131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[19:18]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta umhverfisnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Það verður að segjast, virðulegi forseti, að það hefur verið lærdómsríkt að fjalla um þetta mál af mörgum ástæðum. Við höfum farið vel yfir það í nefndinni og verið gott samstarf við minni hlutann og er þokkaleg sátt í nefndinni og milli allra á þessu nefndaráliti, ef undan er skilinn einn aðili. Þetta er frumvarp kom fyrst fram á síðasta þingi og þá var tólf sinnum fundað um það í umhverfisnefnd og síðan átta sinnum á þessu þingi. Borist hefur fjöldi athugasemda og allir þeir gestir sem farið var fram á að kæmu á fund nefndarinnar komu þangað. Það var mjög athyglisvert að hlusta á þeirra mál og fara yfir málið.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að umræðan um málið hjá ákveðnum aðilum og sumpart í fjölmiðlum hefur gefið ranga mynd af áliti mínu á þessu máli. Virðulegi forseti, ég segi þetta vegna þess að þessi lög eru byggð á tilskipunum ESB. Þær eru mjög skýrar og það má færa gild rök fyrir því að þau lög sem verið hafa í gildi fram til þessa hafi ekki verið í anda viðkomandi tilskipunar.

Ég vil leyfa mér að vísa í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta, og lesa úr henni stuttan kafla, en þar segir svo:

„Af aðfaraorðum og ákvæðum tilskipunarinnar má ráða að matsferli því sem tilskipanirnar kveða á um sé fyrst og fremst ætlað að tryggja að við veitingu framkvæmdaleyfis liggi fyrir helstu upplýsingar um þá þætti umhverfisáhrifa framkvæmdar sem máli skipta og nánar er lýst í tilskipuninni og að tekið sé mið af þessum upplýsingum og samráði við stofnanir og almenning við útgáfu framkvæmdaleyfis. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar er aðildarríkjunum í sjálfsvald sett hvort matsferlið er fellt inn í gildandi ferli vegna veitingar framkvæmdaleyfis í aðildarríkjunum eða sérstakt ferli sett á fót vegna mats á umhverfisáhrifum. Þannig gerir tilskipunin ekki kröfu um að sett sé á fót sérstakt matsferli óháð leyfisveitingarferli vegna umsóknar um framkvæmdaleyfi, heldur eingöngu að þær upplýsingar um umhverfisáhrif viðkomandi framkvæmdar og það samráðsferli við stofnanir og almenning sem kveðið er á um í tilskipuninni séu undanfari ákvörðunar um framkvæmdaleyfi og að þessi atriði séu tekin til umfjöllunar við ákvörðun þar um.“

Virðulegi forseti, síðan segir:

„Með öðrum orðum skal leyfisveitandi vera upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda.“

Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka þetta að gefnu tilefni:

„Með öðrum orðum skal leyfisveitandi vera upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda.“

Þetta er kjarni málsins. Það kom fram hjá sérfræðingum sem komu á fund nefndarinnar og kom fram í fleiri gögnum að ekkert bindur hendur stjórnvaldsins, sem fer með útgáfu framkvæmdarleyfis. Því er ekki að finna neinn stað í þeim lögum sem hafa verið byggð á þessum tilskipunum í þeim löndum sem tilskipunin nær til.

Þetta er mjög mikilvægt. Það er mikilvægt að menn átti sig á því að hér er um matsferli að ræða, en það sem snýr að viðmiðum á heima í öðrum lögum.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru í fyrsta lagi að í matsferlinu verði ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Í öðru lagi að matsferlið miði að því að matsskýrsla framkvæmdaraðila lýsi sem best og dragi fram öll veigamikil umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og geri grein fyrir athugasemdum almennings og umsagnaraðila við framkvæmdina. Í þriðja lagi að álit Skipulagsstofnunar við endanlega matsskýrslu framkvæmdaraðila verði umfjöllun um matsferlið og niðurstöðu matsskýrslu. Í fjórða lagi að enginn vafi leiki á því að leyfisveitandi taki í samræmi við viðeigandi lög ákvörðun um hvort leyfa skuli viðkomandi framkvæmd, þegar fyrir liggur matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar, og að leyfisveitanda beri að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Í fimmta lagi að málskotsréttur til æðra stjórnvalds vegna matsskyldra framkvæmda verði bundinn við leyfi til framkvæmda á sveitarstjórnarstigi, þ.e. framkvæmda- og byggingarleyfi, og takmarkist við þá aðila sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta, umhverfisverndarsamtök og hagsmunasamtök eftir nánari reglum.

Nefndinni barst mikill fjöldi athugasemda við frumvarpið og miklar umræður urðu um það.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að undirstrika tilgang laga um mat á umhverfisáhrifum en hann er að setja reglur um það hvernig framkvæma eigi mat á umhverfisáhrifum þannig að leyfisveitandi sé upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda. Telur meiri hlutinn rétt að undirstrika það vegna þeirra vangaveltna sem fram komu við umfjöllun málsins um að hvergi í lögum um mat á umhverfisáhrifum væri að finna ákvæði sem hindrað gætu framkvæmd. Bendir meiri hlutinn á að þær tilskipanir sem lög um mat á umhverfisáhrifum byggjast á fela ekki í sér að þessar reglur eigi að segja til um hvort framkvæmd sé í lagi eða ekki heldur er áherslan lögð á að leyfisveitandi sé upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda. — Þetta er mjög mikilvægt, virðulegi forseti.

Meiri hlutinn telur að með frumvarpinu verði bætt úr ýmsum þeim hnökrum sem nú séu á matsferlinu. Það samræmist t.d. engan veginn tilgangi laga um mat á umhverfisáhrifum að sérstök stjórnsýslustofnun úrskurði um umhverfisþáttinn sjálfstætt eins og er samkvæmt gildandi lögum og að veitingarvald framkvæmdaleyfis sé bundið þeim úrskurði, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Í allmörgum umsögnum var lýst yfir áhyggjum af því að verið væri að þrengja rétt almennings til þátttöku í matsferlinu, annars vegar með því að réttur hans til að koma með athugasemdir væri bundinn við frummatsskýrslu og hins vegar að kæruréttur einstaklinga væri bundinn við lögvarða hagsmuni og umhverfisverndar- og hagsmunasamtök þyrftu að uppfylla nánar tiltekin skilyrði um fjölda félagsmanna o.fl. Hvað fyrra atriðið varðar bendir meiri hlutinn á að ekki sé um breytingu að ræða frá gildandi löggjöf hvað varðar aðkomu almennings að matsskýrslu nema að nú heiti skýrsla sem almenningur getur gert athugasemdir við frummatsskýrsla en ekki matsskýrsla. Þá beri að líta til 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins og breytingartillögu meiri hlutans við hana sem gerð er nánari grein fyrir hér á eftir en hún felur í sér að telji Skipulagsstofnun að matsskýrsla framkvæmdaraðila víki frá frummatsskýrslu hvað varðar mikilvæga þætti málsins skuli hún auglýst að nýju. Í tengslum við síðarnefnda atriðið fór fram nokkur umræða í nefndinni um hugtakið „lögvarðir hagsmunir“. Hugtakið hefur m.a. verið túlkað af úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála enda slíkir hagsmunir skilyrði fyrir kæruheimild til nefndarinnar eins og almennt gildir um kæruheimildir í stjórnsýslunni. Nefndin telur rétt að benda á að sú þrenging á kærurétti sem lögð er til með frumvarpinu stangast ekki á við innleiddar tilskipanir ESB. Í þessu sambandi vísar nefndin einnig til athugasemda frumvarpsins um 12. gr. en þar kemur m.a. fram að þær breytingar sem lagðar er til um kæruheimild séu til samræmis við þær reglur sem gilda um kæruheimild samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, sbr. 26. gr. þeirra laga, að öðru leyti en því að umhverfisverndar- og hagsmunasamtök öðlast hér einnig málskotsrétt óháð lögvörðum hagsmunum.

Í 8. gr. frumvarpsins segir að frummatsskýrsla skuli unnin af framkvæmdaraðila. Í nokkrum umsögnum var lagt til að bætt yrði við orðunum „í samráði við Skipulagsstofnun“ eins og í eldra frumvarpi frá 130. löggjafarþingi. Nefndin velti því fyrir sér hvort ástæða væri til að leggja til þessa viðbót. Fram kom í máli fulltrúa Skipulagsstofnunar að stofnunin hefði gert athugasemdir við fyrrnefnt atriði á sínum tíma. Hlutverk stofnunarinnar væri að gefa út almennar leiðbeiningar, sem og að fjalla um matsáætlun og síðar hina endanlegu matsskýrslu. Stofnunin hefði eftirlitshlutverki að gegna og því væri ekki viðeigandi að hún ætti beina aðild að samningu skýrslunnar. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og telur því ekki ástæðu til að leggja til fyrrnefnda viðbót.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í allar breytingartillögurnar en ég ætla að nefna þær helstu:

Við 10. gr. Meiri hlutinn leggur til að miða skuli frest við móttöku Skipulagsstofnunar á matsskýrslu. Þá telur meiri hlutinn rétt að Skipulagsstofnun taki í forsendum álits síns afstöðu til helstu gagna sem liggja að baki matsskýrslu á grundvelli þeirra umsagna sem bárust stofnuninni í umsagnarferli við frummatsskýrslu. Einnig telur nefndin eðlilegra að miða við að matsskýrslu skuli auglýsa að nýju telji Skipulagsstofnun að hún víki „frá frummatsskýrslu hvað varðar mikilvæga þætti málsins“ í stað þess að miða við að hún víki „verulega frá frummatsskýrslu“ eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Loks leggur meiri hlutinn til að aðgangur almennings að gögnum verði aukinn þannig að hann eigi auk álits Skipulagsstofnunar einnig greiðan aðgang að matsskýrslu.

Við a-lið 12. gr. (14. gr.) leggur meiri hlutinn til að skilyrði fjölda félagsmanna í umhverfis- og hagsmunasamtökum verði lækkað úr 50 í 30. Nokkur umræða fór fram í nefndinni um fjölda félagsmanna í fyrrgreindum samtökum. Meiri hlutinn bendir á að í smærri sveitarfélögum eru staðbundin félög algeng og telur hann rétt að fjöldi félagsmanna verði lækkaður í 30. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að félagasamtök sem geta orðið til vegna eins máls flokkist undir hagsmunasamtök uppfylli þau að öðru leyti þau skilyrði sem fram koma í greininni.

Eins og hér er nefnt var mikil umræða um þetta og nefndin var sammála um, eða meiri hluti hennar, að taka það skýrt fram að eins máls samtök eigi þennan kærurétt, en einnig var mikið velt fyrir sér hvort rétt væri að styrkja umhverfisverndarsamtök með þessum hætti. Segja má að hér sé um að ræða fyrirmynd hugsanlega frá Svíþjóð þar sem sambærileg lög eru og ef við mundum uppreikna þetta mundi það þýða, ef ég man rétt, að að lágmarki þyrfti að vera 130 félagsmenn í viðkomandi umhverfisverndarsamtökum til að þau hefðu þennan kærurétt. Hugsunin bak við slíkt er sú í rauninni að styrkja umhverfissamtök sem aðila að málum sem þessum, því það skiptir auðvitað miklu máli að það séu málsvarar umhverfisins og það séu sterkir fagaðilar sem geti verið mótvægi við framkvæmdaraðila. Það er augljóslega hugsunin í frumvarpinu. Þrátt fyrir að við höfum lækkað töluna úr 50 niður í 30 tel ég samt sem áður að það sé mikil viðurkenning og styrking við þau mörgu og góðu umhverfisverndarsamtök sem eru starfandi á landinu.

Nefndin leggur til breytingu við 18. gr. og leggur til að undir 1. viðauka falli iðnaðarframkvæmdir sem taka til stærra svæðis en 50 hektara og bygging verslunarmiðstöðva stærri en 40.000 fermetra og bygging bílastæðahúsa fyrir fleiri en 1.400 stæði.

Í stuttu máli er um það að ræða að þegar menn ætla að fara næst út í stórar verslunarmiðstöðvar er ekki einungis skylt fyrir aðila að tilkynna slíkt til Skipulagsstofnunar heldur verður það að fara í umhverfismat. Það liggur alveg fyrir að meiri hluti nefndarinnar er að leggja til að við göngum lengra en segir í tilskipun hvað þetta varðar.

Að öðru leyti vil ég vísa til nefndarálits meiri hluta umhverfisnefndar sem er að finna á þskj. 1387, en undir það rita Guðlaugur Þór Þórðarson, Kristinn H. Gunnarsson, Rannveig Guðmundsdóttir, með fyrirvara, Arnbjörg Sveinsdóttir, Mörður Árnason, með fyrirvara, Kjartan Ólafsson, Gunnar Birgisson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara.

Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka nefndinni fyrir gott samstarf. Þá vil ég sérstaklega þakka fulltrúum Samfylkingarinnar fyrir að hafa tekið málefnalega á þessu máli. Í flóknu máli eins og þessu sem fólk er eðli málsins samkvæmt ekki almennt upplýst um — og það er hlutverk okkar stjórnmálamanna kannski að gera það ásamt fjölmiðlum — þá geta menn farið í ýmsar áttir. Það sem fulltrúar Samfylkingarinnar gerðu og mér finnst til fyrirmyndar var að þeir fóru mjög málefnalega yfir þetta og svo sannarlega höfðu þeir áhrif á þær breytingartillögur sem hér eru. Það er alveg sársaukalaust af hálfu þess sem hér stendur, mér er alveg sama hvaðan gott kemur en ég held að það sé mikilvægt að við störfum saman að þessum mikilvæga málaflokki og þessi lög eru mjög mikilvæg. Það skiptir hins vegar máli að menn viti hvers eðlis þau eru. Ég held að ég hafi farið nokkrum sinnum yfir það hér en það getur vel verið að í umræðunni sem verður hér á eftir þurfi maður að fara yfir það nokkrum sinnum í viðbót.