131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[18:08]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra skuli setja reglur um það hvernig meta skuli meðafla við löndun á uppsjávarfiski. Þá er í ákvæðinu kveðið beint á um að meðafli skuli reiknast til aflamarks viðkomandi skips. Hingað til virðist lögum um umgengni um nytjastofna sjávar ekki hafa verið beitt með sama hætti um veiðar á uppsjávarfiski og gert hefur verið við veiðar á öðrum tegundum á Íslandsmiðum. Meðafli við veiðar á kolmunna, síld og loðnu hefur í raun ekki reiknast til aflamarks þeirra skipa sem uppsjávarveiði stunda hvort sem hann hefur komið í flotvörpu eða nót. Hvatinn til að forðast veiðar á öðrum tegundum en uppsjávartegundum hefur því einungis verið siðferðilegur við þessar veiðar, ekki efnahagslegur.

Í 9. gr. þeirra laga sem hér er verið að breyta segir, með leyfi forseta:

„Skipstjóra fiskiskips er skylt að halda afla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum. Verði því ekki komið við vegna smæðar báts skal afli aðgreindur eftir tegundum við löndun. Skipstjóra fiskiskips er skylt að láta vigta hverja tegund sérstaklega. Ákveði ráðherra á grundvelli laga um stjórn fiskveiða að fiskur undir tiltekinni stærð eða þyngd teljist aðeins að hluta með í aflamarki skal hann setja reglur um hvernig að frágangi hans um borð í veiðiskipi og vigtun skuli staðið. Skipstjóra ber að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann berist til vigtarmanns.“

Af ákvæði þessu er ljóst að skip sem stundað hafa veiðar á uppsjávarfiski hafa ekki farið að þessu ákvæði með því halda afla aðskildum, hvorki um borð í skipunum né við löndun hans. Miklar kröfur eru hins vegar gerðar til annarra sem stunda hefðbundnar veiðar á Íslandsmiðum um að farið sé að lögum og reglum um flokkun og vigtun sjávarafla og eru ströng viðurlög við brotum á því. Einhverra hluta vegna hefur það sama ekki gilt um meðferð og vigtun meðafla við uppsjávarveiðar og hefur meðafli því í flestum tilvikum runnið til bræðslu án þess að tilraunir hafi verið gerðar til að flokka hann frá eða vigta. Hefur þetta leitt til þess að veiddar hafa verið þúsundir tonna af bolfiski án þess að útgerðirnar sem þessar veiðar hafa stundað hafi þurft að leggja til aflamark í þeim tegundum. Slíkur meðafli sem samanstendur aðallega af ufsa og þorski hefur því verið veginn og skráður sem kolmunni, loðna eða síld og lítt virðist hafa verið við því amast af hálfu stjórnvalda þó að um skýrt brot á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, hafi verið að ræða.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvernig sýnatöku eða útreikningi á meðafla eftir tegundum verður háttað við afgreiðslu þessa frumvarps og er það miður. Upplýst var á fundum nefndarinnar að líklega yrðu tekin 500 kg í sýni úr hverjum 100 tonnum af afla, þ.e. sem svarar 0,5%. Þetta þýðir að úr 1.000 tonna kolmunnafarmi yrðu tekin 5 tonn til skoðunar til að meta magn og tegund meðafla og má ætla að skekkja í magni geti orðið mikil við svo knappa sýnatöku.

Umfang meðafla við þessar veiðar er afar mismunandi og kom fram í svari sjávarútvegsráðherra um þetta efni á yfirstandandi þingi, sbr. þskj. 426, að á árinu 2004 megi ætla, út frá mælingum sem gerðar voru af Fiskistofu, að meðafli við kolmunnaveiðar frá mars til október hafi þá verið 2.094 tonn af ufsa og 1.686 tonn af þorski. Þá kom fram á fundum nefndarinnar að til viðbótar þessu megi ætla að u.þ.b. 1.000 tonn af öðrum tegundum hafi verið í meðafla á sama tíma.

Á árinu 2004 voru einungis skráð rúm 25 tonn af karfa til aflamarks af kolmunnaveiðiskipum allt árið. Miðað við þær upplýsingar er alveg ljóst að ekki hefur verið lagður kvóti á móti þeim 4.000 tonnum af meðafla sem um ræðir nema í afskaplega litlum mæli. Ekki hefur verið reynt að meta magn eða tegundir meðafla við síld- og loðnuveiðar þannig að sá afli kemur til viðbótar þeim afla sem áætlaður hefur verið.

Í ljósi þess hvernig staðið hefur verið að flokkun og vigtun meðafla uppsjávarskipa má segja að verið sé að setja skarpari reglur um veiðar og umgengni þessara skipa og um leið er verið að viðurkenna að ekki hafi verið farið að lögum sem um þetta gilda. Það er því til bóta að mati 1. minni hluta að eyða öllum vafa um að kvóta þurfi á móti þessum meðafla þótt ekki verði séð að hingað til hafi verið vafi um það, og einnig að nú skuli settar samræmdar reglur um sýnatöku og útreikning meðaflans.

Sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu mun hvetja skipstjórnarmenn frekar en áður til að forðast eins og frekast er unnt hættuna á því að fá meðafla í miklum mæli, vegna þess að það er ákaflega kostnaðarsamt og óhagkvæmt að þurfa að leggja kvóta á móti fiski sem hefur að mestu verið eyðilagður við dælingu og hefur við löndun ekkert verð umfram bræðsluvirði. Það hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál allra að forðast eins og unnt er að skemma hráefni með þeim hætti sem hlýtur jafnframt að vekja spurningar um notkun flottrolls við veiðar á uppsjávarfiski en meðafli virðist meira vandamál við veiðar með slíkum veiðarfærum en við hinar hefðbundnu nótaveiðar.

Í 2. gr. eru lagðar til breytingar sem snúa að framkvæmd leyfissviptinga vegna veiða umfram veiðiheimildir. Fyrsti minni hluti tekur undir hugmyndir um að heimilt sé að senda aðvaranir um umframveiði með öðrum hætti en með símskeytum og að þannig verði dregið úr kostnaði sem fellur á útgerðina þess vegna.

Fyrsti minni hluti leggst ekki gegn samþykkt frumvarpsins þar sem efni þess er til bóta og mun bæta núverandi umgengni við veiðar á uppsjávarfiski en telur að leggja þurfi alla áherslu á að þróa þessar veiðar með þeim hætti að magn meðafla minnki verulega frá því sem nú er og tryggja að sá meðafli sem þó fæst reiknist til aflamarks.

Jón Bjarnason var viðstaddur afgreiðslu málsins sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu. Undir það rita Jón Gunnarsson, sem átti að vera framsögumaður hér í dag, og Jóhann Ársælsson, sá sem hér stendur.