131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:24]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gerði vinnubrögð í umhverfisnefnd að umtalsefni og ég vil bregðast við því. Ég tel að þau hafi í alla staði verið til mikillar fyrirmyndar og það er í annað sinn verið að fara yfir þetta mál í vetur.

Það vill svo til að sú sem hér stendur var formaður nefndarinnar í hið fyrra sinnið og þá fórum við mjög vandlega yfir málið. Það var þá mat mitt sem formanns að það væri málinu til góðs að láta það hvíla yfir sumarið og það yrði síðan tekið til umfjöllunar aftur um haustið. Ég tel að það hafi sýnt sig mjög vel að það var einmitt skynsamlegt vegna þess að ágætissátt náðist í nefndinni. Ég tel að umfjöllunin sé mjög vönduð og það sé ekkert sem á skorti að mjög vandlega hafi verið farið yfir málið. Umsagnaraðilar hafa allir fengið tækifæri til að koma athugasemdum sínum að og koma inn í þingnefndina, bæði í fyrra og í vetur.

Mig langar til að þakka einmitt fyrir það með hve vönduðum hætti nefndin hefur tekið á þessu máli í heild sinni. Mér finnst það óþarfaviðkvæmni, ég verð að segja það, hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að túlka það svo að formaður nefndarinnar hafi verið að gagnrýna hana sérstaklega. Á Alþingi er ekkert óvenjulegt við málefnalegan ágreining milli manna. Það er eðlilegt að svo sé og þarna náðu menn einfaldlega ekki saman, það er ekki flóknara en það.

En ég endurtek þakkir mínar til nefndarinnar fyrir vandaða vinnu.