131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[20:43]

Frsm. minni hluta umhvn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hef skilað minnihlutaáliti í þessu máli. Þannig er mál með vexti að ég er í grundvallaratriðum ósátt við þau meginmarkmið frumvarpsins að stjórnvöld fái með því heimild til að styðja sveitarfélög, sem komið hafa fráveitukerfi sínu í hendur einkaaðila, fjárstuðning undir yfirskyni jafnræðisreglu. Ég sé ekki rökin fyrir því að sveitarfélög sem velja þetta form þurfi á grundvelli jafnræðisreglu að geta verið eins konar leppar fyrir fjárveitingu til einkaaðilans sem fær í hendurnar framkvæmdaféð. Það er alkunna að sveitarfélög hafa í auknum mæli farið inn á þær brautir að reka tiltekna þætti grunnþjónustu sinnar í formi einkaframkvæmdar. Þekkt dæmi eru byggingar skólahúsnæðis og íþróttahúsnæðis sem byggð eru og rekin af einkaaðilum en leigð sveitarfélögunum með langtímasamningi. Mér hefur ekki fundist þetta til fyrirmyndar, sannarlega ekki og ég er satt að segja ánægð með breytingartillögu meiri hlutans í þessu máli þar sem gert er ráð fyrir því að þessar fjárfestingar séu þó tilgreindar í ársreikningi og í bókhaldi sveitarfélaganna komi þær vel fram þannig að það má fagna þeirri breytingartillögu.

Virðulegi forseti. Grundvallaratriði málsins er þess eðlis að ég sé mér ekki fært að styðja það. Að öðru leyti vísa ég til þess nefndarálits sem liggur fyrir á þskj. 1390.