131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[18:04]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að það var töluverð umræða þegar kolmunninn var settur í kvóta og það voru mótmæli í Vestmannaeyjum. Ég get alveg sagt það hér og nú að við Eyjamenn mótmæltum oft ákvörðunum í sjávarútvegsmálum þegar ég var bæjarstjóri í Eyjum og vorum ekkert feimnir við að senda mótmæli til yfirvalda, hverjir sem hafa stjórnað kvótasetningunni. Það var hreinn meiri hluti sjálfstæðismanna í Eyjum og ég tel að margt sem hefur gerst í þessu kerfi, bæði hvað varðar handaflsaðgerðir o.fl., hafi ekki verið réttmætt.

Þingmaðurinn er jafnvel að tala um prufur og eftirlit. Ég held að skipstjórar muni stýra veiðum sínum öðruvísi. Þeir munu forðast meðafla eða taka þann kostinn að skilja hann frá öðrum afla og nýta hann á sem arðbærastan hátt, eins og ég sagði áðan. Ég held að menn hætti að toga um öll svæði í leit að kolmunna. Sú held ég að verði framtíðin, að menn stýri þessu betur.

Svo er ég mjög bjartsýnn eftir að hafa rætt við skipstjórnarmann sem tók þátt í tilraununum með skiljurnar. Þar er meðaflinn að sleppa lifandi út og hann segir að þetta verði hverfandi. Ég vona að sú verði lausnin í þessu máli því að ég veit að annars getur verið erfitt að flokka meðaflann.