131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[19:34]

Frsm. minni hluta umhvn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur mælt fyrir meirihlutaáliti um frumvarp það sem við nú ræðum og klykkti út með því að þakka hv. samfylkingarþingmönnum sérstaklega vel fyrir samvinnuna og tók fram að þeir hafi tekið afar málefnalega á málum. Í þeim orðum liggur að sú sem hér stendur hafi ekki gert það, þar að auki nefndi hv. þingmaður ekki til sögunnar hv. þm. Sigurjón Þórðarson sem einnig kom að þessum störfum. Ég vil nota tækifærið og vísa því alfarið á bug að ég hafi ekki staðið málefnalega að þeirri vinnu sem fram fór í umhverfisnefnd. Ég held þegar grannt er skoðað og það nefndarálit sem ég stend að er skoðað, þá er mér til efs að nokkur geti með hreinni samvisku haldið því fram að ég hafi ekki komið málefnalega að þeim málum.

Nefndarálit mitt er á þskj. 1391, virðulegi forseti. Vegna þess samkomulags sem liggur fyrir meðal þingmanna að reyna að takmarka ræðutímann svo sem kostur er geri ég ekki ráð fyrir að ég geti farið yfir það í smáatriðum, því miður, því hér er sannarlega á ferðinni mál sem verðskuldar að fá verulega umræðu. Af því að ég tók ekki þátt í umræðunni um vinnubrögð þingsins fyrr í dag vil ég nota þetta tækifæri og segja að það er allsendis óboðlegt að þingmenn sem hafa lagt nótt við dag í að vinna mikilvæg mál skuli svo sitja uppi með það á síðasta degi þings að ekki sé tími til að taka þá umræðu sem hjarta og hug þingmanna fýsir að gera. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég kvarta undan slíkum vinnubrögðum hér, hæstv. forseti, en hann er orðinn ansi stuttur þráðurinn í manni með þetta. Það er því ekki með hýrri há að maður fer í ræðustól Alþingis í dag til að fylgja úr hlaði viðamiklu nefndaráliti sem verðskuldar eins og ég segi öfluga umræðu og góðan tíma.

Virðulegi forseti. Svo ég byrji á að stikla á stóru í nefndarálitinu þá tek ég undir það sem kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem sagði að þetta mál væri flókið, viðamikið og útheimti mikla vinnu og mikinn tíma. Hann talaði um að það hefði fengið vandaða umfjöllun í nefndinni. Ég er ósammála því. Ég tel að við hefðum getað sinnt þessu máli betur í vetur. Það er búið að liggja hjá okkur síðan í nóvember og var sáralítið gert í því að vinna frumvarpið fyrr en á síðustu nefndadögunum í lok apríl. Ég tel því ekki að þetta mál hafi fengið nægilega skoðun. Ég vil líka vísa á bug því sem hv. framsögumaður meiri hlutans sagði að það hefðu allir verið kallaðir fyrir nefndina sem óskað hefði verið eftir. Það vannst ekki tími til að kalla stjórnsýslusérfræðing fyrir nefndina og ekki vannst tími til að fara sérstaklega yfir álit frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem kallaði á — eða í mínum huga kallaði á það að stjórnsýslusérfræðingur yrði kallaður fyrir nefndina, en ekki vannst tími til þess í störfum nefndarinnar, því miður.

Það er mat mitt, virðulegi forseti, að ekki hafi legið á að afgreiða þetta mál núna. Þannig er mál með vexti að skipulags- og byggingarlög eru í endurskoðun. Þau verða afgreidd héðan frá þinginu í haust og mér hefði fundist fullur sómi að því að afgreiða þetta frumvarp með endurskoðaðri löggjöf um skipulags- og byggingarmál. Hér er ekki bara verið að breyta lögunum um mat á umhverfisáhrifum, heldur skipulags- og byggingarlögunum líka og ég sé ekki hvort skiptir verulegu máli að breyta þeim lögum örfáum mánuðunum fyrr eða seinna.

Einnig hefur komið fram á Alþingi frumvarp frá hæstv. umhverfisráðherra sem varðar upplýsingarétt í umhverfismálum. Það mál snertir verulega ýmsa þætti laga um mat á umhverfisáhrifum og hefði verið eðlilegt að þingmenn fengju að fjalla um þessi mál samhliða, því að t.d. aðkoma almennings og hagsmunasamtaka að matsferlinu er eitthvað sem hefur verið deilt verulega um og verið harkalega gagnrýnt í því frumvarpi sem hér um ræðir og hefði verið fengur að því að getað fjallað um það mál hliðstætt mati á umhverfisáhrifum sem við nú afgreiðum ófullburða.

Það frumvarp sem hæstv. umhverfisráðherra á eftir að mæla fyrir og hefur lagt hér fram til kynningar byggir á skyldu íslenskra stjórnvalda til að lögfesta Árósasamninginn frá 1998, en tilskipun þess efnis nr. 2003/4/EB hefði átt að vera innleidd í landslög eigi síðar en 14. febrúar 2005. Það eitt sýnir, virðulegi forseti, hvað stjórnvöld hafa dregið lappirnar lengi varðandi Árósasamninginn. Það er búið að kvarta undan því hér ár eftir ár síðan 1999, að ég man fyrst, að stjórnvöld virðast ekki ætla sér að innleiða Árósasamninginn eða sinna því máli sem skyldi og það hefur auðvitað komið á daginn. Nú eru stjórnvöld með allt niður um sig í þeim efnum, kynna hér til sögunnar frumvarp sem við fáum síðan ekki tóm til að ræða og er það mjög miður.

Ég vil líka lýsa því yfir, virðulegi forseti, að það er enn óljóst á hvern hátt tilskipun 2003/4/EB og reyndar líka tilskipun 2003/35/EB eru innleiddar með því frumvarpi sem við ræðum hér, þrátt fyrir að starfsmenn umhverfisráðuneytisins hafi komið fyrir nefndina og reynt að varpa einhverju ljósi á það mál.

Hæstv. forseti. Aðkoma almennings er þrengd verulega frá því sem nú er með þessu frumvarpi. Er það mjög miður þar sem almenn þróun, bæði hér á landi sem og í nágrannalöndum okkar, hefur verið í allt aðra átt. Hún hefur verið í þá átt að auka aðkomu almennings, bæði til þess að gera athugasemdir og fá upplýsingar og efla möguleika almennings til málskots.

Eitt af helstu markmiðum lagasetningar árið 2000 þegar lögin voru síðast endurskoðuð var einmitt að auka aðkomu almennings. Til vitnis um það er nefndarálit umhverfisnefndar sem má finna á þskj. 1280 í 386. máli frá árinu 2000. Það er því alveg ljóst að aðkoma almennings er þrengd. Deilan stendur um hvort með aðild almennings að málum á sviði umhverfisréttar skuli fara samkvæmt almennum ákvæðum stjórnsýslulaga, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, eða hvort almenningur skuli eiga ríkari rétt í málum er varða umhverfismál. Það er einmitt það sem Árósasamningurinn gerir ráð fyrir. Hann gerir ráð fyrir að almenningur eigi ríkari rétt en samkvæmt almennum stjórnsýslulögum. Það hefur hann haft samkvæmt þessum lögum og til vitnis um það er 12. gr. núgildandi laga þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Öllum er heimilt að kæra til ráðherra ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. og úrskurð Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr.“ — Sem er ekki lengur til staðar því nú er verið að breyta úrskurði í álit, þannig að kærumöguleikinn sem almenningur hefur haft, allur almenningur, burt séð frá lögvörðum hagsmunum til að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra er tekinn frá fólki. Er það ekki þrenging?

Hæstv. forseti. Jú, það er þrenging og þess vegna er ekki rétt það sem hv. framsögumaður málsins sagði að ekki sé um að ræða þrengingu á aðkomu almennings, því hún er hér skjalfest.

Virðulegi forseti. Við skoðun þessara mála, þ.e. aðkomu almennings að málum tengdum umhverfismálum verður að hafa það í huga eins og ég sagði áðan hvernig umhverfisréttur hefur þróast undanfarin ár. Í honum hefur verið lögð verulega rík áhersla á andmæla- og upplýsingarétt almennings. Ég læt mér nægja hér að benda t.d. á Ríó-yfirlýsinguna, 10. regluna í Ríó-yfirlýsingunni, en hún fjallar beinlínis um mikilvægi þess að almenningur hafi trygga aðkomu að öllum þáttum er varða umhverfismál.

Í 1. mgr. þeirrar reglu segir, með leyfi forseta:

„Best verður tekist á við umhverfismál með þátttöku allra þegna sem hlut eiga að máli á viðkomandi sviðum.“

Allra þegna. Síðar í sömu reglu segir, virðulegi forseti:

„Ríki skulu auðvelda og örva skilning og þátttöku almennings með því að veita honum greiðan aðgang að upplýsingum. Raunverulegur aðgangur skal veittur að réttar- og stjórnsýslukerfum, þar á meðal að réttarúrræðum.“

Réttarúrræði eru m.a. málskotsmöguleikar almennings sem takmarkaðir eru frá því sem verið hefur með þeirri löggjöf sem hér er verið að innleiða.

Virðulegur forseti. Í anda þeirra tilskipana og þeirra samninga sem við höfum gert á alþjóðavettvangi undirritana, t.d. Ríó-yfirlýsinguna, er alveg ljóst að einstaklingar munu gegna mjög mikilvægu hlutverki í umhverfismálum, bæði hér á landi sem annars staðar í Evrópu. Evrópsk yfirvöld hafa verið að innleiða reglur af þessu tagi þar sem aðgangur almennings er víkkaður og rýmkaður og almenningur fær auknar heimildir til að beita þeim réttindum sem hann hefur í gegnum þá samninga sem um ræðir. Í þessum samningum eru einnig áminningar til þeirra sem með völdin fara um að varðveita, vernda og bæta umhverfið og sjá til þess að náttúruauðlindir séu nýttar af varúð og skynsemi, einkum á grundvelli meginreglunnar um sjálfbæra þróun og þeirrar meginreglu að grípa skuli til varúðarráðstafana og fyrirbyggjandi aðgerða.

Einn veigamikill þáttur, virðulegi forseti, í slíku er hið virka samspil stjórnvalda og almennings í landinu, en þá þarf það líka að vera tryggt í löggjöf að almenningur hafi raunverulega möguleika á að beita stjórnvöld aðhaldi. Í mínum huga er það ekki gert hér. Í breytingartillögu minni varðandi þetta mál tel ég þess vera gætt að réttur almennings og allra umhverfisverndarsamtaka í landinu verði tryggður sem ég gagnrýni að sé ekki gert með þeirri leið sem meiri hlutinn leggur til að farin verði.

Hæstv. forseti. Varðandi það mál sem mikið hefur verið í kastljósinu og hv. formaður umhverfisnefndar kom inn á í sínu máli, þ.e. togstreituna á milli verndarsjónarmiða og nýtingarsjónarmiða, vil ég varpa ljósi á eftirfarandi: Framkvæmdaraðilar og ýmsir lögspekingar og meiri hluti umhverfisnefndar segja að það sé aðalatriði að lögunum um mat á umhverfisáhrifum sé ekki ætlað að koma í veg fyrir framkvæmdir. Hlutverk þessara laga sé eingöngu það að leiða í ljós öll þau áhrif sem tilteknar framkvæmdir muni fyrirsjáanlega valda áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdirnar.

Gott og vel. Ef þessi lög eru eingöngu forskrift að málsmeðferð sem tryggi upplýsta ákvörðun þess stjórnvalds sem ber ábyrgð á leyfisveitingunum fyrir tilteknum framkvæmdum þá eiga auðvitað ekki að vera í þeim nein efnisviðmið. En efnisviðmiðin eru til staðar bara með því að Skipulagsstofnun er gert að koma með tillögur í áliti sínu um mótvægisaðgerðir, þá er farið út í efnisviðmið, efnisviðmið sem Skipulagsstofnun þarf að setja í sitt álit. Reyndar er síðan ákveðið síðar í lagabálknum eða frumvarpinu, eins og það á að setja í gegnum þingið, að leyfisveitanda sé svo sem ekkert skylt að fara neitt eftir þeim mótvægisaðgerðum sem tilgreindar eru í áliti Skipulagsstofnunar því að það er aftengt algerlega leyfisveitingaferlið og álit Skipulagsstofnunar í því frumvarpi sem hér er fjallað um. Er það mjög miður.

Vegna þess að hér er togstreita á milli verndarsjónarmiða annars vegar og nýtingarsjónarmiða hins vegar og þetta er spurning um hvort hér sé bara um málsmeðferðarreglur að ræða eða líka um efnismeðferðarreglur þá vil ég benda hv. þingmönnum á að b-liður markmiðsgreinarinnar í frumvarpinu gerir ráð fyrir því að lögunum sé ætlað að draga svo sem kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Ég minni líka á að í greinargerð með frumvarpinu eru meginreglur umhverfisréttar tíundaðar sérstaklega og vitnað í því sambandi til nefndarálits umhverfisnefndar frá árinu 2000. Það var því alveg ljóst þá að umhverfisnefnd taldi meginreglur umhverfisréttar vera þess eðlis að það bæri að hafa þær í huga við framkvæmd laganna. Það hefur ekkert breyst. Það ber að hafa meginreglur umhverfisréttar í huga við framkvæmd laganna samkvæmt þessu frumvarpi. Það segir í greinargerðinni.

Sömuleiðis þurfum við að hafa til hliðsjónar við stórframkvæmdir 73. gr. EES-samningsins og hana má lesa í nefndaráliti mínu, virðulegur forseti, og spara ég tíma með því að fara ekki frekar yfir hana hér.

Einnig má nefna að kveðið er á um það í markmiði skipulags- og byggingarlaganna okkar nr. 73/1997 að þeim sé ætlað að standa vörð um verndarsjónarmið með því að tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Í náttúruverndarlögunum okkar er líka gert ráð fyrir því að tryggt sé eftir föngum að það sé verndað sem sérstætt er og sögulegt í náttúru landsins auk þess sem náttúruverndarlögunum er ætlað að stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.

Í fjórða lagi, virðulegi forseti, má hér nefna mótvægisaðgerðir sem er ætlað að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif vegna framkvæmda. Um þær er getið í þessu frumvarpi og í þeim lögum sem nú gilda og Skipulagsstofnun er gert að tilgreina slíkar í áliti sínu. Í mínum huga, virðulegi forseti, stríðir það gegn þeirri hugmynd að lögin séu einungis forskrift um málsmeðferð að það skuli vera skylda Skipulagsstofnunar að koma með hugmyndir eða tillögur um mótvægisaðgerðir.

Ég vil bara segja að þegar þessi mál eru öll skoðuð er í sjálfu sér nauðsynlegt að stjórnvöld endurskoði framkvæmd þessara laga, skerpi á þeim grundvallarþætti að í lögunum séu — reyndar í samspili við önnur lög, skipulags- og byggingarlög og náttúruverndarlög — markmið til að koma í veg fyrir framkvæmdir sem geta valdið óafturkræfum spjöllum á náttúru landsins. Í ljósi þessa tel ég, hæstv. forseti, stórkostlega áhættu fólgna í því að breyta úrskurði Skipulagsstofnunar í álit og ég felli mig ekki við það nema stjórnvöld lýsi því þá yfir að markmið skipulags- og byggingarlaga og markmið náttúruverndarlaga verði virk að því leyti að þau nægi til að stöðva leyfisveitendur þegar framkvæmdir stríða gegn ákvæðum þeirra.

Virðulegi forseti. Það má líka líta þannig á í ljósi reynslunnar að full þörf sé á því að skerpa á öllum efnisviðmiðum náttúruverndarlaga svo að verndarsjónarmið og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar fái einhverju ráðið um það hvar er framkvæmt og hvar ekki. Sérstaklega ber í því sambandi að líta til ákvarðana er varða friðlýst svæði, og ég kem nánar að því síðar í ræðu minni, virðulegi forseti. En það er sem sagt alveg ljóst í mínum huga að hér er togstreita á milli sjónarmiða sem stjórnvöld þurfa á einhvern hátt að sætta og það er ekki gert með því frumvarpi sem hér um ræðir.

Í umsögnunum sem nefndinni bárust kom þessi togstreita afskaplega vel í ljós. Þannig má segja að orkufyrirtækin og umsagnir þeirra endurspegli það sjónarmið fyrirtækjanna að matsferlið verði jafnvel enn þunglamalegra og kostnaðarsamara við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þar segir að málsmeðferðarreglurnar verði með þeim hætti að líkja megi þeim við myllustein um háls framkvæmdaraðila sem muni hamla framkvæmdum í landinu. Þetta er í sjálfu sér hlálegt, virðulegi forseti, því að svo oft hafa stjórnvöld látið í veðri vaka að breytingar þær sem hér er verið að gera og reyndar líka þær sem gerðar voru síðast á lögunum séu til einföldunar á ferlinu og til að auka skilvirkni þess. En orkufyrirtækin vilja sem sagt þrengja kæruheimildina enn frekar og gera Skipulagsstofnun samábyrga fyrir frummatsskýrslu fyrirtækjanna auk þess sem þau telja það ekki í verkahring Skipulagsstofnunar að leggja til mótvægisaðgerðir til að draga úr umhverfisáhrifum. Já, takið eftir því, orkufyrirtækin eru auðvitað mótfallin því að Skipulagsstofnun hafi það vald í hendi sér að setja niður einhverjar hugmyndir eða tillögur um mótvægisaðgerðir sem dregið geti úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

Síðan eru það umsagnir náttúruverndarsamtaka. Þær eru á allt aðra lund. Þær eru á þá lund að ekki megi skerða aðkomu almennings og hagsmunaaðila, málsmeðferðarreglurnar verði að tryggja að meginreglur umhverfisréttar séu lagðar til grundvallar. Sömuleiðis mótmæla náttúruverndarsamtökin því að leyfisveitendur verði ekki lengur bundnir af niðurstöðu Skipulagsstofnunar.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp á eftir að hafa verulega erfiðar og alvarlegar afleiðingar fyrir sveitarfélögin í landinu. Það sýnir sig á umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það leggst gegn því að frumvarpið verði samþykkt í óbreyttri mynd. Því miður náðist ekki að fjalla nægilega vel um þessa umsögn. Hún fékk nánast enga umfjöllun í nefndinni. En í ljósi þeirra átaka sem orðið hafa um einstakar framkvæmdir, virðulegi forseti, er alveg ljóst að álagið af þeim deilum sem orðið hafa og mögulegum málaferlum muni færast til með þessum breytingum. Það mun færast af umhverfisráðuneytinu og Skipulagsstofnun. Yfir á hverja? Yfir á leyfisveitendurna. Yfir á sveitarfélögin. Kannski er það allt í lagi fyrir burðugri sveitarfélögin. Þau geta kannski tekist á við þetta. En ég fullyrði, virðulegur forseti, að þau sveitarfélög sem eru fámenn og hafa lítið og veikburða stjórnsýslubatterí eiga eftir að kikna undan því álagi sem erfiðar framkvæmdir koma til með að verða í þessu nýja formi.

Virðulegur forseti. Ég tek undir sjónarmið sveitarfélaganna og lít það fremur alvarlegum augum að þetta skuli ekki hafa fengið nánari skoðun en raun bar vitni. Sambandið gerir líka athugasemd við það að hvergi skuli tekið fram að sveitarfélagi sé heimilt að neita um leyfi til framkvæmdar sem í sjálfu sér samræmist skipulagsáætlunum vegna óæskilegra umhverfisáhrifa hennar. Það er alveg rétt. Það er hvergi tekið fram. Þau byggja rökstuðning sinn í þeim efnum á áliti Páls Sveinssonar sérfræðings í stjórnsýslurétti og ég tek það fram að með nefndaráliti mínu birti ég eina af greinum Páls Sveinssonar sem varðar framkvæmdarleyfi og það er sannarlega holl lesning fyrir þá sem fjalla um þessi mál að fara ofan í saumana á því máli því að það kemur beint inn á þá leyfisveitendur sem hér eru til staðar og fjallað er um í þessu frumvarpi.

Hæstv. forseti. Af því að það er farið að líða verulega á tíma minn held ég að ég sé tilneydd að hlaupa yfir þann kafla sem í nefndarálitinu heitir Málskotsréttur þrengdur. Þar hefði ég í smáatriðum farið betur ofan í saumana á því sem ég gerði að umtalsefni örlítið fyrr í ræðu minni. Ég verð að segja þó varðandi það mál að ég tek undir með þeim umhverfisverndarsamtökum sem hafa sent nefndinni athugasemdir og fundið að þeim aðstöðumun sem er á milli þeirra sem eru fjársterkir framkvæmdaraðilar og aftur þeirra umhverfisverndarsamtaka sem hafa verulega lítið bolmagn til að reka erfið og dýr mál í tengslum við stórframkvæmdir sem farið er í.

Við höfum haft áþreifanleg dæmi hér. Bara fyrir augunum á okkur í gær þegar við vorum að fjalla um vegáætlunina var hér mikill baráttumaður gegn Héðinsfjarðargöngum, Trausti Sveinsson, bóndi í Bjarnargili í Fljótum. Hann kom hér og heimsótti okkur og sat á þingpöllum meðan við fjölluðum um vegáætlun. Sá maður hefur aleinn barist hatrammri baráttu árum saman gegn Héðinsfjarðargöngum. Hann hefur í tvígang sótt um stuðning til samgönguráðuneytisins til þess að kosta aðstoð frá sérfræðingum við að yfirfara álit sín og þau álit sem hann hefur þurft að fara í gegnum. Hann hefur í bæði skiptin auðvitað fengið synjun frá samgönguráðuneytinu um stuðning. Hann er auðvitað að berjast við ofurefli alveg á sama hátt og Landvernd barðist við ofurefli þegar hún fór í mjög ítarlega úttekt á áhrifum Kárahnjúkavirkjunar, ferli sem hefði kostað Landvernd 2,7 millj. kr. ef Landvernd hefði þurft að borga það. En sérfræðingarnir gáfu alla vinnu sína í því máli þannig að Landvernd var ekki sendur reikningurinn. Það er þessi aðstöðumunur sem einstaklingar og umhverfisverndarsamtök á Íslandi búa við og það eru engin teikn á lofti um að þau stjórnvöld sem nú ráða hér ríkjum ætli nokkurn tíma að leiðrétta það. Það þarf að bíða eftir því að nýtt fólk komist í Stjórnarráð Íslands.

Andmælaréttur stjórnsýslulaga, virðulegi forseti, er brotinn með þessu frumvarpi. Það er mitt mat í öllu falli. Það lítur þannig út að matsskýrslan, ásamt þeim nýju gögnum sem aflað var við gerð hennar, verði fyrst aðgengileg þegar fjórar vikur eru liðnar frá eiginlegri útgáfu hennar. Þessar fjórar vikur fær framkvæmdaraðilinn að hafa matsskýrsluna hjá sér í endanlegu formi með áliti Skipulagsstofnunar án þess að þeir sem gerðu athugasemdir við frummatsskýrsluna fái að sjá hvernig framkvæmdaraðili svarar þeim. Það verður bara framkvæmdaraðilinn sem fær að sjá það, ekki almenningur, ekki þeir sem hafa gert athugasemdir. Matsskýrslan verður þeim lokuð í fjórar vikur þangað til álit Skipulagsstofnunar verður birt. Þá fyrst er hin endanlega matsskýrsla með öllum svörum framkvæmdaraðilans birt opinberlega og um leið þá þeim umsagnaraðilum og þeim aðilum sem hafa gert umsagnir fyrr í ferlinu. Í mínum huga er verið að brjóta þarna á 13. gr. stjórnsýslulaga og hana tíunda ég í nefndaráliti mínu, virðulegi forseti, og spara tímann með því að hlaupa yfir hana.

Ég geri athugasemdir við almannarétt á friðlýstum svæðum. Ég tel afar mikilvægt að almenningur verði talinn eiga lögvarða hagsmuni á þeim svæðum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum eða á grundvelli alþjóðlegra samninga, einnig á svæðum sem eru á náttúruminjaskrá eða náttúruverndaráætlun sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Slíkur réttur er ekki til staðar nú en í umsögn Umhverfisstofnunar er tekið undir þessi sjónarmið mín og ég tel einboðið að stjórnvöld taki þessi atriði til sérstakrar skoðunar. Því miður vannst ekki tími til að semja breytingartillögu í þessum efnum þannig að hún er ekki innifalin á þeim tveimur blaðsíðum sem ég er með af breytingartillögum. En þetta tel ég að stjórnvöld verði að skoða.

Einnig verða stjórnvöld að skoða atriði varðandi þjóðhagsleg áhrif og arðsemi framkvæmdanna. Það er mitt mat að breytingin sem gerð er í þeim efnum sé ekki fullnægjandi og nefni ég sem dæmi ákveðinn hæstaréttardóm sem fallið hefur í þessum efnum. Ég tel að menn þurfi að fara betur ofan í saumana á hlutunum og tryggja það ef ekki á að meta þjóðhagsleg áhrif og arðsemi framkvæmda í tengslum við umhverfismatið að þá þurfi í öllu falli að verða sérstakt mat í þeim efnum varðandi stórframkvæmdir og einhvers staðar í lögum verður að tryggja að þjóðhagsleg hagkvæmni og arðsemi framkvæmda sé tíunduð og það sé tekin afstaða til hennar og slíkt mat þarf auðvitað að vera opið fyrir almenning og hagsmunaaðila til að gera athugasemdir við líka. Það vantar algerlega inn í það ferli sem verið er að fara út í hér.

Skipulagsstofnun þarf að fjalla um athugasemdir sem koma í þessu ferli. Það er ekki nóg að framkvæmdaraðilarnir fjalli bara um athugasemdirnar, þetta er kannski ágreiningsatriði milli mín og hv. formanns umhverfisnefndar en í tilefni af umsögn Skipulagsstofnunar um þetta atriði vil ég taka fram að ég tel umfjöllun um þetta atriði í nefndinni hafa staðsett þann skilning minn, og ég verð þá leiðrétt ef ég hef rangt fyrir mér, að með þessum breytingum sem gerðar eru varðandi þetta atriði sé ekki verið að taka það hlutverk frá Skipulagsstofnun að hún fjalli um umsagnir og athugasemdir áður en þær eru sendar til framkvæmdaraðila. Hún á sem sagt ekki bara að vera póstþjónusta fyrir framkvæmdaraðila hvað þetta varðar. Hún á auðvitað að fjalla um athugasemdirnar þannig að framkvæmdaraðili viti á hvern hátt hann eigi að taka á athugasemdunum, hvaða athugasemdum hann eigi að taka á og hverjum ekki, því að oft gerist það í ferlinu að athugasemdum sem sendar eru vegna stórframkvæmda er ekki beint til framkvæmdaraðilans sjálfs. Þeim er sumum hverjum beint til stjórnvalda og þá er auðvitað ekki eðlilegt að framkvæmdaraðilinn fái þær umsagnir til beinnar umfjöllunar heldur að Skipulagsstofnun fjalli um þær.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði í umfjöllun nefndarinnar að í sínum huga væri ekki um neina breytingu að ræða frá því vinnulagi sem við þetta hefur verið hingað til. Ég vona að það sé rétt og treysti því að ég verði þá leiðrétt ef ég er að fara með eitthvert fleipur.

Ég fjalla líka í nefndaráliti mínu um leyfisveitingar. Það er lykilatriði fyrir tilgang mats á umhverfisáhrifum að niðurstaða matsferlisins hafi og eigi að hafa og eigi að geta haft áhrif á ákvarðanatökuna, á leyfisveitinguna sjálfa. Þannig telur Skipulagsstofnun t.d. að með þeirri breytingu sem gerð er á 2. mgr. 13. gr. sé unnið gegn því markmiði laganna að dregið verði eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda þar sem samtímis er dregið úr tengslum á milli niðurstaðna matsins og leyfisveitinganna. Ég var búin að víkja aðeins að þessu áður í máli mínu, virðulegi forseti, og tímans vegna hleyp ég yfir það nú.

Þá vil ég geta þess að í þremur veigamiklum atriðum er hæstv. umhverfisráðherra beygður, gerður afturreka með þætti sem lagðir eru til í frumvarpinu og mér finnst það til mikils vansa fyrir hæstv. umhverfisráðherra, sem hefur ekki verið nema örfáa mánuði í embætti sínu, að í jafnveigamiklu frumvarpi og hér um ræðir og í þeim metnaðarfullu breytingum sem eru lagðar til af henni í þessu frumvarpi skuli hún í þremur veigamiklum atriðum vera rekin til baka. Þessi atriði varða líftíma álits Skipulagsstofnunar sem fjallað er um í 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins en þar gerir frumvarpið ráð fyrir því að árafjöldinn sem umhverfismat getur haldið lífi verði styttur úr tíu árum eins og hefur verið í gildandi lögum í sex. Þetta hefði orðið til mikilla bóta að mínu mati og mati umhverfisverndarsamtaka en meiri hlutinn bakkar með þessa breytingu, beygir sem sagt vilja hæstv. ráðherra og gerir tillögu um að líftími álitsins verði áfram tíu ár en ekki sex eins og hæstv. umhverfisráðherra lagði til.

Annað atriði sem ráðherrann er gerður afturreka með eru ákvæðin í a-lið 19. gr. Þar var gert ráð fyrir að tiltekin nýrækt skóga á 50 hektara svæði eða stærra yrði tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar. Meiri hlutinn í umhverfisnefnd sættir sig ekki við tillögu ráðherrans og leggur til að stærðarviðmið tilkynningarskyldunnar verði óbreytt frá núgildandi lögum, þ.e. 200 hektarar.

Í þriðja lagi gerir meiri hlutinn tillögu um það að ráðherrann verði rekinn til baka með tillögur sínar um líftíma framkvæmdarleyfis, en skv. 22. gr. frumvarpsins og núgildandi skipulags- og byggingarlögum gildir framkvæmdaleyfi einungis í 12 mánuði frá útgáfu þess. Meiri hlutinn sér ástæðu til að lengja líftíma leyfisins um helming eða í tvö ár án nokkurra sérstakra raka, virðulegi forseti, og það er að mínu mati algerlega óásættanlegt, sérstaklega þegar horft er til þess að líftími byggingarleyfis skv. 65. gr. skipulags- og byggingarlaga er einmitt 12 mánuðir. Það hefur verið samræmi á milli þessara tveggja leyfa hingað til en nú er það fyrir bí með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Hæstv. umhverfisráðherra verður að hlíta þessum vilja meiri hluta umhverfisnefndar sem er mikil synd í mínum huga.

Hæstv. forseti. Það er mitt mat þegar öllu er á botninn hvolft og allt er skoðað að íslensk stjórnvöld séu allt of höll undir vilja og þarfir framkvæmdaraðila og dragi taum þeirra á kostnað þeirra sem vilja viðhafa varúðarsjónarmið við ákvarðanir um framkvæmdir. Mér finnst það endurspeglast glögglega í þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir, ekki öllum, ég tek það fram, en mörgum hverjum. Þannig sýnast tillögurnar í mörgum atriðum þess eðlis að þær stríði beinlínis gegn megintilgangi laganna og tilskipana sem þær styðjast við.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að löggjöfin þarf að tryggja að leidd verði í ljós öll þau áhrif sem af stórframkvæmdum geta orðið. En til þess að hægt verði að forðast alvarleg spjöll á náttúru Íslands verður að tryggja það að meginreglur umhverfisréttar séu líka virkar, þeim sé ekki kippt úr sambandi með þessum lögum, og það verður að tryggja það að hægt sé að vernda og bæta umhverfið, stuðla að heilbrigði manna og tryggja að auðlindir náttúrunnar séu nýttar af varúð og skynsemi. Það verður ekki gert nema að unnið verði eftir þessum lögum á þeim nótum að náttúruverndarlögin og skipulags- og byggingarlögin verði til hliðsjónar jafnframt. Meginreglur umhverfisréttar og sjálfbær þróun eru þar lykilatriði.

Hæstv. forseti. Ég hefði kosið að tala miklu lengur í þessu máli, það er verulega mikið eftir og margt sem eftir er að segja. Því miður leyfa aðstæðurnar það ekki. Ég er þegar komin tvær og hálfa mínútu fram úr þeim tíma sem ég lofaði að ég mundi takmarka mig við. Ég biðst afsökunar á því. Læt ég máli mínu lokið með þeirri von og ósk að hv. þingmenn líti yfir breytingartillögur þær sem ég hef á sérstöku þingskjali með nefndaráliti mínu, taki þær til alvarlegrar skoðunar og styðji þær af þeim sem þeir sjá að horfi til bóta.