131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Loftferðir.

699. mál
[15:00]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili þeim áhyggjum sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og sömuleiðis hv. þm. Jón Bjarnason lýstu um það að heimilað verði að í íslenskum loftförum beri áhafnir byssu, þ.e. verði byssumenn eins og það hefur verið orðað. Ég deili líka þeirri frómu hugsun að skynsamlegra hefði e.t.v. verið að bíða eftir alþjóðalögum.

Hins vegar er málið miklu flóknara en svo, eða einfaldara gætum við e.t.v. sagt, því að í mínum huga lýtur þetta fyrst og fremst að því hvort Flugleiðir eigi að geta flogið áfram til Bandaríkjanna sem er ákveðinn grundvöllur að tilveru Flugleiða. Það liggur nefnilega í loftinu að Bandaríkjamenn muni einhliða ákveða að loftför sem koma inn í bandaríska lofthelgi verði að hafa slíka heimild, verði að hafa vopnbæra menn um borð. Þá verðum við að svara grundvallarspurningunni: Ætlum við að leggja stein í götu Flugleiða? Ef þeir geta ekki flogið til Bandaríkjanna í áætlunarferðir sínar er grundvöllur að tilveru félagsins hreinlega hruninn. Það er það sem þetta mál snýst um núna. Ef raunveruleikinn væri annar ættum við auðvitað að bíða eftir einhverjum alþjóðaregum en það liggur í loftinu að Bandaríkjamenn muni einhliða setja þessi skilyrði fyrir flugi inn í bandaríska lofthelgi.