131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[21:02]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum sem bornar eru upp af hv. þm. Drífu Hjartardóttur, formanni landbúnaðarnefndar, um frumvarp til laga um Landbúnaðarstofnun annars vegar og hins vegar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um stofnun Landbúnaðarstofnunar.

Í fyrsta lagi er á þingskjali 1361 breytingartillaga sem gerir ráð fyrir að forstjóri stofnunarinnar skuli hafa háskólamenntun.

Í öðru lagi er breytingartillaga á þingskjali 1393 sem gengur út á að styrkja embætti yfirdýralæknis ásamt því að gera ráð fyrir ákveðnu skipulagi stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra skipi sviðsstjóra yfir sérstöku sviði sem skuli fara með dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Sá sviðsstjóri skuli vera dýralæknir að mennt og nefnast yfirdýralæknir. Skal hann heyra undir forstjóra sem jafnframt setur honum erindisbréf með hliðsjón af þeim verkefnum sem yfirdýralækni eru sérstaklega falin með lögum. Yfirdýralæknir skal vera staðgengill forstjóra. Forstjóri ræður annað starfsfólk nema annað sé tekið fram í lögum.

Sem greinargerð með þessu: Fram til þessa hefur löggjafinn falið yfirdýralækni mikla ábyrgð við ákvarðanatöku í málefnum er varða dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Mikilvægt hefur þótt að tryggja að sú ákvarðanataka sé byggð á faglegum sjónarmiðum svo heilbrigði manna og dýra sé ekki stefnt í hættu, t.d. við innflutning lifandi dýra eða landbúnaðarvara. Því hefur ákvörðun ráðherra í þeim efnum verið bundin meðmælum yfirdýralæknis á grundvelli áhættumats er hann framkvæmir. Með hliðsjón af mikilvægi þeirra hagsmuna sem hér er um að ræða þykir rétt að viðhalda að nokkru leyti sérstöðu yfirdýralæknis og þeirrar fagþekkingar sem embættið býr yfir. Í ljósi þessa þykir rétt að ætla yfirdýralækni áfram sérstök verkefni með lögum til viðbótar við þau verkefni sem hann kann að fara með sem sviðsstjóri innan Landbúnaðarstofnunar. Til að árétta þessa sérstöðu þykir enn fremur rétt að yfirdýralæknir verði skipaður af ráðherra þó hann heyri undir forstjóra eins og aðrir starfsmenn Landbúnaðarstofnunar.

Á þingskjali 1394 eru síðan lagðar til ákveðnar breytingar á ýmsum lögum um stofnun Landbúnaðarstofnunar til samræmis við þær tillögur sem ég hef gert grein fyrir.