131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[18:35]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við höfðum nú haft nokkra umræðu um það mál sem hér er á dagskrá núna, þ.e. breyting á ýmsum lögum á orkusviði, fyrir nokkrum dögum, ég man ekki hve mörgum.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill biðja um betra hljóð í salnum.)

En mál hafa skipast svolítið öðruvísi síðan, því að nú liggur fyrir að skattlagning orkufyrirtækja, sem í raun er aðalþingmálið — þetta er fylgimál þess þingmáls — er sem sagt afgreitt mál hér í þinginu. Þetta lagafrumvarp, breyting á ýmsum lögum á orkusviði, er fylgimál þar sem gerðar eru tillögur um að taka út og fella niður hinar ýmsu greinar laga sem í rauninni hljóta að fylgja þeirri breytingu sem þar er á ferðinni. Það var þess vegna sem við þingmenn minni hlutans, stjórnarandstöðunnar, skrifuðum undir nefndarálit iðnaðarnefndar með fyrirvara, vegna þess að við sáum það auðvitað að það hlyti að verða niðurstaðan að ef hitt málið færi í gegn færi þetta líka.

Ég sé ekki ástæðu til að eyða tíma Alþingis í að fara yfir þessi mál núna, það var gert vandlega við umræðuna á sínum tíma og síðan líka við umræður um skattlagningu orkufyrirtækja. Þetta er sem sagt fylgitillaga með því eða bandormur, eins og menn kalla það hér í Alþingi.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en vildi þó koma þessu til skila svona til skýringar til að menn misskilji ekki þá afstöðu sem hér er fólgin frá okkar hendi. Við erum sem sagt alfarið á móti frumvarpinu sem samþykkt var um skattlagningu orkufyrirtækja, eða lögunum, en skiljum að þetta mál sem hér er þurfi að fylgja úr því að lögin voru samþykkt.