131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[13:16]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Hér hefur farið fram mjög fróðleg umræða um starfsemi þingsins eða þinghaldið sjálft og mörg sjónarmið komið fram en ekki hefur mér fundist vera langt á milli manna í þeim. Mér sýnist á öllu ef maður reynir að draga saman þau atriði sem þingmenn hafa nefnt hér að það sé mjög líklegt að menn geti náð góðri samstöðu um breytingar á þinghaldinu sem verði til þess að þingið bregðist frekar við þeim verkefnum sem fyrir því liggja hér á þinginu, verkefnum sem þingmenn sjálfir hafa lagt fram og óska eftir að þingið taki til meðferðar með formlegum hætti. Það er auðvitað eðlilegt að þingmenn ræði þinghaldið m.a. út frá því hlutverki sem þinginu er ætlað.

Ég tek alveg undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að þingmenn eru svo sannarlega ekki starfslausir þó að þingfundum hafi verið frestað. Þeir hafa mörg verkefni og í mörg horn að líta þannig að ég býst við að flestir geti sagt að verkefni séu ærin þann tíma sem þing er ekki að störfum. Hinu er ekki hægt að neita að það að Alþingi sé formlega ekki að störfum í fjóra og hálfan mánuð er of langt, sérstaklega þegar litið er til þarfarinnar sem birtist í þingskjölum sem dreift er hér í þinghúsinu. Menn verða auðvitað að bregðast við því.

Herra forseti. Ég tel menn hafa rætt þetta svo sem áður á undanförnum árum án þess að það hafi leitt til neinna breytinga. Mér er ekki alveg nákvæmlega ljóst hvernig starfsáætlun þingsins hverju sinni er ákvörðuð. Ég held að hún sé að jafnaði ekki borin undir þingflokka áður en forseti gefur hana út að hausti. Ég man ekki eftir því að t.d. starfsáætlun fyrir þetta þing hafi verið borin undir þingflokkana áður en hún var gefin út og ákveðið að ætti að ljúka störfum 11. maí. Auðvitað er það það sem þarf að breytast, og við breytum því ekki nema taka málið hér upp á þessum vettvangi, ræða það og heyra sjónarmið þingmanna í málinu.

Það getur ekki verið neitt ankannalegt við að ræða málið á þessum vettvangi, virðulegi forseti.