131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

57. mál
[14:19]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Í lýðræðisríki er eitt grundvallaratriði að upplýsingar séu gagnsæjar og opnar. Framsóknarmenn stigu fyrstir það skref að opinbera fjármál einstakra þingmanna í þingflokki sínum. Ég tel að það hafi verið jákvætt skref en verð jafnframt að vekja athygli á því að minna hefur farið fyrir því hjá öðrum og hlýt ég í þessu sambandi að nefna Samfylkinguna sérstaklega sem hefur kosið að birta ekki sambærilegar upplýsingar um sinn þingflokk. Ég hlýt líka að nefna Samfylkinguna af því að hún hefur kosið að birta ekki upplýsingar um fjármál Samfylkingarinnar sem stjórnmálaflokks en kemur hingað síðan reglulega heilög og hvítþvegin og talar á þeim nótum sem hér hefur átt sér stað. Aftur og aftur.

Ég trúi því hins vegar, frú forseti, að stjórnmálaflokkar muni áður en langt um líður stíga mikilvæg skref í þá átt að gera fjármál sín gegnsærri en verið hefur. Framsóknarmenn eru a.m.k. reiðubúnir að taka þátt í þeirri vinnu. Hvers vegna erum við að velta upp þessum spurningum nú? Það er vegna þess að menn eru líklega sammála um að stjórnmálum fylgi mikil völd, að því er talið er a.m.k., og menn eru líklega sammála um það einnig að þau völd eigi ekki að verða keypt í gegnum einstaka stjórnmálamenn eða flokka, hvort heldur er í prófkjöri eða í kosningum.

Frú forseti. Völdin liggja víðar í þessu samfélagi. Það er oft rætt um fjórða valdið, þ.e. fréttamenn og fjölmiðlamenn sem leggja grunninn að hinni lýðræðislegu og upplýstu umræðu í samfélaginu og hafa þar af leiðandi mikil bein og óbein áhrif á lýðræðisþróunina. Þess vegna er ekki óeðlilegt að spyrja hver tengsl einstakra blaðamanna séu við atvinnulíf, tengsl einstakra miðla við atvinnulíf og fjármálaheim. Með sama hætti og stjórnmálamenn eiga að gera grein fyrir þessu hljótum við að spyrja hvort fjölmiðlar, fjórða valdið, eigi ekki að gera slíkt hið sama lýðræðisins vegna, rétt eins og á að gilda um stjórnmálamenn (Forseti hringir.) og flokka.