131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[18:01]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir ræðu formanns sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar, langar mig til að spyrja hann tveggja spurninga, fyrst hvort hann telji að kvótasetning á kolmunnaskipum í svokölluðum meðafla stangist ekki á við kosningaloforð hans fyrir alþingiskosningarnar árið 2003 en þá lofaði hann m.a. úti í Vestmannaeyjum kjósendum sínum að ef hann kæmist á þing mundi hann berjast gegn kvóta á kolmunna, keilu, löngu og skötusel.

Mér þykir það frumvarp sem hér er til umræðu núna stangast á við andann í þessu kosningaloforði sem hengt var upp víða um Vestmannaeyjabæ rétt fyrir alþingiskosningarnar árið 2003. Því væri gaman að fá að heyra hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, útskýra nánar hvort hann sé ekki á ákveðinn hátt að ganga á bak kosningaloforðum sínum.

Seinni spurning mín til hv. þingmanns er sú hvort hann hafi íhugað það hvernig staðið skuli að prufutöku upp úr þessum skipum í framtíðinni, hvort hann sjái ekki fyrir sér að ef við ætlum að gæta jafnræðisreglu verði að fara í gegnum hvern einasta farm úr öllum uppsjávarveiðiskipum sem veitt hafa með flotvörpu í íslenskri landhelgi þegar landað er í höfnum víðs vegar um landið og hvort hv. þingmaður hafi þá hugleitt hver eigi að borga kostnaðinn við það að þurfa að greiða starfsmönnum, sennilega Fiskistofu, kaup á öllum tímum sólarhrings við þessa vinnu og hver eigi að borga fyrir úrvinnslu þeirra gagna sem safnað verður því að ljóst er að þetta er tímafrek iðja. Það væri gaman að fá að heyra svör við þessum spurningum.