131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Olíugjald og kílómetragjald.

807. mál
[20:49]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um mál það sem hér er á dagskrá.

Minni hlutinn styður að olíugjald væri lækkað við núverandi aðstæður en telur að olíuverð verði áfram of hátt þrátt fyrir þá 4 kr. lækkun gjaldsins sem lögð er til í frumvarpinu.

Nefndin hefur fjallað um málið á einum fundi en fékk hvorki tíma til að fara yfir það með öðrum gestum en fulltrúa fjármálaráðuneytisins né heldur að láta sérfræðinga vinna nánari útreikninga á áhrifum frumvarpsins.

Ein meginrök stjórnarinnar við framlagningu frumvarps um olíugjald og kílómetragjald á 130. þingi voru þau að með upptöku olíugjalds mætti gera ráð fyrir að dísilknúnar fólksbifreiðar yrðu álitlegri kostur fyrir einstaklinga en þær hafa verið hingað til. Minni hlutinn telur hæpið að þetta markmið náist ef verðmunur á olíu og bensíni verður ekki meiri en lagt er til í frumvarpinu. Þróun heimsmarkaðsverðs á olíu er óvissuþáttur í þessu máli og ekki er heldur enn vitað um endanlegan aukakostnað olíufélaganna vegna upptöku olíugjaldsins en sá kostnaður kemur fram í útsöluverði til neytenda. Ef reiknað er með að sá kostnaður verði 3 kr. á lítra, eins og nefnt hefur verið, og heimsmarkaðsverð olíu haldist svipað og nú verður niðurstaðan þessi:

Olíuverð með fullri þjónustu verður 112,18 kr. 95 okt. bensín með fullri þjónustu verður 110,30 kr. eða rúmlega 1 kr. ódýrara. Olíuverð í sjálfsafgreiðslu miðað við taxta eins og við sjáum þá í dag hjá olíufélögunum verður 107,20 kr. og verð á 95 okt. bensíni í sjálfsafgreiðslu verður 105,50 kr. Það má segja, virðulegi forseti, að verði gjaldið sem olíufélögin leggja ofan á 2 kr. minnkar þetta um krónu eins og stundum er verið að tala um en það er ekki komið fram, eins og áður segir.

Af þessu sést að miðað við þessar forsendur verður olíuverð hærra en verð á bensíni.

Þegar lögin um olíugjald voru samþykkt á síðasta þingi kom fram í athugasemdum að fjárhæð olíugjalds skyldi vera 45 kr. á hvern lítra og að ef miðað væri við verð á dísilolíu eins og það var 1. mars 2004 yrði verð dísilolíu um 94 kr. á lítra, með virðisaukaskatti. Til samanburðar var tekið fram að algengt verð á 95 okt. bensíni væri þá um 100 kr. á hvern lítra, en mismunandi eftir þjónustustigi. Þegar lögin voru samþykkt var því gert ráð fyrir að mismunur á verði þessara vöruflokka væri um 5 kr. og að það rétt dygði til að gera dísilknúnar fólksbifreiðar ákjósanlegri kost sem einkabifreiðar. Nú er ljóst að þrátt fyrir þá lækkun sem lögð er til í frumvarpinu verður verðmunurinn mun minni sem þýðir að hvati einstaklinga til að kaupa dísilknúnar bifreiðar er að engu orðinn og að markmiðum í umhverfisvernd verður ekki náð.

Þá er einnig ljóst að tekjur ríkisins af dísilolíu munu aukast frá því sem er í gildandi þungaskattskerfi. Ríkissjóður er með nýja olíugjaldskerfinu í raun að seilast í vasa bifreiðaeigenda, m.a. með álagningu virðisaukaskatts á olíugjald. Virðisaukaskatturinn rennur ekki allur til Vegagerðarinnar í formi markaðra tekjustofna og því er enn hlaðið á bifreiðaeigendur gjöldum sem ekki tengjast vegabótum eða gerð annarra umferðarmannvirkja á neinn hátt.

Minni hlutinn telur þá lækkun sem lögð er til í frumvarpinu jákvæða í sjálfu sér en að rúm sé fyrir frekari lækkun sem er nauðsynleg eigi markmið kerfisbreytinganna að nást.

Virðulegi forseti. Því er við þetta að bæta, fullyrðingar sem ég hef sett fram, sem m.a. koma fram í því að olíuverð með virðisaukaskatti verður eins hátt og hér hefur verið nefnt og svo getum við í sjálfu sér rætt það hvort það verður 1 kr. minna eða 2 kr. minna eða meira, að þessi munur verður of lítill. Þegar ég segi að tekjur ríkissjóðs muni aukast af þessu þá verð ég að hafa þann fyrirvara á að auðvitað munar miklu hvort við erum að tala um 74 millj. olíulítra selda á olíugjaldi eins og forsendur vegáætlunar segja til um, sem munu þá gefa miðað við 45 kr. eins og gjaldið var um 3,3 milljarða og 815 millj. í virðisaukaskatt eða 80 millj. lítra sem notaðir voru í forsendum fjárlaga eða 91 millj. lítra sem Vegagerðin notaði í gögnum sem send voru efnahags- og viðskiptanefnd þegar við vorum að vinna það frumvarp sem seinna varð að lögum um olíugjald og kílómetragjald. Tíminn á eftir að leiða það í ljós, virðulegi forseti, hvað olíulítrarnir verða margir og þar af leiðandi tekjur Vegagerðarinnar af olíugjaldi ríkissjóðs af virðisaukaskattinum, hvað rennur til Vegagerðarinnar í þessa mörkuðu tekjustofna sem hún hefur af þessu gjaldi og hvað verður eftir hjá ríkissjóði hugsanlega af hluta af virðisaukaskatti.

Við þessa breytingu á olíugjaldi sem á að gilda til áramóta, ákvæði til bráðabirgða, þá er talað um 41 kr. og ef við gerum ráð fyrir að 80 millj. lítra seljist verða árstekjur af því rúmir 3,2 milljarðar og virðisaukaskattur af því rúmar 800 millj. eða samtals tæpar 4,1 milljarður kr. Þetta eru auðvitað, eins og ég hef áður sagt, óvissuþættir og því miður virðist mér að við getum ekki séð hver eðlileg olíusala verður á þessu gjaldi fyrr en kannski eftir eitt eða eitt og hálft ár. Hví segi ég þetta? Jú, virðulegi forseti, vegna þess að fyrir þinginu liggja líka breytingar á þessu kerfi sem eru tæknilegs eðlis en þar er m.a. heimilað að viðkomandi aðilar geti átt 5 þúsund lítra í geymslum sínum sem getur þá þýtt það að viðkomandi geti sparað sér 250 þúsund í olíugjald miðað við að kaupa þetta magn. Það fer svo eftir því hvað margir gera það og það ruglar auðvitað þetta dæmi.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að það væru óvissuþættir með þetta magn og það sama á í raun og veru við um bensíngjaldið, það sérstaka bensíngjald sem rennur til Vegagerðarinnar og hefur veri reiknað í nýsamþykktri vegáætlun 192 millj. lítrar. Nú hefur hins vegar komið í ljós í gögnum, sem dreift var í þinginu í dag að ég held, að bensínsala á síðasta ári var 196 millj. og 800 þús. lítrar sem gefur þá líka meiri tekjur en gert er ráð fyrir.

Það verður líka að hafa í huga, virðulegi forseti, að bensíngjaldið var hækkað í janúar 2004 svo og þungaskatturinn sem kom þó til framkvæmda eitthvað aðeins seinna og það hafði að sjálfsögðu auknar tekjur í för með sér til ríkissjóðs sem eru svo þær tekjur sem menn þurfa að stemma af gagnvart olíugjaldinu. Án þess að ég ætli að lengja þessa umræðu mikið er rétt að geta þess að bensíngjaldið gaf á síðasta ári 535 millj. kr. meira en vegáætlun gerði ráð fyrir og 208 millj. kr. meira en fjárlög gerðu ráð fyrir. Það kom m.a. út af þeirri hækkun sem ég gerði að umtalsefni áðan, þ.e. á sérstaka bensíngjaldinu.

Dísilbílarnir. Með þeirri 8% hækkun sem varð á síðasta ári, í ársbyrjun 2004, þá var tekjuspá vegáætlunar rúmir 2,6 milljarðar og var það 461 millj. meira en gert var ráð fyrir og enn fremur meira en fjárlög gerðu ráð fyrir en það er náttúrlega vegna þessarar 8% hækkunar. Allt eru þetta tölur sem kannski er erfitt að vera að þylja hér upp, virðulegi forseti, sem rökstuðning fyrir því að þetta gjald er svona hátt en það voru auðvitað ákveðnar forsendur komnar inn í fjárlög með þungaskatti og bensíngjaldi sem varð svo að stilla af miðað við þessa olíulítrasölu og bensínlítrasölu til þess að Vegagerðin hefði sömu tekjur. Það má þó segja það, virðulegi forseti, að að sjálfsögðu var ekki ætlunin hjá neinum að minnka tekjur Vegagerðarinnar af þessum mörkuðu tekjustofnum sínum.

Virðulegi forseti. Rétt í lokin. Það kemur fram í því minnihlutaáliti sem ég hef hér mælt fyrir að við styðjum að sjálfsögðu þessa lækkun, en ég hygg að við eigum eftir að ræða á hinu háa Alþingi einhvern tíma í haust eða fyrir næstu jól ýmsar breytingar sem kannski þarf að gera á þessu frumvarpi þegar þetta kerfi fer að þróast og fer í framkvæmd. Ég óttast margt í framkvæmd á þessu nýja kerfi. Ég ætla ekki að ræða þær hættur sem ég sé í þessu máli í ræðustól Alþingis en það versta við það er auðvitað hve verðmismunurinn verður lítill á olíunni og bensíninu. Ég verð að enda mál mitt á því, virðulegu forseti, að segja að ég held að úr því að við vorum ekki búin að taka upp þetta olíugjaldskerfi fyrir 10–15 árum þá ættum við ekki að gera það núna 1. júlí nk. Ég held að innan nokkurra ára verði komin ný tækni til að taka gjald af bifreiðanotkun sem tekjustofni til Vegagerðarinnar eins og ég hef gert hér að umtalsefni. Það er auðvitað áhyggjuefni að tekjurnar eru að lækka út af þessu. Samfylkingin lagði fram á síðasta ári bestu tillögurnar sem því miður náðu ekki í gegn á hinu háa Alþingi, þ.e. tillögur um að búa til nýja flokka í þungaskattskerfinu fyrir litla sparneytna dísilbíla, fólksbíla, tillögur sem ég man að hv. þm. Einar Már Sigurðarson mælti fyrir á hinu háa Alþingi fyrir okkar hönd á síðasta ári. Þær tillögur voru allar felldar og ég tel að það hafi verið miður vegna þess að það hefði orðið aðalhvatinn til að fá í bílaflota landsmanna litla sparneytna dísilbíla. En rétt í lokin, virðulegi forseti, dísilbílar á Íslandi eru ekki nema 18 talsins, þeir voru 11 árið 1994. Þau jákvæðu markmið sem áttu að koma af þessu í umhverfismálum, minni kostnaður þjóðarbúsins við að flytja inn eldsneyti o.s.frv., ég óttast því miður að við náum þeim ekki með þessari kerfisbreytingu.