131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[13:14]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. þm. Jónína Bjartmarz hafi kannski misskilið orð mín. Ég var ekki að tala um að þingmenn kölluðu inn einhverja í sinn stað þegar þeir gætu af einhverjum ástæðum ekki setið nefndarfundi. Að sjálfsögðu gera allir flokkar það. Það höfum við líka gert í Frjálslynda flokknum, ef einhver okkar forfallast á nefndarfundi biðjum við einhvern annan af félögum okkar að hlaupa í skarðið. Það eru sjálfsögð og eðlileg vinnubrögð. Menn geta kannski ekki alltaf komist á alla fundi sem settir eru á.

Það sem ég var hins vegar að gagnrýna er það þegar þingmenn virðast reyna að vera á mörgum nefndarfundum samtímis, að ég tala þá ekki um mikilvæga þunga fundi þar sem verið er að tala um erfið og stór mál. Það er gagnrýnivert og það eru óþolandi vinnubrögð. Ég held að við hljótum öll að geta tekið undir það. Þá eiga flokkarnir náttúrlega að sjá til þess að reyna að kalla inn varamenn þannig að þingmenn séu til staðar á nefndarfundunum í heild sinni.

Það hlýtur líka að vera gagnrýnivert þegar þingmenn eru kallaðir inn í lok nefndarfundar til að skrifa upp á afgreiðslu mála út úr þingnefnd. Ég rifja upp þetta dæmi sem ég nefndi hér áðan, að þingmenn Framsóknarflokksins voru kallaðir í lok sjávarútvegsnefndarfundar inn á fund sem þeir höfðu ekki setið, inn á fund hjá nefnd sem þeir höfðu aldrei áður komið í eins og var í þessu tilfelli, til að skrifa upp á mál. Um getur verið að ræða stór og þung lagafrumvörp. Þeir vissu það, og það veit ég sjálfur vegna þess að ég var vitni að þessari uppákomu, þessir þingmenn koma þarna inn og skrifa upp á þetta þótt þeir viti í raun og veru ekkert um það sem þeir eru að skrifa upp á. Það var bara staðreynd. Það getur vel verið að ég sé reynslulaus hér á hinu háa Alþingi, ég veit það ekki, en ég verð að segja að ég er þó búinn að vera hér í tvo vetur og mér hrýs virkilega hugur við svona vinnubrögðum. Þetta er hreinlega ekki boðlegt og á það var ég einfaldlega að benda og gagnrýna í fullri vinsemd.