131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[15:22]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson er eiginlega bara að taka undir það sem ég sagði hér og ég er honum því sammála. Ég vil þó vekja athygli á því að það voru ekki þessir þættir trygginganna sem ég var að fjalla um. Tryggingarnar verða að vera í fullkomnu lagi eins og nokkur kostur er en þessi stofnun á ekki að taka á móti upphæðunum og tryggingaféð á ekki að leggja inn á reikning þessarar stofnunar. Það er það sem ég fann að og eins líka vil ég að settar séu mjög þröngar, sterkar og ákveðnar reglur um það hvaða tryggingar eru metnar gildar fyrir hinar stærri ferðaskrifstofur og aðra sem standa í því. Það á ekki að vera með svona opið heimildarákvæði eins og er í c-liðnum.

Annars er ég alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni, þeim áherslum sem hann tók undir með mér. (Gripið fram í.)