131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:26]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fengum frumvarpið snemma inn. Það var mjög mikilvægt að senda það aftur til umsagnar. Það hafði breyst, við fengum vandaðar umsagnir aftur, við fórum yfir þær í haust og svo lá frumvarpið um sinn og það eru einu mistökin sem við gerðum. Ég er sannfærð um að ef við hefðum haldið áfram við það strax eftir áramót hefðum við öll haft betri skilning á hverju einasta atriði. Ég er líka sannfærð um að við hefðum komist að enn betri niðurstöðu í málinu, og sameiginlegri. Það er trú mín og þess vegna skulum við bara læra af þessu.

Það er til fyrirmyndar að fá stór mál inn á haustin. Við eigum ekki að lenda með þau í málasúpunni á vorin sem því miður er reynslan með marga ráðherra sem hafa verið að koma með málin inn á síðasta mánuði. Ekki hefur verið tími til að fara yfir þau í nefndinni og svo koma þau inn og allt er í galagó.