131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:22]

Frsm. minni hluta umhvn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tek það alveg til greina sem hv. þingmaður segir. Þetta er svo sem ekkert stórmál en þetta er kannski eitt af því sem við hefðum þurft frekari tíma til að ræða, til að greina algerlega á milli þeirra sjónarmiða sem eru til staðar hér.

Í mínum huga er algerlega ljóst að Skipulagsstofnun tekur aldrei og hefur aldrei tekið pólitíska afstöðu til eins eða neins varðandi stórframkvæmdir. Hún hefur alltaf tekið faglega ábyrgð á öllu sem hún hefur látið frá sér fara og það kemur hún auðvitað til með að gera áfram. Skipulagsstofnun er fagstofnun með fagaðila innan borðs og hún fer faglega yfir allar þær matsáætlanir og -skýrslur sem í hennar hendur berast. Í mínum huga er það fagleg niðurstaða sem birtist í áliti Skipulagsstofnunar og þess vegna finnst mér sjálfsagt að fara að þeim mótvægisaðgerðum sem hún kemur til með að leggja til í áliti sínu.