131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:33]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að umfjöllun um þetta tiltekna mál sem við ræðum hér sýni í hnotskurn hvernig traust vinnubrögð eiga að vera. Málið er lagt fram snemma og farið er vandlega yfir það. Mál af þessu tagi er mjög mikilvægt, þ.e. mat á umhverfisáhrifum. Síðan er það lagt aftur fram snemma síðasta haust og fær góðan tíma og það næst ágætissátt í þingnefndinni milli flestra þingmanna þar. Þó að þingmaður Vinstri grænna treysti sér ekki til að standa að meirihlutaálitinu þá er það ekkert óeðlilegt. Þarna ríkir traust á milli manna um vinnubrögð. Umhverfisverndarsamtök og allir sem málið snertir fá tækifæri til að fara yfir það og koma sínum ábendingum að þannig að ég tel að þetta séu eins traust vinnubrögð og nokkur geta verið. Ég bendi þingmanninum alveg sérstaklega á það, ef hann hefur ekki fylgst með því, að það er mjög góð samvinna á milli umhverfisráðuneytisins og náttúruverndarsamtaka og núna í vetur tók ég ákvörðun um að hækka fjárframlög til náttúruverndarsamtaka. Í gildi er samstarfssamningur milli ráðuneytisins og samtaka náttúruverndar svo ég tel að í öllum aðalatriðum sé mjög gott traust og samvinna á milli þessara aðila.