131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

677. mál
[17:40]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tók að mér framsögu fyrir málinu en þannig háttar til að Jón Gunnarsson átti að vera framsögumaður fyrir því og er aðalhöfundur að nefndarálitinu sem ég rita undir ásamt hv. þm. Jóni Gunnarssyni, Kristjáni L. Möller og Guðjóni A. Kristjánssyni auk þess sem Jón Bjarnason er áheyrnarfulltrúi í sjávarútvegsnefnd og er samþykkur þessu áliti. Ég mæli því fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um uppboðsmarkaði sjávarafla frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.

Lengi hefur verið beðið eftir endurskoðun á lögum nr. 123/1989, um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla. Þau lög voru sett þegar uppboðsmarkaðir fyrir fisk voru að hefja starfsemi sína og bera þess glögg merki að ekki var vitað á þeim tíma hvernig starfsemi slíkra markaða mundi þróast og hvort sú tilraun, að setja upp uppboðsmarkaði fyrir fisk, mundi takast.

Fiskmarkaðir hafa fest sig í sessi frá þeim tíma sem þeir voru fyrst settir á laggirnar og hefur tækni við uppboð og aðferðir sem notaðar eru mikið breyst frá fyrstu dögum fiskmarkaðanna. Lagaumhverfið hefur ekki þróast með þeim breytingum sem orðið hafa á starfsaðferðum og hafa eigendur og viðskiptaaðilar markaðanna lengi kallað eftir nýrri lagasetningu um starfsemi þeirra.

Það vakti því nokkra furðu þegar nýtt lagafrumvarp var lagt fram á Alþingi hversu líkt það var gildandi lögum og hve lítill metnaður eða vinna virtist lögð í að sníða ný lög að þeim aðstæðum sem uppi eru. Frumvarpið virðist samið án mikils samráðs við hagsmunaaðila, enda komu fram ábendingar frá þeim sem sýndu svo ekki var um villst að þetta nýja frumvarp uppfyllti á engan hátt væntingar sem til þess höfðu verið gerðar og að nauðsynlegt væri að gera á því umtalsverðar breytingar þannig að unnt yrði að starfa eftir því. Verulegar breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu í meðförum sjávarútvegsnefndar sýna svo ekki verður um villst að ekki var vandað nægjanlega til gerðar frumvarpsins í upphafi. Meiri hluti nefndarinnar lagði strax fram breytingartillögur við efni frumvarpsins og voru þær teknar til umræðu í nefndinni en þar er að nokkru leyti tekið tillit til athugasemda markaðanna sjálfra og einnig til gagnrýni sem kom fram í umræðum á Alþingi við 1. umr. um málið.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að sjávarútvegsráðherra veiti leyfi til reksturs uppboðsmarkaða og verða leyfin ótímabundin, sem er breyting til bóta frá núgildandi lögum þar sem endurnýja þarf leyfi árlega. Í fyrri lögum var lögð sú skylda á ráðherra að við veitingu leyfa skyldi ráðherra m.a. meta hvort skilyrði væru til frjálsrar verðmyndunar á uppboðsmarkaði með hliðsjón af líklegu fiskframboði, fjölda fiskvinnslustöðva á markaðssvæði og starfsemi annarra uppboðsmarkaða. Þetta orðalag er tekið óbreytt upp í frumvarpinu nú en er algjörlega úrelt að mati minni hlutans. Uppboðsmarkaðir fyrir sjávarafla eru orðnir fjölmargir á landinu og er markaðssvæði hvers um sig landið allt. Kaupendur sem staðsettir eru á einum stað kaupa fisk á mörkuðum í öðrum landsfjórðungum og óskiljanlegt að við lagasetningu nú skuli 16 ára gamall lagatexti, sem ber keim af varkárni gagnvart nýju formi við ákvörðun á fiskverði, tekinn upp óbreyttur í nýtt frumvarp. Það er engin leið og engin þörf fyrir ráðherra að leggja mat á skilyrði fyrir frjálsri verðmyndun með tilliti til fiskframboðs, fjölda fiskvinnslustöðva á starfssvæði og starfsemi annarra markaða. Nær væri að setja almenn hæfisskilyrði fyrir markaði og að þeim uppfylltum fengju þeir leyfi.

Í 2. gr. frumvarpsins er skýrð merking hugtaka og hefur skilgreining þeirra tekið breytingum í meðferð sjávarútvegsnefndar í þá veru að færa skilgreiningu þeirra nær þeim raunveruleika sem er á íslenskum fiskmörkuðum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að allur afli sé sýnilegur á uppboðsstað og aðilar geti kynnt sér hann þar. Núverandi fyrirkomulag er hins vegar meira í þá veru að fiskur er boðinn upp óséður af kaupanda og er aflinn oft enn um borð í veiðiskipi við sölu. Breytingartillögur í nefndinni taka á þessum ágalla frumvarpsins.

Breytingartillögur sem nú eru komnar fram taka einnig til þeirra aðstæðna sem eru í rekstri fiskmarkaða varðandi miðlægan uppboðsstað og tilveru Reiknistofu fiskmarkaðanna. Í upprunalegu frumvarpi ráðuneytisins var á engan hátt tekið tillit til þeirrar þróunar sem hefur orðið í uppboðsmálum sjávarafla og ef þær skilgreiningar sem þar koma fram á starfsemi uppboðsmarkaðanna yrðu að lögum væri fiskmörkuðum gert ókleift að starfa í þeirri mynd sem þeir hafa þróast í undanfarin ár.

Minni hlutinn gerði athugasemdir við umfjöllun málsins varðandi efni 3. gr. sem fjallar um hverjir geti fengið leyfi til reksturs uppboðsmarkaða. Í greininni er á engan hátt tekið nægjanlega skýrt á eignarhaldi markaðanna og verði hún óbreytt að lögum getur sami aðili verið seljandi afla, eigandi og rekstraraðili uppboðsmarkaðar og kaupandi sama afla. Slíkar aðstæður kalla á tortryggni þeirra sem við markaðinn skipta og benti Fiskistofa meðal annars á þessa hættu í umsögn sinni um frumvarpið. Uppboðsmarkaður hefur milligöngu um sölu mikilla verðmæta og nauðsynlegt er að bæði kaupendur og seljendur á markaðnum geti treyst því að hagsmunir annars séu ekki teknir fram yfir hagsmuni hins.

Samkvæmt frumvarpinu sem fyrir liggur skal ráðherra setja reglur um gagnsæi viðskipta, birtingu uppboðsskilmála og um uppboðslýsingar. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvernig þær reglur verða, en það mun skipta miklu varðandi starfsemi uppboðsmarkaðanna. Betra hefði verið að nú við umræðuna hefðu legið fyrir drög að þessum reglum þannig að unnt væri að leggja mat á áhrif þeirra á starfsumhverfi markaðanna. Lítið samráð við hagsmunaaðila við gerð þessa frumvarps leiddi til þess að við framlagningu stangaðist það í veigamiklum atriðum á við þann raunveruleika sem uppboðsmarkaðir starfa við. Gæta þarf þess að hið sama endurtaki sig ekki við gerð reglna á grundvelli þeirra laga sem hér er verið að setja.

Gert er ráð fyrir því í 8. gr. að rekstraraðili uppboðsmarkaðar hafi í þjónustu sinni a.m.k. einn starfsmann sem sjái um framkvæmd uppboðs. Þessi starfsmaður er kallaður uppboðsstjóri og skal hann hafa löggildingu til starfans sem sjávarútvegsráðherra veitir. Í greininni eða í skýringum við hana kemur ekki fram í hverju löggilding ráðherra er fólgin, hvaða menntun, reynslu eða önnur hæfisskilyrði uppboðsstjóri þarf að hafa, þrátt fyrir að hann eigi að stjórna uppboðum á miklum verðmætum. Uppboðsmarkaður sem felur miðlægum uppboðsstjóra að sjá um öll uppboð markaðarins þarf eftir sem áður að ráða til sín uppboðsstjóra og verður ekki séð hvaða þörf er á því við slíkar aðstæður.

Minni hlutinn telur að þrátt fyrir að nægur tími hafi gefist til að endurskoða eða setja ný lög um uppboðsmarkaði þá hafi sá tími verið illa nýttur. Frumvarpið sem lagt var fram á Alþingi bar öll merki þess að kastað hefði verið til höndum við samningu þess eða að höfundar frumvarpsins hafi ekki fengið nægjanlegt ráðrúm til að eiga samráð við þá aðila sem að greininni koma. Fram kom á fundum nefndarinnar að forsvarsmenn markaðanna vildu frekar að nægjanlegur tími gæfist til að vanda þessa vinnu betur en gert hafði verið en að sett yrðu ófullnægjandi lög um starfsemi uppboðsmarkaða. Meiri hluta sjávarútvegsnefndar lá mikið á að afgreiða málið út úr nefndinni þrátt fyrir ábendingar um alvarlega ágalla á frumvarpinu. Minni hlutinn telur að vinna þurfi málið betur en gert hefur verið og bersýnilegt að taka þurfi lögin fljótlega til endurskoðunar aftur vegna ágalla sem á þeim verða, verði frumvarpið samþykkt. Minni hlutinn leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. forseti. Þetta er greinargerð minni hlutans. Ég hef svo sem ekki miklu við hana að bæta en vil þó segja að þeir ágallar sem nefndir eru í áliti minni hlutans eru alvarlegir. Það er full ástæða til að menn íhugi vandlega hvort nægilega tryggilega hafi verið að málum staðið og hvort hér séu á ferðinni reglur sem veki það traust sem þarf á þessum mörkuðum.