131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:39]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að við séum ekkert mikið að deila. Ég skil þetta þannig að Skipulagsstofnun eðli máls samkvæmt heldur utan um þetta. Þess vegna er þetta sent þangað og þegar hún gefur sitt álit þá hefur hún eðli máls samkvæmt þessar umsagnir eða réttara sagt athugasemdir líka til hliðsjónar. En það er ekki skylda hennar — met ég það þannig — að fara yfir hverja umsögn áður en hún fer til framkvæmdaraðila.

En síðan örstutt líka af því að ég gleymdi því áðan að hér var gagnrýnt að ráðherra væri beygður. Ég met það þannig að það sé hlutverk okkar þings að fara yfir málin. Við eigum ekki að tala þannig. Við erum þá mjög oft að beygja ráðherra ef við breytum stjórnarfrumvörpum.