131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[18:59]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fékk ekki þau svör sem ég óskaði eftir, um hvernig ætti að taka á vanda þess fólks sem þegar hefur fengið hærri orkureikninga. Menn segja að með vorinu, þegar hlýnar, þá muni orkureikningarnir lækka og næstu reikningar verði sennilega góðir. Ég reikna með því, hæstv. ráðherra, að sumarið verði hlýrra en veturinn. Ég geri alveg ráð fyrir því. Þetta var skarplega athugað. Þetta er alveg ótrúlegur málflutningur, hæstv. forseti. Alveg ótrúlegur.

Ráðherrann lýsti því í síðara andsvari sínu að hún hefði mætt svo mikilli mótstöðu, þetta væri svo erfitt, hún þyrfti að taka á og þyrfti að sýna kjark og staðfestu til að koma þessu í gegn. Það er eins og hún gangist upp í því að koma málum gegn, að hún sé þeim mun ánægðari og fái meira kikk út úr því eftir því sem meira er barist á móti henni. (Gripið fram í.) Það er markmiðið. Skynsemin fer veg allrar veraldar, hún er bara ekki með í dæminu. Það er alveg ótrúlegt að sitja uppi með ráðherra sem lýsir verkum sínum svona, að fá sérstaka ánægju út úr málum sem mest andstaða er við. Það sé aðalmálið að koma slíku í gegn í þinginu og fá notið þeirrar ánægju að hafa komið í gegn málum sem allir voru á móti. Ja, hvílík upplifun að sitja uppi með ráðherra þessum í málaflokki sem lýsir verkum sínum og ágæti með þessum hætti.