131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

57. mál
[14:29]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er þarft fyrir okkur að taka á störfum í stjórnmálaflokkunum, að ræða fjárhagslega stöðu þeirra og starfsemi almennt. Við í Frjálslynda flokknum tókum þá afstöðu þegar við stofnun flokksins að hafa bókhaldið opið. Við höfum þar að auki gefið upp beint ef spurt hefur verið um flokka fyrirtækja, hvort olíufélögin hafi gefið og þá hversu mikið, hvort líftæknifyrirtæki hafi gefið og þá hversu mikið o.s.frv. Þær upplýsingar liggja allar fyrir og er hægt að fá fram ef menn óska.

Við höfum látið endurskoða bókhald okkar á hverju einasta ári og það er síðan sett inn á heimasíðu okkar þannig að þangað er hægt að sækja allar grunnupplýsingar. Við höfum líka gert grein fyrir því hvað kosningabarátta okkar hefur kostað í hverju tilviki. Við gerðum áætlun fyrir síðustu alþingiskosningar sem var upp á um það bil 13 millj. sem reyndar stóðst ekki alveg, við fórum aðeins fram úr því, að mig minnir í 14,5 milljónir, þannig að upplýsingar okkar liggja allar fyrir. Ég tek hins vegar undir að það er þarft að við ræðum þetta saman í stjórnmálaflokkunum og reynum að setja okkur samræmdar reglur um birtingu varðandi fjármál og styrki. Ég held að það væri mjög æskilegt að við kæmum okkur saman um reglur. Svo að ég nefni einhverja einfalda reglu gætum við flokkað upp fyrirtæki, fyrirtæki í sjávarútvegi, fyrirtæki í verslun, banka o.s.frv. Hver flokkur gæfi þá a.m.k. upp nákvæmlega hvað kæmi í styrki til flokksins frá einstökum fyrirtækjahópum og síðan væri hægt að brjóta það upp betur ef menn þora ekki að stíga skrefið til fulls og opna þetta alveg sem ég held þó að sé miklu (Forseti hringir.) eðlilegra.