131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[18:45]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að hv. þingmaður lýsi ábyrgð á hendur mér í þessu máli. Ég ber ábyrgð á málaflokknum. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á raforkukerfinu eru gríðarlega umfangsmiklar, um það er ekki nokkur spurning. Þær voru hins vegar nauðsynlegar, alveg burt séð frá þeirri tilskipun sem við vorum að innleiða. Það var nauðsynlegt að gera þar á breytingar og það hefðum við gert hvor eð er. Við erum að færa þennan rekstur inn í markaðsumhverfið rétt eins og allar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa verið að gera.

Ég er sannfærð um að í ljós muni koma að það var nauðsynlegt að gera þessar breytingar. Ég hef sagt og get endurtekið að þetta ár verður að vera nokkurs konar tilraunaár vegna þess að breytingarnar eru svo gífurlegar. En ég get huggað hv. þingmann með því að margir sem hafa fengið lækkanir, ekki síst atvinnulífið á landsbyggðinni. Almennt þá lækkar Rarik-svæðið. Hins vegar þá þekkjum við það sem gerist í húshituninni. Við hækkuðum þá fjárhæð þannig hún er um milljarður kr. í dag, sem greiddur er úr ríkissjóði, til þess að borga niður húshitunarkostnað. Engu að síður hefur orðið hækkun á því svæði hjá þeim sem nota mikið rafmagn til upphitunar húsa.

Ég hef sagt að við munum fara yfir þessa hluti í haust þegar þetta fer að skýrast betur, þ.e. hvernig það kemur út. En mér finnst mikilvægt að halda því til haga að sú skattlagning sem þetta mál byggir á er mál hæstv. fjármálaráðherra. Þótt hv. þingmaður hafi sjálfsagt miklu meira gaman af því að tala við mig en fjármálaráðherra þá er það fjármálaráðherra sem flytur þetta skattamál.