131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[16:05]

Frsm. minni hluta samgn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta samgöngunefndar en undir þetta álit skrifa ásamt mér hv. þm. Kristján L. Möller, Björgvin G. Sigurðsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.

Ég ætla að byrja á því, virðulegi forseti, að ræða þann þátt málsins sem mikill ágreiningur er um því að eins og hér hefur verið rakið af hv. framsögumanni meiri hluta samgöngunefndar er þetta að mörgu leyti, sérstaklega eftir breytingar hv. samgöngunefndar, orðið tiltölulega saklaust mál sem við erum að fjalla um hér. Sumar greinar, t.d. 1. gr., munum við styðja. Við 2. gr. munum við sitja hjá en við munum greiða atkvæði gegn 9. gr. frumvarpsins. Verði hún samþykkt munum við greiða atkvæði gegn frumvarpinu við lokaafgreiðslu þess. Svo alvarlega lítum við á að þetta mál sé með 9. gr. frumvarpsins innan borðs.

Af því að hv. þm. Hjálmar Árnason lét að því liggja að upplýsingar um IP-tölur væru ósköp saklausar upplýsingar — það mátti eiginlega skilja það af máli hans að Persónuvernd væri í einhverjum misskilningi um að þetta væru persónuupplýsingar, það væri bara tiltölulega saklaust og eðlilegt að lögreglan hefði aðgang að þessu án dómsúrskurðar — vil ég benda á það sem fram kemur í umsögn Símans um þetta mál. Þetta hef ég fengið staðfest hjá fjölmörgum sérfræðingum á sviði fjarskipta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hafi lögregla komist yfir IP-tölu eru miklar líkur til þess að notkun viðkomandi einstaklings sé þar á bak við; með öðrum orðum gefur IP-tala möguleika á að tengja saman notkunarmynstur og persónu.“

Sjá hv. þingmenn virkilega ekki nokkra hættu í því að lögregla hafi aðgang að slíkum upplýsingum án dómsúrskurðar? Auðvitað eru alltaf til þær röksemdir sem hv. þingmaður nefnir hér. Hann talar rétt eins og við sem erum á móti 9. gr. frumvarpsins séum að slá skjaldborg um barnaníðinga og eiturlyfjabaróna. Auðvitað eru sömu rök á bak við slík brot, öll afbrot sem eru framin, að lögregla þarf að hafa víðtækar heimildir til að upplýsa þau. En þessar heimildir eru alltaf innan tiltekinna meginreglna stjórnarskrár, mannréttindasáttmála um vernd borgaranna fyrir ofríki ríkisvaldsins, meginreglna um meðferð opinberra mála og réttarfarsreglna. Hvað ætlum við svo að gera hér, virðulegi forseti? Hið háa Alþingi ætlar að gera breytingu á þessum grundvallarreglum í gegnum lög um fjarskipti án þess að lögum um meðferð opinberra mála sé breytt með sama hætti, án þess að um þetta mál sé t.d. fjallað á sviði réttarfarsnefndar sem ætti að vera sá sérfræðingur sem gæti helst fjallað um það.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég hélt að það væru eftir einhverjir af þeim hv. þingmönnum, meðal a.m.k. sjálfstæðismanna, sem stæðu enn þá vörð um friðhelgi einkalífs og vildu vernda borgarana gegn ofríki ríkisvaldsins. Svo virðist ekki vera, virðulegi forseti, úr því að menn eru tilbúnir að kvitta upp á 9. gr. þessa frumvarps. (Gripið fram í.)

Ég minnti á það í andsvari að fyrir ári kom frumvarp fyrir allsherjarnefnd ættað frá hæstv. dómsmálaráðherra þar sem óskað var eftir heimild lögreglu til að fá að hlera símtöl án dómsúrskurðar. Það voru nákvæmlega sömu röksemdir sem bjuggu að baki því frumvarpi og búa að baki því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Það átti að ná tökum á ósvífnum glæpalýð, og sagt var: Að sjálfsögðu mun lögreglan fara vel með þessar heimildir. Ég ætla henni heldur ekki neitt annað. En enn og aftur, virðulegur forseti, sem betur fer áttaði hv. allsherjarnefnd sig á því að sú heimild sem var óskað eftir þá af hálfu ríkislögreglustjóra fór langt út fyrir þann ramma sem 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um sama efni setja okkur, að ekki sé talað um lög um meðferð opinberra mála. Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að fari þessi 9. gr. í gegn óbreytt stangast hún á við öll þessi ákvæði sem ég var að tala um hér. Það er algjörlega ljóst, virðulegi forseti, að hún stangast á við 86. og 87. gr. laga um meðferð opinberra mála sem segja að til að fá aðgang að slíkum upplýsingum þurfi úrskurð dómara. Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með að ekki skuli vera fleiri einstaklingar en virðast vera í stjórnarandstöðunni tilbúnir til að slá skjaldborg um friðhelgi einkalífs með þeim hætti sem við erum að gera með því að mótmæla þessari 9. gr.

Ég ber þá von í brjósti enn þá, virðulegi forseti, þó að nú sé komið að því að við ætlum að fara að slíta þessu þingi, eða fresta því, að fólk í stjórnarliðinu hlusti á þau rök sem við færum hér fram og láti þessa 9. gr. liggja. Ég geri mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að hæstv. samgönguráðherra sem flytur þetta mál er í ákveðnum vanda staddur því að það er nauðsynlegt að samþykkja t.d. 1. gr. frumvarpsins til að við getum klárað fjarskiptaáætlun. Ég er tilbúin að samþykkja þá grein orðalaust þannig að það er engin nauðsyn á því að þessi 9. gr. hangi við þetta frumvarp. Ég skil satt best að segja ekki kergjuna í mönnum að vera ekki tilbúnir að bíða með þessa 9. gr., í andstöðu við Persónuvernd og jafnumdeild og hún er, bíða með hana þá a.m.k. fram á haustið og taka hana til skoðunar inni í þeim apparötum sem eiga að fjalla um slík ákvæði. Það er ekki gert með meðferð samgöngunefndar á þessu máli.

Ég spyr: Var t.d. leitað álits hjá dómstólaráði um þetta mál? Ég minnist þess ekki að hafa séð umsögn frá dómstólaráði. Ég efast um að við höfum sent frumvarpið þangað til umsagnar. Hvað með réttarfarsnefnd sem á að fjalla um réttarfarsleg málefni? Við erum að fjalla um slík málefni og við gerum það ekki í gegnum lög um meðferð opinberra mála, heldur í gegnum fjarskiptalög.

Það var rakið af hálfu hv. þm. Hjálmars Árnasonar að það verklag hafi verið stundað að fjarskiptafyrirtækin hafi oft og tíðum veitt lögreglu þessar upplýsingar án dómsúrskurðar. Það hefur verið ágreiningur þarna á milli og fjarskiptafyrirtækin hafa gjarnan komið sér hjá því að veita þessar upplýsingar og vísað til þess að það þurfi dómsúrskurð, þeim sé ekki heimilt að veita þessar upplýsingar án dómsúrskurðar. Eðlilega hafa þau gert það. Þau hafa sennilega leitað sér ráðgjafar hjá lögmönnum sínum sem hafa væntanlega bent þeim á að það væru önnur lög í landinu eins og lög um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mannréttindasáttmáli sem stæðu í vegi fyrir því að þau gætu veitt slíkar persónuupplýsingar. Lögregla er ósátt við þetta, einkum í ljósi þess að skilyrði laga um meðferð opinberra mála fyrir því að veita dómsúrskurð fyrir svona upplýsingum eru mjög ströng. Það er í raun og veru vandamálið sem við stöndum frammi fyrir.

Það hefur verið rakið m.a. að 25. apríl sl. gekk úrskurður Hæstaréttar þar sem synjað var beiðni um aðgang að slíkum upplýsingum. Það var brotist inn í tölvu tiltekins fjarskiptafyrirtækis. Sendur var út tölvupóstur á 1.300 póstföng í nafni þessa tiltekna fjarskiptafyrirtækis sem innihélt hlekk á grófa klámsíðu. Auðvitað var með þessu verið að skaða hagsmuni fjarskiptafyrirtækisins. Dómari neitaði hins vegar um aðgang að IP-tölu þessarar umræddu tölvu í ljósi þess að brotið sem verið var að fjalla um varðaði ekki allt að átta ára fangelsi, eins og skilyrði eru fyrir að veita aðgang að slíkum upplýsingum samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Annaðhvort þarf brotið að varða allt að átta ára fangelsi eða mikla almanna- eða einkahagsmuni. Dómari mat það svo að það ætti ekki við í þessu máli og vísaði m.a. til þess að mannréttindasáttmáli Evrópu og stjórnarskrárákvæði um friðhelgi einkalífs settu slíkum aðgangi mjög þröngar skorður. Þá segir lögreglan þetta: Dómararnir — sem eru þó að dæma eftir lögunum, ekki satt? — vilja ekki veita okkur dómsúrskurð og þá verðum við bara að gera breytingu á fjarskiptalögum.

Nú vil ég spyrja hv. stjórnarliða — ég sé að hv. framsögumaður meiri hluta er ekki hér staddur en hér er staddur hv. formaður samgöngunefndar Alþingis, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson: Ef starfsmaður fjarskiptafyrirtækis sem eftir samþykkt þessara laga fær beiðni frá lögreglu, símtal frá lögreglu, lögregla er að rannsaka mál, hann fær símtal og það er sagt: Heyrðu, ég þarf að fá aðgang að tilteknu leyninúmeri eða IP-tölu, hvert er það? Ja, það er bara verið að rannsaka mál og ég þarf að fá þessar upplýsingar og ykkur er skylt að veita mér þær samkvæmt lögum sem nýbúið er að samþykkja frá Alþingi um breytingu á fjarskiptalögum.

Jú, það er vissulega rétt vegna þess að við erum að leggja þessa skyldu á herðar starfsmönnum fyrirtækjanna ef við samþykkjum þessa breytingu. Þeim verður skylt að veita lögreglu í þágu rannsóknar opinbers máls slíkar upplýsingar. En starfsmönnunum er vandi á höndum vegna þess að í lögum um meðferð opinberra mála segir í 86. gr. að heimilt sé í þágu rannsóknar „að leggja fyrir síma- eða fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á eða tekin séu upp símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki eða að öðrum kosti síma eða fjarskiptatæki í eigu eða umráðum tilgreinds manns“, og m.a. ber þeim í ljósi þess að heimild sé í þágu rannsóknar að fá upplýsingar hjá síma- eða fjarskiptafyrirtækjum um símtöl eða fjarskipti við tiltekið síma- eða fjarskiptatæki o.s.frv. en til slíkra aðgerða þarf úrskurð dómara. Það sem meira er, síðan segir að til þess að dómari megi veita slíkan aðgang þurfi brotið að varða lög um allt að átta ára fangelsi ef ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist þess.

Hvað á þessi blessaði starfsmaður fjarskiptafyrirtækisins að gera? Á hann að fara eftir lögum um fjarskipti þar sem honum er skylt að afhenda þessar upplýsingar eða á hann að fara eftir lögum um meðferð opinberra mála þar sem honum er bannað að gera það án dómsúrskurðar? Ég er alveg sannfærð um hvað lögmaðurinn hans mundi segja honum ef hann spyrði hann, ég er alveg 100% viss, hann mundi segja: Þér er ekki heimilt að veita slíkar upplýsingar. Ég get fullyrt það hér að ég mundi hvetja starfsmenn fjarskiptafyrirtækja til að gera það í slíkri aðstöðu. Mér finnst algjörlega óviðunandi og ólíðandi af Alþingi að setja slíka löggjöf með jafnstuttum undirbúningi og við gerðum í hv. samgöngunefnd án þess að jafnframt séu tekin fyrir lög um meðferð opinberra mála og þau skoðuð í samhengi við þá breytingu sem við erum að gera hér. Við erum að búa til árekstur tvennra laga, að ekki sé nú talað um stjórnarskrá og mannréttindasáttmála ef því er að skipta.

Við erum líka að víkja frá tiltekinni meginreglu íslenskra réttarfarslaga sem birtist í 86. og 87. gr. laga um meðferð opinberra mála um að við búum við ákveðinn varnagla. Við borgararnir búum við ákveðinn varnagla sem er sá að það er dómari sem á að meta þetta. Það er ekki rétt að það sé lögregla sem á að meta það hvort ganga megi svona nálægt borgurunum. Lögreglan rannsakar málið. Auðvitað vill hún hafa allan aðgang að upplýsingum okkar til að geta rannsakað mál og auðvitað ætlar hún í langflestum tilvikum ekki að misnota þessa aðstöðu sína. En sem betur fer höfum við búið okkur þannig umhverfi að borgararnir njóta ákveðinnar verndar vegna þess að það er ákveðin hætta á því að ríkisvaldið geti misnotað aðstöðu sína gagnvart borgurunum. Það þekkjum við vonandi öll á hinu háa Alþingi að sú hætta er fyrir hendi og þess vegna höfum við búið okkur til ákveðnar reglur í stjórnarskránni, 71. gr., og í þeim sáttmálum sem við höfum undirgengist eins og mannréttindasáttmála Evrópu sem við höfum reyndar líka gert að íslenskum lögum. Ég er svolítið hissa á því, virðulegi forseti, að ríkislögreglustjóri sem á frumkvæði að þessari lagasetningu, eftir því sem mér skilst, og kallar á að hún komist í gegnum Alþingi skuli ekki fara fram á það að þessi breyting sé þá gerð, sé nauðsyn á henni yfirleitt, í gegnum lög um meðferð opinberra mála. Ég ætla ekki að leggja mat á það hér — ég hef ekki kannað það, við könnuðum það ekki í hv. samgöngunefnd — hvort það stæðist 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 71. gr. stjórnarskrár ef lögum um meðferð opinberra mála yrði breytt þannig að skilyrði væru ekki átta ára fangelsi heldur eitthvað lægra, kannski sex ára fangelsi eða eitthvað slíkt, ég bara nefni eitthvert dæmi. En ég geri ráð fyrir því að það sé einhver ástæða fyrir því að skilyrðin í lögum um meðferð opinberra mála eru svona ströng. Hvað ætlum við að gera? Við ætlum að hleypa lögreglunni fram hjá þessum skilyrðum með því að gera breytingu á fjarskiptalögum og leggja þá óhóflegu ábyrgð á starfsmenn fjarskiptafyrirtækja að veita aðganginn að þessum persónuupplýsingum. Eins og ég rakti í andsvari mínu finnst mér það algjörlega fráleitt.

Miðað við það réttarkerfi sem við búum við eru ákveðnir starfsmenn sem eru opinberir starfsmenn eins og dómarar og lögregla sem hafa mikla ábyrgð í samfélaginu en þeir njóta ákveðinnar verndar umfram almenna borgara. Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að við leggjum ekki einhverjar óhóflegar skyldur á almenna borgara þessa lands sem starfa hjá einkafyrirtækjum úti í bæ til að veita slíkar upplýsingar, ég tala nú ekki um þegar vafi leikur á því hvort það athæfi standist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála. Mér finnst algjörlega óviðunandi að Alþingi leggi slíka skyldu á herðar þessum starfsmönnum. Þetta ætlum við að gera, virðulegi forseti.

Hv. framsögumaður meiri hluta segir sem svo að auðvitað treystum við lögreglunni, hún misnoti ekkert þessar heimildir o.s.frv. En af hverju erum við þá með alla þessa varnagla? Af hverju látum við ekki lögregluna bara hafa óheftar heimildir? Auðvitað vegna þess að sagan hefur sýnt að það er ástæða til að setja henni ákveðin mörk, alveg eins og öðrum handhöfum valds. Það er ástæða til að setja þeim ákveðin mörk og við erum búin að skuldbinda okkur að alþjóðalögum og með þeirri stjórnarskrá sem við höfum sett okkur til að hafa þennan ramma í lagi.

Við erum að fara út fyrir hann með þessu frumvarpi.

Það er líka annað sem við erum að gera með þessu frumvarpi. Við göngum lengra en nauðsyn krefur. Við erum með öðrum orðum að brjóta meðalhófsreglu íslenskra laga. Af hverju segi ég það þegar menn geta nefnt í ræðustóli nýlega úrskurði Hæstaréttar sem geta vissulega virkað ósanngjarnir? Ég segi þetta vegna þess að það eru ekki slíkir hagsmunir í húfi að það sé nauðsynlegt að setja þessi lög með skömmum fyrirvara á Alþingi, að ekki sé skoðað betur en við gerum í hv. samgöngunefnd stjórnarskrárákvæði og mannréttindasáttmálann áður en við gerum svona breytingu. Það að setja þennan almenna varnagla sem réttarfarslöggjöfin hefur sett um dómsúrskurðinn sem mundi gera það að verkum að við erum örugglega innan rammans skaðar enga rannsóknarhagsmuni í þessum málum. IP-tölur og leynisímanúmer eru fastar stærðir. Þær fara ekkert þó að beðið sé eftir úrskurði dómara sem í langflestum tilvikum er veittur innan örfárra klukkustunda. Ég vek athygli á því. Mér þykir þess vegna athyglisvert líka að heyra röksemdir ríkislögreglustjóra núna fyrir nauðsyn þess og þær röksemdir sem koma fram í hv. allsherjarnefnd, m.a. frá meiri hlutanum sem var haft eftir lögreglunni, að svo miklir rannsóknarhagsmunir skaðist ef beðið er eftir úrskurði dómara, það taki svo langan tíma að fá úrskurð dómara og það sé verið að setja óhóflegt álag á dómarana ef verið er að biðja um dómsúrskurð í slíkum málum.

Hver er svo reyndin, virðulegi forseti? Dómstólaráð kom fyrir allsherjarnefnd á sínum tíma, fyrir um það bil ári, og við fengum upplýsingar hjá því um alla þessa þætti. Og hvað kemur í ljós? Í langflestum tilvikum, ég man ekki lengur prósentuna en það var í allra flestum tilvikum, fékkst dómsúrskurðurinn innan örfárra klukkustunda. Það er sólarhringsvakt hjá dómurum við að sinna þessu og úrskurðurinn er veittur í langflestum tilvikum innan örfárra klukkustunda. Í einstaka tilvikum hefur það dregist í einn, tvo eða þrjá daga en það er þá algjörlega einstakt. Ríkislögreglustjóra er fullkunnugt um þetta, segi ég og fullyrði. Þess vegna þykir mér furðulegt að heyra þessar röksemdir enn og aftur á hinu háa Alþingi ári síðar en reyndar í annarri nefnd, í samgöngunefnd Alþingis. Ég held að það hafi verið skynsamlegt af okkur í samgöngunefnd að biðja allsherjarnefnd um umsögn í málinu. Til þess vannst ekki tími. Málið var unnið með miklu hraði eins og ég mun fara yfir á eftir sem er heldur ekki nægilega góð aðferð við lagasetningu.

Það er líka merkilegt að lesa það í umsögn ríkislögreglustjóra með þessu tiltekna frumvarpi í ljósi þess sem hv. allsherjarnefnd fjallaði um fyrir ári síðan í þeirri nefnd þar sem við vorum með beiðni um að veita opna heimild til hlerana á símtölum, mál ættað frá hæstv. dómsmálaráðherra. Hverjar voru röksemdirnar? Jú, það var nauðsynlegt til að rannsaka og upplýsa um eiturlyfjabarónana og glæpamennina. Þá er verið að biðja Alþingi um að veita þessa heimild án dómsúrskurðar. Því var hafnað eins og ég rakti hér áðan, sem betur fer.

En hvað segir ríkislögreglustjóri nú í umsögn sinni? Með leyfi forseta:

„Allir eru sammála því að hlustun samtala og upplýsingar um efni samskipta eiga að njóta hámarksverndar.“

Um þetta voru menn ekki sammála fyrir ári. Þá bað lögreglan um þennan aðgang að hlerunum án dómsúrskurðar þannig að hámarksverndin var ekki meiri en svo fyrir ári, að mati lögreglu. Þá stóð hv. þingmaður nokkur í allsherjarnefnd — og ég ítreka að það var enginn pólitískur ágreiningur í hv. allsherjarnefnd um efni þess að breyta því ákvæði þegar upp var staðið. Menn settust bara yfir það í einlægni og áttuðu sig á því að þarna væri of langt gengið þrátt fyrir það að lögreglan væri að biðja um þessar upplýsingar. Það var okkar, hv. þingmanna, að standa vörð um stjórnarskrá, mannréttindi og friðhelgi einkalífs borgaranna. Ég verð að segja að mér finnst ekki að allir þeir ágætu hv. þingmenn sem sitja fyrir hönd meiri hlutans í hv. samgöngunefnd hafi staðið sig nægilega vel í að skoða þetta mál ofan í kjölinn á sama hátt og gert var í hv. allsherjarnefnd á sínum tíma þegar hlerunarmálið kom þar fyrir.

Það er líka eitt sem er mikilvægt fyrir okkur borgarana að vita. Þegar um er að ræða heimildir lögreglu til að rannsaka einkalíf okkar — það er nauðsynlegt að slíkar heimildir séu til staðar þegar verið er að upplýsa brot — er líka mjög mikilvægt fyrir okkur borgarana að geta áttað okkur á því hvaða reglur gildi um þetta. Þess vegna höfum við komið því þannig fyrir í löggjöf okkar að við höfum þessar reglur á einum stað, þ.e. í lögunum um meðferð opinberra mála. Þar eru ítarlegar reglur um það hvað borgarinn geti gert ef hann telur á sér brotið af t.d. lögreglu, þekki kæruleiðir varðandi málsmeðferðir, aðgerðir lögreglu o.s.frv. Hvað erum við að gera hér? Við erum ekki að fara inn í lög um meðferð opinberra mála. Við ætlum að veita þessa heimild í gegnum fjarskiptalögin og nú vil ég spyrja hv. þingmenn meiri hlutans: Hvernig á að fara með það ef einhver tiltekinn hv. þingmaður, ég get nefnt sem dæmi hv. þm. Sigurjón Þórðarson af því að hann situr beint fyrir framan mig, er með leyninúmer og lögreglan telur að rannsaka þurfi eitthvað í fari hans — hann er með öðrum orðum undir rannsókn lögreglu — á grundvelli þessarar heimildar veitir fjarskiptafyrirtæki aðgang að leyninúmeri hans eða IP-tölunni þannig að lögreglan geti kannað hvernig umferð hans um netið er háttað. Á hann þá rétt á því að fá að vita um þetta ef svo kemur í ljós að hann er blásaklaus? Á hann rétt á að fá að vita um það að lögregla hafi haft þennan aðgang að persónuupplýsingum hans? Getur hann með einhverjum hætti samkvæmt fjarskiptalögunum sem við erum að nota hér til að veita aðgang að persónuupplýsingum kært þessa aðgerð lögreglu eða fjarskiptafyrirtækisins eftir atvikum sem er ábyrgt fyrst og fremst samkvæmt þessu frumvarpi?

Ég spyr hv. þingmenn meiri hlutans hvernig þeir telja að með eigi að fara í slíkum tilvikum. (Gripið fram í: Hvort ertu að tala um IP-tölu eða númer?) Hvort tveggja. Við erum að veita heimild fyrir hvoru tveggja hér. Ég held að það sé engin tilviljun, virðulegi forseti, að við höfum komið því þannig fyrir að heimildir lögreglu til að hafa aðgang að einkalífi fólks eru í einum lagabálki þannig að borgararnir hafi skýra mynd af því hvernig þessum reglum er háttað. Þessar athugasemdir hafa m.a. komið fram hjá Persónuvernd og fleiri aðilum um að það sé mjög varasamt og beinlínis hættulegt réttarríkinu að setja slíkar heimildir tvist og bast í sérlögum. (SigurjÞ: Hvað liggur á?) Fyrir utan það eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson segir: Hvað liggur á? Það er önnur saga. Það virðist vera gríðarlega mikið í húfi og það gefst ekki tími til að kanna málið betur en á örfáum klukkustundum í hv. samgöngunefnd.

Við erum líka að fara fram hjá þeirri meginreglu að skipa þessum reglum öllum á einn stað í lagabálki og ef ég mundi vilja kynna mér það hvaða heimildir íslensk löggjöf gefur lögreglunni til að kanna einkalíf mitt mundi ég lesa lög um meðferð opinberra mála og komast að þeirri niðurstöðu að það þyrfti dómsúrskurð til að veita aðgang að slíkum upplýsingum, algjörlega klárlega, á sama hátt og fjarskiptafyrirtækin hafa í auknum mæli verið að svara lögreglu, að þau megi ekki veita þessar heimildir vegna þess að lög um meðferð opinberra mála gera ráð fyrir að það þurfi dómsúrskurð í slíkum tilvikum.

Þetta er ekki aðeins mín skoðun, virðulegi forseti. Ég bendi á að álíka skoðun kemur t.d. fram í umsögn símanefndar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, ef ég fer rétt með. Samkvæmt umsögn þeirra eru þeir reyndar þeirrar skoðunar að veita þurfi þessar heimildir og að rétt sé að gera þessar breytingar á fjarskiptalögunum, enda leggja þeir líka mikla áherslu á að nauðsynlegt sé að gera breytingar á lögum um meðferð opinberra mála samhliða slíkri breytingu. Þetta kemur fram í fleiri umsögnum, að við séum í raun að setja lög sem stangist á við önnur lög sem gilda í landinu.

Virðulegi forseti. Við getum deilt um það hvort þessi breyting sé innan marka 71. gr. stjórnarskrárinnar, sem er tiltölulega almennt orðuð eða 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þótt ég sé á þeirri skoðun að of langt sé gengið í þeim efnum. Hins vegar færum við augljóslega, virðulegi forseti, á svig við 86. og 87. gr. laga um meðferð opinberra mála með því að samþykkja þessa grein. Ég ítreka að það er beinlínis þannig að lögreglan hefur beðið um þessa heimild vegna þess að fjarskiptafyrirtækin og dómstólar landsins, þar á meðal Hæstiréttur, hefur sagt að það megi ekki veita aðgang að þessum upplýsingum nema með ákveðnum skilyrðum sem talin eru upp í lögum um meðferð opinberra mála. Hvað ætlum við að gera þá? Hæstiréttur segir að til þurfi alvarlegt brot og Hæstiréttur segir að þau brot sem við viljum opna fyrir að lögregla hafi slíka heimild til að vinna með séu ekki nægilega alvarleg. En þá ætlum við að breyta fjarskiptalögum. Ég hlýt að spyrja, virðulegi forseti: Teljum við þetta virkilega góða lagasetningarhætti? Og hef ég þá ekki enn hafið mál mitt um meðferð hv. samgöngunefndar á þessu máli og þann tíma sem nefndin gaf sér til að fjalla um málið.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki heldur nein tilviljun að lýðræðisríki hafi komið sér upp því fyrirkomulagi víðs vegar um heiminn að dómari eigi að meta það hvenær veita eigi aðgang að upplýsingum sem snerta friðhelgi einkalífs hjá borgurunum. Það er engin tilviljun. Þetta er ákveðinn varnagli sem sleginn hefur verið í löggjöf fjölmargra ríkja og við eigum að halda okkur, ef við erum í einhverjum vafa, þeim megin að það sé borgurunum í hag. Ég vil, virðulegi forseti, mótmæla þeim röksemdum sem oft hafa komið fram í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar, talsmanns meiri hlutans í þessu máli, þegar hann segir að þetta snúist um tvenns konar hagsmuni sem rekist á, annars vegar um persónuvernd og hins vegar almannahagsmuni. Ég spyr, virðulegi forseti, í tilefni af þeim orðum hv. þingmanns: Eru það ekki almannahagsmunir að borgararnir njóti friðhelgi einkalífs og njóti ákveðinnar verndar gegn því að ekki sé unnt að fara inn í þeirra persónulega líf nema eftir ákveðnum reglum? Auðvitað eru það almannahagsmunir, virðulegi forseti, enda höfum við sett okkur þær reglur í samfélagi okkar.

Hins vegar kann að vera eitthvað til í því sem hefur komið fram, m.a. þeim röksemdum sem meiri hlutinn leggur fram fyrir máli sínu, að tæknin hafi breyst þannig að afbrotamenn hafi í auknum mæli getað nýtt sér hana til að brjótast lengra en löggjöfin nær utan um. Auðvitað koma upp slík dæmi, að löggjöfin nái ekki að halda í við tækniþróunina og við þurfum þá eitthvað að gera þegar slíkir hlutir koma upp. Hvað gætum við þá gert í því tilviki? Hvað er það sem löggjafarsamkundan gæti gert ef við yrðum sammála um að gera eitthvað. Ég mundi vilja skoða það betur áður en ég féllist á að nauðsynlegt væri að gera þetta en það væri unnt að endurskoða skilyrði laga um meðferð opinberra mála. Þar með værum við réttu megin.

Við gætum sagt: Við viljum tryggja borgurunum öryggi í þessum efnum. Lögreglan þarf að fá dómsúrskurð sem yfirleitt er veittur innan nokkurra klukkustunda, eins og hér hefur komið fram, en skilyrðin í lögum um meðferð opinberra mála eru óþarflega ströng miðað við þessi brot. Við skulum endurskoða þau. Sem betur fer er það þannig í flestum tilvikum að menn vanda sig áður en lögum um meðferð opinberra mála er breytt. Þar er um að ræða mjög viðkvæm mál. Það er t.d. sérstök nefnd sem hefur þann starfa að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um réttarfarsleg málefni, sem er réttarfarsnefnd. Þar sitja helstu sérfræðingar okkar lands á sviði réttarfarsmála sem þekkja vel þessi tilteknu ákvæði mannréttindasáttmála, bæði mannréttindasáttmálans og stjórnarskrárinnar, og vita nákvæmlega eða hafa a.m.k. þekkingu til að meta málið betur en við, með fullri virðingu fyrir okkur þingmönnum. Þess vegna er að mínu mati óhugsandi að breyting yrði gerð á lögum um meðferð opinberra mála í snarhasti. Við eigum að vanda okkur við þá lagagerð og gefa okkur tíma til að kafa ofan í það hvort slík breyting, ef við breyttum því skilyrði að brot þurfi að varða átta ára fangelsi eða miklum almanna- eða einkahagsmunum, væri eðlileg. Við mundum kannski koma til móts við óskir lögreglu með því að breyta þeim viðmiðunum en þá þurfum við að skoða vandlega hvort sú breyting væri innan ramma stjórnarskrár og mannréttindasáttmála. En við gerum það ekki, virðulegi forseti, með því að gera breytingu á fjarskiptalögum og skáskjóta okkur hjá meginreglum um friðhelgi einkalífs og mannréttindi. Það er það sem hér stendur til að gera.

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðinn skilning á sjónarmiðum lögreglunnar en dómarar hafa að sjálfsögðu dæmt í aðra veru þegar Hæstiréttur úrskurðaði þann 25. apríl síðastliðinn að það ætti ekki að veita aðgang að þessum upplýsingum. Sá úrskurður er á grundvelli þeirra laga sem gilda í landinu, á grundvelli stjórnarskrár og mannréttindasáttmála — eða hvað? Halda menn að Hæstiréttur hafi verið að dæma á einhverri annarri forsendu? Ég ítreka að það er fráleitt að gera slíka breytingu í gegnum fjarskiptalög, sem væri á ábyrgð meiri hluta Alþingis, virðulegi forseti, í andstöðu við lög um meðferð opinberra mála. Ég hef heyrt því sjónarmiði fleygt hér á meðal hv. þingmanna meiri hlutans að æskilegt sé að breyta lögum um meðferð opinberra mála strax í haust en fram að þeim tíma yrði þessi réttaróvissa sem hér á að búa til með því að samþykkja 9. gr. Við værum að búa til lagagrein sem stangast á við aðra lagagrein og gefum okkur ekki tíma til að skoða málið til hlítar áður. Ég spái því, virðulegi forseti, að fjarskiptafyrirtækin muni eftir sem áður, a.m.k. mörg hver, neita því að veita þá heimild vegna þess að þau hafa hingað til skýlt sér á bak við að þessar upplýsingar séu háðar fjarskiptaleynd. Ef maður skoðar umsagnir sem hafa verið gefnar um þetta mál, virðulegi forseti, frá Persónuvernd og fleiri aðilum, þá er þeim ekki heimilt að veita slíkar upplýsingar vegna stjórnarskrárinnar, vegna mannréttindamála Evrópu og laga um meðferð opinberra mála, nema með úrskurði dómara. Það er réttarstaða þeirra eftir sem áður. Ég mundi a.m.k. telja verulega hæpið fyrir fjarskiptafyrirtæki að veita slík leyfi á grundvelli þessarar lagagreinar. Svona á maður ekki að vinna að löggjöf, virðulegi forseti.

Við getum líka velt því fyrir okkur að á hinu háa Alþingi er ákveðin verkaskipting á milli nefnda. Hvaða nefnd hefur verið falið að fjalla um réttarfarsleg málefni? Það er allsherjarnefnd Alþingis. Samgöngunefnd hefur ekki verið falið það enda veljast menn inn í samgöngunefnd eftir annarri sérþekkingu eða öðrum áhugasviðum en þeim að þar séu saman komnir menn sem mest kunna að vita af hv. þingmönnum um réttarfarsleg mál. Allt bendir til þess að þarna, með samþykkt 9. gr., fari meiri hlutinn illa að ráði sínu og ég tel, virðulegi forseti, að það gangi ekki að gera þetta með þessum hætti.

Skoðum 71. gr. stjórnarskrár, samanber 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi hér á landi. Ég ítreka að sáttmálinn hefur ótvírætt skuldbindingargildi gagnvart borgurum þessa lands. Samkvæmt þessum ákvæðum má ekki gera „… líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.“ — Hvað er verið að gera hér annað en að veita heimild til skerðingar á einkalífi manns, símtölum hans og öðrum fjarskiptum? Auðvitað erum við að veita slíka heimild hér.

Það er líka kveðið á um það í 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu að sérhver maður eigi rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Á því er hnykkt að opinber stjórnvöld skuli ekki ganga á þennan rétt nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og að nauðsyn beri til í lýðræðisþjóðfélagi. Þarna er minnt á hina svokölluðu meðalhófsreglu íslenskra laga.

Hér hefur verið spurt og kallað fram í: Hvað knýr á? Af hverju liggur svona mikið á? Í þessari umræðu hefur einnig eðlilega verið spurt, virðulegi forseti: Hvaða rannsóknarhagsmunir tapast? Hv. þm. Hjálmar Árnason talaði um það áðan og er kominn til að hlusta á og hlýðir á mál mitt af athygli. Hann sagði áðan að oft gæti það verið spurning um andartak að upplýsa mál og það væri of seint að bíða eftir dómsúrskurði. Hvaða hagsmunir tapast á þeim klukkustundum, eða jafnvel þó að dagar mundu líða, eftir að dómsúrskurður fengist? Það tapast nákvæmlega engir rannsóknarhagsmunir á meðan vegna þess að tölurnar sem veita þarf aðgang að og þau númer sem á að veita aðgang að eru fastar stærðir. Þær fara ekki neitt. IP-tala hv. þm. Hjálmars Árnasonar fylgir tölvu hans og fer ekki neitt. Leiki grunur á því að einhver IP-tala eða að á grundvelli hennar hafi verið brotist inn í fyrirtæki, eins og gerðist í málinu sem úrskurður Hæstaréttar frá 25. apríl gengur út á, þá er hægt, með því að upplýsa um þessa tölu eins og lögregla hefur rakið fyrir okkur, að komast að því hver framdi þetta tiltekna innbrot. A.m.k. er hægt að finna tölvuna sem það var gert með. Þessar upplýsingar fara ekki neitt og það er rangt sem hv. þm. Hjálmar Árnason segir, að það tapist miklir rannsóknarhagsmunir með því að bíða eftir dómsúrskurði. Það hefur ekki verið sýnt fram á það.

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti okkar gagnrýnum við þingmenn minni hluta samgöngunefndar það vinnulag sem viðhaft var í nefndinni um þetta mál og hve knappan tíma nefndin hafði til vinnslu málsins. Fyrir það fyrsta var þetta mál ekki rætt sérstaklega. Ekki aðeins er 9. gr., sem fjallar um þau umdeildu mál sem eru til umfjöllunar hér, skellt inn í fjarskiptalögin í kringum algerlega óskyld ákvæði eins og t.d. að heimila skuli gerð fjarskiptaáætlunar, heldur er þetta mál rætt samhliða fjarskiptaáætlun og sent út til umsagnar samhliða því þingmáli. Þeir sem fengu málið til umsagnar þurftu á þeirri rúmu viku að gefa umsögn um fjarskiptaáætlun, sem er mjög umfangsmikið þingmál. Hinn skammi umsagnartími hafði í för með sér að fjölmargir umsagnaraðilar ýmist treystu sér ekki til að veita umsögn um málið eða lýstu því yfir að vegna skamms tímafrests hafi ekki reynst unnt að kanna tiltekna þætti þess til hlítar.

Ég hef ekki séð umsagnir frá t.d. dómstólaráði, frá réttarfarsnefnd sem ættu þó að fjalla um svo viðamikið mál sem það sem felst í 9. gr. frumvarpsins. En við höfum umsögn frá ríkissaksóknara, virðulegi forseti, þar sem segir, með leyfi forseta, og ég held að það sé rétt að hv. þm. Hjálmar Árnason hlýði á þá umsögn ef honum kynni að hafa yfirsést hún. Í umsögn embættis ríkissaksóknara segir, með leyfi forseta:

„Embætti ríkissaksóknara, sem ekki þekkir til undirbúnings þessara þingmála, telur sig með engu móti geta á þeim fresti sem veittur er látið uppi álit eða umsögn um frumvarpið þar sem gerðar eru fjölmargar tillögur um breytingar á gildandi fjarskiptalögum auk þess sem þar er lagt til að fyrir Alþingi sé lögð tillaga til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun til næstu fimm ára.“

Ríkissaksóknari treysti sér með öðrum orðum ekki til að gefa umsögn um málið sem þó varðar mjög mikilvægt réttarfarslegt málefni.

Hvað segir lögreglustjórinn í Reykjavík í umsögn sinni, virðulegi forseti. Hann segir ýmislegt í umsögn sinni, m.a. segir hann þetta, með leyfi forseta:

„Vegna hins skamma tíma sem er til umráða hefur ekki gefist tóm til að gaumgæfa frumvarpið eins og æskilegt hefði verið.“

Lögreglustjórinn í Reykjavík segir þetta, virðulegi forseti. En hv. þingmenn meiri hlutans í samgöngunefnd eru eigi að síður tilbúnir til þess að taka ábyrgð á því að hleypa þessu máli í gegn þó að þau embætti sem hafa yfir að ráða fullt af sérfræðingum á sviði þeirra mála sem við erum að fjalla um hér treysti sér ekki til að meta það á þessum tíma, en hv. þingmenn meiri hlutans í samgöngunefnd treysta sér til að meta það að þetta sé allt í góðu lagi.

Tíminn sem hv. samgöngunefnd hafði til umfjöllunar um málið var ekki langur. Frumvarpið var lagt fram á þingi 7. apríl sl., 1. umr. fór fram 19. apríl og var því vísað til samgöngunefndar 20. apríl. Tveim dögum síðar, 22. apríl, var samþykkt að senda málið út til umsagnar og var frestur gefinn til 2. maí. Í nefndinni gafst af þessum sökum ekki mikill tími til vinnslu málsins, þar fór fram kynning af hálfu ráðuneytis 25. apríl og var tekin tæp klukkustund í þann þátt málsins á þeim fundi. Að loknum umsagnarfresti, 2. og 3. maí, var frumvarpið rætt ásamt fjarskiptaáætlun í um það bil eina klukkustund á hvorum fundi og 6. maí voru síðan breytingartillögur kynntar, afgreiðslu málsins frestað í skamman tíma en það afgreitt út úr nefndinni sama kvöld. Þannig voru aðeins notaðar örfáar klukkustundir til vinnslu málsins og á þeim skamma tíma komu einnig þeir fjölmörgu gestir sem taldir eru upp í upphafi nefndarálits minni hluta, og reyndar meiri hluta líka, fyrir nefndina til að skýra mál sitt. Ég ætla ekki að tefja umræðuna með því að lesa upp þá fjölmörgu aðila sem komu fyrir nefndina. Hv. þingmenn geta lesið sér til um það sjálfir í nefndaráliti. Slík vinnubrögð eru algerlega ófullnægjandi af hálfu meiri hlutans og einungis til þess fallin að rýra gæði löggjafarstarfsins og auka á óskýrleika löggjafar. Ekki síst er slík málsmeðferð ólíðandi þegar mál snertir viðkvæm stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna eins og friðhelgi einkalífs og persónuvernd, en þetta frumvarp fjallar, eins og hér hefur komið fram, m.a. um heimildir lögreglu til að fá tilteknar persónuupplýsingar afhentar án dómsúrskurðar. Ég er þeirrar skoðunar að nefndin hefði þurft mun lengri tíma og hefði átt að gefa sér þann tíma, virðulegi forseti. Það hefði verið miklu skynsamlegra að taka 9. gr. út úr frumvarpinu og gefa sér tíma fram á haustið til að skoða það betur og hvort ástæða væri til að skoða þetta ákvæði, m.a. í ljósi laga um meðferð opinberra mála, og haga sér þá eins og menn og gera þær lagabreytingar sem til þarf um leið og þessi breyting er gerð.

Það má líka nefna það, virðulegi forseti, að formaður Persónuverndar óskaði eftir því að fá að koma öðru sinni. Persónuvernd hafði komið fyrir samgöngunefnd til að fjalla um málið, fékk hins vegar málið aftur til umsagnar eftir að breytingartillögur nefndarinnar voru lagðar fram, og að því loknu óskaði formaður Persónuverndar eftir að koma fyrir hv. samgöngunefnd en við því var ekki hægt að verða af hálfu meiri hlutans, væntanlega sökum þess hversu mikil tímapressa var á málinu, en auðvitað hefði það mátt vera til þess að skýra málstað Persónuverndar betur fyrir nefndinni. Það er einhver ástæða fyrir því, virðulegur forseti, að Persónuvernd setur sig algerlega gegn 9. gr. frumvarpsins og við eigum að kanna þær ástæður betur.

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál sé að miklu leyti vanreifað og ég er sannfærð um að ef við hefðum gefið okkur meiri tíma til að kanna þennan þátt málsins, skoða þennan réttarfarslega þátt, skoða málið í samhengi við lög um meðferð opinberra mála, í samhengi við stjórnarskrá og 8. gr. mannréttindasáttmálans hefðum við komist að þeirri niðurstöðu að við gætum ekki gert þetta. En í staðinn lítur væntanlega út fyrir að látið verði á það reyna hvort fjarskiptafyrirtækin hlíti þessu lagaákvæði og hvort þau muni þá fara eftir því við meðferð mála eða hvort þau fari eftir lögum um meðferð opinberra mála, sem væntanlega mun þá enda að lokum fyrir dómstólum landsins.

Ég harma það, virðulegi forseti, að hið háa Alþingi skuli ekki leggja meiri vinnu í þetta mál, sérstaklega í ljósi þess að himinn og jörð eru ekki að farast, hv. þm. Hjálmar Árnason, núna. Það er hægt að gefa sér tíma í að skoða málið betur. Himinn og jörð eru ekki að farast þótt við bíðum með það fram á haustið og gerum það þá almennilega.

Ég gæti eytt löngu máli í að lesa umsagnir sem bárust um málið. Ég ætla ekki að gera það, virðulegi forseti. Ég held að sjónarmið mín og okkar í minni hlutanum hafi komið fram í þessu máli en það eru fjölmargir aðilar sem leggjast gegn þessu ákvæði laganna, 9. gr., m.a. Verslunarráð sem leggst gegn því að horfið sé frá þeirri meginreglu íslensks réttarfars að friðhelgi einkalífsins verði ekki aflétt án undangengins dómsúrskurðar. Það eru fjölmargir aðrir aðilar, fjarskiptafyrirtæki og Samtök atvinnulífsins að ekki sé talað um Persónuvernd, sem leggjast mjög harkalega gegn þessu ákvæði frumvarpsins. Enn og aftur vil ég ítreka að ég tel að við séum að fara á svig við grundvallarreglur íslenskra laga og grundvallarreglur íslenska réttarríkisins á borð við 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 75. gr. stjórnarskrárinnar, 86.–87. gr. laga um meðferð opinberra mála og ég vil minna á það, virðulegi forseti, að þessar reglur eru settar til að vernda borgarana gegn hugsanlegu ofríki ríkisvaldsins. Ég vil líka meina að ef við færum aðrar leiðir í þessu efni og áskildum áfram dómsúrskurð værum við líka að vernda starfsmenn fjarskiptafyrirtækja fyrir þeirri óhóflegu ábyrgð sem verið var að leggja á þá með því að veita slíkar upplýsingar.

Ég kom lítillega inn það í andsvari mínu áðan við hv. þm. Hjálmar Árnason að ég hef upplýsingar um að starfsmenn fjarskiptafyrirtækja hafi lent í verulegum vandræðum vegna slíkra mála, þeir hafi lent í samskiptum við meinta afbrotamenn, sem er algerlega ólíðandi að við séum að setja á ábyrgð þessa starfsfólks, og þrátt fyrir að þeir setji sér verklagsreglur þá er það oft þannig í litlu samfélagi og á litlum vinnustöðum að auðvelt er að átta sig á hverjir veita á endanum eða taka ákvörðun um slíkt. Einhver þarf að gera það á endanum, virðulegi forseti, það er ekki hægt að komast hjá því og það er ekki eðlilegt að leggja slíka ábyrgð á herðar óbreyttum borgurum sem starfa hjá einkafyrirtækjum í landinu, algerlega óviðeigandi og ólíðandi að mínu mati. Þeir njóta ekki sömu verndar og þeir opinberu starfsmenn sem hafa því hlutverki að gegna að taka slíkar ákvarðanir, m.a. á grundvelli sérþekkingar sinnar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Við hv. þingmenn Samfylkingarinnar munum greiða atkvæði með 1. gr. frumvarpsins sem snýst um heimild til að gera fjarskiptaáætlun. Við munum sitja hjá við sumar greinar frumvarpsins. Við munum hins vegar greiða atkvæði gegn 9. gr. og fari svo illa að hv. þingmenn meiri hlutans hafi ekki séð að sér að lokinni þessari umræðu og frumvarpið komi til afgreiðslu við 3. umr. með 9. gr. óbreyttri innan borðs munum við greiða atkvæði gegn frumvarpinu við heildarafgreiðslu málsins.