131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Lokafjárlög 2002.

440. mál
[21:05]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2002. Við umfjöllun um málið var að venju leitað álits og skýringa hjá fjármálaráðuneyti og einnig hjá Ríkisendurskoðun.

Skemmst er frá því að segja að meiri hlutinn gerir tillögu um að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Að álitinu standa hv. þingmenn Magnús Stefánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Bjarni Benediktsson, Drífa Hjartardóttir, Ásta Möller og Hjálmar Árnason.

Virðulegur forseti. Ég vil greina frá því að við umfjöllun um þetta mál hefur komið í ljós að ákveðið misræmi er milli ríkisreiknings fyrir 2002 og lokafjárlaga. Í því skyni mun ég leggja fram breytingartillögu við 3. gr. frumvarpsins fyrir 3. umr. til að koma til móts við þau sjónarmið sem uppi eru og þykir eðlilegt að leggja fram þá breytingartillögu af því tilefni.