131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[16:01]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einfaldlega alrangt hjá hv. þingmanni. Það sem um er að ræða er að án dómsúrskurðar geti lögreglan fengið aðgang að leyninúmeri eða IP-tölu. Með þeim hætti er gróflega gengið gegn friðhelgi einkalífsins að mínu mati. Markmiðin með frumvarpinu, sem allir eru sammála um, nást að sjálfsögðu fullkomlega fram þó að sá sjálfsagði varnagli sé sleginn gagnvart friðhelgi borgaranna að lögregla þurfi dómsúrskurð til að nálgast umræddar IP-tölur eða leyninúmer. Þurfi að breyta ákvæðum annarra laga til að auðvelda lögreglu það að fá dómsúrskurð í þeim málum sem um ræðir á að gera það í gegnum þau lög sem um það gilda.

Persónuvernd hefur til að mynda skorað á stjórnvöld í umsögn sinni að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til og hefur fullyrt að eins og málið líti út sé verið að ganga lengra en þarf og samrýmist ekki sjónarmiði um meðalhóf varðandi vinnslu persónuupplýsinga. Það er það sem um ræðir. Enginn heldur því fram að ekki eigi að breyta lögunum í þá átt að auðvelda lögreglu störf sín og það að elta uppi umrædda þrjóta sem hv. þingmanni verður svo tíðrætt um í málsvörn sinni og allir eru sammála um að þurfi að sjálfsögðu að ná.

Það er einungis verið að tala um að til að vernda persónufrelsi borgaranna þurfi lögregluyfirvöld að fá dómsúrskurð til að geta nálgast umræddar IP-tölur eða leyninúmer. Það er sjálfsögð krafa, sjálfsögð réttarvörn fyrir borgarana að sú krafa sé gerð að lögregla þurfi dómsúrskurð. Ef það er of erfitt fyrir lögreglu að fá dómsúrskurð til að nálgast upplýsingarnar á að breyta réttum lögum sem þar um ræðir en ekki gera það bakdyramegin í gegnum lög um fjarskipti.