131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[15:23]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í því frumvarpi til laga um skipan ferðamála sem við erum með hér til 2. umr. kemur margt gott fram og sannarlega er verið að færa þennan málaflokk inn í ákveðinn lagabálk og festu sem er af hinu góða, þessi heildarendurskoðun á skipan ferðamála. Meðal annars er lagt til að hlutverki ferðamálaráðs verði breytt og því gert kleift að gegna hlutverki stjórnsýslustofnunar.

Það þarf ekki að orðlengja mikið um þetta jákvæða frumvarp sem sett er hér fram. Eins og oft er getur maður verið ánægður með það sem er í frumvarpi en frekar spurt um ýmislegt sem vantar í það. Nefndin t.d. breytir því ákvæði sem fjallað var um í byrjun að Samband íslenskra sveitarfélaga ætti ekki fulltrúa í ferðamálaráði og leggur til að fulltrúarnir verði tveir, en ekki einn sem er mjög til bóta. Það var gert eins og kemur fram í nefndarálitinu og er alveg rétt að þýðir það að Samband íslenskra sveitarfélaga mun huga að ferðaþjónustu um allt land og skipa fulltrúa miðað við það. Það er örugglega töluverður munur á sveitarfélögum eftir því hvort þau eru lítil eða stór, á höfuðborgarsvæði eða landsbyggð, gagnvart ferðamálum. Mörg lítil sveitarfélög úti um land eru stóraðilar að ferðamálum vegna þess að aðrir koma ekki að þeim þætti. Viðkomandi þáttur hefur kannski ekki rekstrargrundvöll nema í samfélagslegri þjónustu svo að maður noti orð sem stundum heyrast notuð. Þó að það sé engin óskastaða að sveitarfélög séu í ferðamannarekstri er það engu að síður nauðsyn, sama þá hvort það er á upplýsingastofu í litlum sveitarfélögum, tjaldstæði eða enn öðru. Ég veit t.d. til þess að í því fallega byggðarlagi Vopnafirði hafa bæjaryfirvöld tekið sig til og byggt upp hótelið. Þau sáu fram á að ef það væri ekki í rekstri mundi það skaða mjög ferðaþjónustu á þeim stað svo að þau fóru í miklar breytingar og lagfæringar og reka það með miklum glæsibrag. Þar er hægt að fá góða þjónustu.

Þetta legg ég, herra forseti, aðeins inn í þetta mál til að draga fram þann rökstuðning sem allir nefndarmenn eru sammála um, þ.e. að Samband íslenskra sveitarfélaga skuli tilnefna tvo aðila þarna og vænti ég þess að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem oft þarf að nefna tvo nefni þá frá hinum ólíku svæðum landsins svo að ég kveði ekki fastar að orði.

Það var líka ansi athyglisvert að hlusta á fulltrúa Ferðafélags Íslands og Útivistar sem komu til fundarins og einmitt ánægjulegt að nefndin öll skuli leggja til þá breytingu sem hér er gerð. Það er sem sagt um það að Ferðamálastofa skuli og geti ákveðið undanþágur fyrir þessi tvö félög frá því að vera í fullkomnum rekstri og með fullgilt ferðaskrifstofuleyfi. Þetta er mikilvægt að draga fram. Fulltrúar þessara tveggja félaga sem eru með mikla og góða starfsemi hafa byggt upp skála, vegi og ýmislegt annað sem nýtist ferðamönnum og félögum þessara félaga, og ekki eingöngu þeim heldur öllum þeim sem ferðast um landið. Það er mikilvægt að á þetta skuli vera hlustað. Það er eins og kom fram á fundinum, það var sannarlega ekkert vandamál að sækja um ferðaskrifstofuleyfi en það væri kannski erfiðara að uppfylla öll þau ströngu skilyrði sem þar eru. Ég er því mjög ánægður með að við skyldum ná samkomulagi um þetta líka og það sé lagt til.

Aðeins varðandi þáttinn sem hér hefur orðið um félög eða aðila sem hafa orðið gjaldþrota og þær breytingar sem eru þarna settar fram, þ.e. að í stað fjögurra ára sé þriggja o.s.frv., langar mig bara til að hafa sagt það hér að auðvitað er það mjög slæmt í ferðaþjónustu þegar menn sigla í kaf. Það kom fram í fréttum ekki alls fyrir löngu um gjaldþrot fyrirtækja — mig minnir að það hafi verið þá aðallega veitingastaðir — gjaldþrot slíkra staða eru því miður allt of mikil og við gjaldþrot getur það verið þannig, og er það oftast nær, að þeir aðilar tapa sem hafa selt viðkomandi aðila eitthvað og ekki fengið borgað. Ríkissjóður tapar oft vegna þess að vörsluskattar og annað slíkt kom ekki inn. Þá er það auðvitað umhugsunarefni og full ástæða til að taka á, sama hvort það er varðandi ferðaþjónustufyrirtæki eða önnur, að hægt sé nánast að ganga yfir götuna, stofna nýtt félag og hefja næstum því alveg eins rekstur. Það er mjög alvarlegt mál og full ástæða til að skoða það þó að það eigi ekki eingöngu við um ferðaþjónustuna sem fjallað er um hér. Þetta á auðvitað við um miklu fleiri atriði.

Fulltrúi Félags leiðsögumanna sem ég held að félagið heiti kom og færði fram rök fyrir sínum málum og þess vegna er líka ánægjulegt að við setjum inn þessi atriði um leiðsögumenn, um að þeir hafi „þýðingarmiklu hlutverki að gegna við að fræða ferðamenn um land og þjóð. Þeir eru mikilvægur hlekkur í að tryggja góða umgengni um landið. Náttúra landsins er hornsteinn íslenskrar ferðaþjónustu og því er starf þessara hópa greininni mikilvægt. Telur nefndin rétt að ráðuneytið hugi að setningu reglna um kröfur sem gera þarf til þessara hópa varðandi hæfni, menntun og öryggismál.“ — Þarna kom fram að Félag leiðsögumanna er aðili að einhverjum heimssamtökum og það er sífellt verið að gera meiri kröfur til leiðsögumanna þannig að þeir sem hafa þá gæðavottun að vera leiðsögumenn hafa gengið í gegnum ákveðinn skóla og fengið fræðslu.

Það er kannski rétt að benda líka á það, virðulegi forseti, að ef ferðamenn koma í skipulögðum hópum og ætla að kaupa sér leiðsöguþjónustu eru leiðsögumenn þeir fyrstu sem mæta ferðamanninum þegar hann kemur til viðkomandi lands. Það kemur oft í hlut leiðsögumanna að leysa úr ýmsum vandamálum sem þá koma upp. Sá sem leysir málin er ekki endilega viðkomandi ferðaskrifstofa sem gæti þess vegna verið úti í heimi eða ferðaskrifstofa hér á landi sem hefur selt ferðina. Öll gögn hafa jafnvel komið til viðkomandi aðila og hann er með allt í höndum en það gengur ekki eitthvað upp, rútan er ekki tilbúin, bílaleigubíllinn ekki til staðar eða jafnvel bókað hótelherbergi ekki til staðar, og þá kemur það yfirleitt í hlut þessara leiðsögumanna að leysa úr vandamálunum. Þau eru örugglega ákaflega mikilvæg, þessi fyrstu kynni af landi og þjóð viðkomandi, og þá er brýnt að fá trausta og góða starfsmenn sem taka á þeim vandamálum sem koma upp og leysa úr þeim þannig að ferðamaðurinn verði ánægður með ferðina sem er fram undan um viðkomandi land.