131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[15:31]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta mál sem við erum að ræða er þarft og þó að ég hafi fyrirvara á þessu nefndaráliti um skipan ferðamála snýr það eiginlega ekki almennt að því að ég hafi mikinn fyrirvara um þetta mál. Ég vil hins vegar ræða aðeins um stöðu leiðsögumanna og landvarða. Það tengist í mínum huga talsvert mikið markaðssetningu ferðaþjónustunnar hvernig þessir aðilar sem annast leiðsögu annars vegar og hins vegar sýsla um land okkar koma fram og hvaða þekkingu þeir hafa til að bera. Við skulum minnast þess að umgengni um landið og skipulag hennar í framtíðinni munu verða mál sem við verðum að taka mjög föstum tökum vegna þess að ferðamönnunum fjölgar geysilega hratt um þessar mundir. Allar líkur eru á því eins og hér hefur verið sagt að innan tiltölulega fárra ára verði þeir ekki um 360 þús. eins og í dag heldur jafnvel heil milljón á hverju einasta ári.

Þetta gerir auðvitað sérstaklega þá kröfu til okkar að við höfum gott skipulag á ferðamálunum, sérstaklega að því er varðar hálendisferðir og aðrar ferðir þar sem kannski er ekki verið að veita mikla og skipulagða þjónustu, bæði að því er varðar það hvernig ferðast er um landið og ekki síður hvernig umgengnin verður og hvernig við viljum hafa hana. Þetta held ég að sé mikið mál og þess vegna hvet ég hæstv. samgönguráðherra til að taka mjög alvarlega þá leiðbeiningu sem kemur fram í nefndarálitinu og segir að ljóst sé að t.d. leiðsögumenn á landinu hafi þýðingarmiklu hlutverki að gegna við að fræða ferðamenn um land og þjóð og séu mikilvægur hlekkur í að tryggja góða umgengni um landið. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að takast á við það að skoða þessi mál nánar og stöðu þessa veigamikla hlekks í ferðaþjónustu okkar sem er líka að mínu viti ekki neinn smáhlutur að því er varðar markaðssetningu landsins í heild, þ.e. að þetta fólk hafi mikla færni, geti kynnt land okkar, leiðsagt fólki um landið, hafi góða færni til að gefa upplýsingar o.s.frv.

Þá megum við ekki gleyma öryggisþættinum sem kemur þarna inn í. Við skulum alveg vita það, Íslendingar, að með fjölgandi ferðamönnum megum við þurfa að vera viðbúin því að veita meiri öryggisþjónustu. Það fylgja oft fleiri slys og óhöpp því þegar ferðamönnum fjölgar mikið.

Þetta vildi ég leggja áherslu á og fyrirvari minn snýr m.a. að því að draga þetta fram í umræðunni og ég óska sérstaklega eftir því að samgönguráðherra taki þessi mál til gaumgæfilegrar skoðunar. Ég tel að þar séum við að þjóna bæði hagsmunum landsins og líka góðri markaðssetningu ásamt því að tryggja þá gott öryggi í landinu. Öll þessi atriði eru jákvæð fyrir íslenska ferðaþjónustu, íslenskt þjóðfélag og íslenskt land og virka í sjálfu sér eins og góð markaðssetning fyrir okkar ágæta ferðamannaland.