131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

57. mál
[14:26]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði að stjórnmálaflokkarnir væru engar peningamaskínur, það þekktu þingmenn. Það er nú það. Framsóknarflokkurinn virtist ekki vera beinlínis blankur fyrir síðustu alþingiskosningar og Reykvíkingar eru ekki búnir að gleyma því enn þá hvernig formaður Framsóknarflokksins og hv. þm. Jónína Bjartmarz horfðu í Kim Il Jong stærð af húsveggjum í bænum á borgarbúa og menn gátu ekki opnað vefmiðil án þess að mæta augnaráði formanns Framsóknarflokksins. Allt þetta kostar að sjálfsögðu peninga, og mikla peninga.

Hér hefur verið rætt um að setja bann við því að fyrirtæki styrki stjórnmálaflokka. Mér finnst sú hugmynd íhugunarverð en ég segi þó að við eigum að byrja á því að opna fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Ég held nefnilega að þá mundi margt breytast.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að við eigum ekki að gera því skóna að stjórnmálaflokkar á Íslandi séu spillt öfl. Ég ætla ekki að skrifa upp á slíka syndaaflausn fyrir alla stjórnmálaflokka í landinu öllum stundum. Það er rangt sem fram kemur í skýrslu hæstv. forsætisráðherra að stórlega hafi dregið úr hættu á spillingu tengdri stjórnmálastarfsemi á Íslandi. Ég held að þessi hætta hafi aldrei verið meiri en núna og vísa ég þar í einkavæðingu ríkisstjórnarinnar og hugsanleg fjármálatengsl sem því tengjast. Af þessu verða flokkarnir ekki hreinsaðir nema þeir opni bókhald sitt. Að sjálfsögðu á að setja um þetta almennar reglur og lög (Forseti hringir.) en það er ekkert sem bannar flokkunum sjálfum að taka frumkvæði eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerði við stofnun flokksins, að hafa allt sitt (Forseti hringir.) bókhald opið.