mennskir og þeir geta bara verið á einum stað í einu. En það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni þegar þingið er farið að starfa með þeim hætti að þingmönnum er nánast gert að vera á a.m.k. tveim stöðum í einu, gott ef ekki fleirum, við að afgreiða mjög mikilvæg og þung lagafrumvörp sem varða almenning í landinu. Því verðum við að breyta.