131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Lokafjárlög 2002.

440. mál
[21:06]

Frsm. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Frú forseti. Ég geri grein fyrir áliti minni hluta fjárlaganefndar um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2002. Einnig er rétt að geta þess að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, sem er áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd, er sammála því nefndaráliti sem ég kynni hér en undir það rita auk mín hv. þingmenn Anna Kristín Gunnarsdóttir, Jón Gunnarsson, Helgi Hjörvar og Jón Bjarnason.

Ljóst er að ekki hefur mikinn tilgang að fjalla um stöðu einstakra stofnana eða fjárlagaliða því að frá lokum ársins 2002 hafa verið samþykkt mörg fjárlög og fjáraukalög sem breytt hafa þeirri stöðu. En þar að auki liggur fyrir þinginu og verður fjallað um á eftir frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2003.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Magnúsar Stefánssonar er kveðið á um það í 3. gr. frumvarpsins að þegar lögin taki gildi verði ríkisreikningur fyrir árið 2002 staðfestur. Eins og fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2001 er víða ósamræmi milli frumvarpsins og ríkisreiknings. Þetta ósamræmi heldur áfram milli ára meðan ekki hefur verið tryggt samræmi milli ríkisreiknings og lokafjárlaga. Það þýðir að staða fjárheimilda einstakra stofnana og fjárlagaliða er röng í ríkisreikningi og gefur því ekki rétta mynd af stöðu þeirra. Þar sem ekki er fullt samræmi á milli ríkisreiknings 2002 og þessa frumvarps þarf að breyta þessari grein til samræmis við sambærilega grein í lokafjárlögum áranna 2000 og 2001.

Þess vegna er mikið fagnaðarefni að hv. þm. Magnús Stefánsson hefur kynnt breytingartillögu í samræmi við það sem kemur fram í nefndaráliti minni hlutans og mun það að sjálfsögðu tryggja að þetta frumvarp verður þingtækt.