131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:52]

Frsm. minni hluta samgn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lögregla fór líka fram á það fyrir rúmu ári að fá heimild til að hlera símtöl fólks, einmitt með nákvæmlega sama markmið að leiðarljósi, að upplýsa um hræðilegu glæpina sem er verið að fremja úti í samfélaginu. Sem betur fer, virðulegi forseti, stöðvaði hv. allsherjarnefnd og hið háa Alþingi þá áætlan en auðvitað eru allar slíkar heimildir veittar í þágu góðs málstaðar. Ef við horfum bara á það hvaða rök lögreglan hefur fram að færa fyrir málstað sínum, ef við förum bara eftir því hvaða heimildir hún vill fá í þágu rannsóknar, værum við búin að leyfa hlerun símtala án dómsúrskurðar. Ég ítreka það, virðulegi forseti, að það er mjög mikilvægt að Alþingi standi vörð um grundvallarreglur íslenska réttarríkisins, um stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna um friðhelgi einkalífs, mannréttindi sem við byggjum á mannréttindasáttmála Evrópu. Við gerum það ekki með þessu frumvarpi.

Ég ítreka enn og aftur alvarleika þess að leggja þá miklu ábyrgð sem lögð er með þessu frumvarpi á herðar starfsmönnum fjarskiptafyrirtækja sem eru ekki opinberir starfsmenn oft og tíðum sem njóta verndar eins og t.d. dómarar gera og aðrir sem hafa ákveðnu hlutverki að gegna. Við erum að leggja þá ábyrgð á herðar starfsmönnum einkafyrirtækja að veita aðgang að upplýsingum sem getur með þessum hætti flækt þá inn í rannsókn og í samskipti við glæpamenn. Við erum líka að leggja þá ábyrgð á herðar því fólki.

Ég hef þær upplýsingar frá starfsmönnum fjarskiptafyrirtækja að þeir hafi fengið hótanir vegna þess að þeir hafa veitt aðgang að svona upplýsingum frá umræddum glæpamönnum. Við skulum átta okkur á því, virðulegi forseti, að við erum líka að leggja mikla ábyrgð á herðar því fólki sem hefur ekki það hlutverk samkvæmt íslenskum lögum að sinna þessari ábyrgð.