131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Bætt heilbrigði Íslendinga.

806. mál
[21:14]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar frá heilbrigðis- og trygginganefnd um aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Í greinargerð er gerð grein fyrir forsendum tillögunnar og þær eru raktar þar mjög ítarlega. Mig langar að vísa til greinargerðarinnar um það og láta þar við sitja að gera grein fyrir tillögugreininni sjálfri eins og hún hljóðar á þingskjali 1354, en þar segir, með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um samræmdar aðgerðir til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.

Faghópur á vegum forsætisráðuneytis verði settur á laggirnar til að greina vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi, bæði orsakir vandans og afleiðingar. Að lokinni greiningu á orsökum og afleiðingum geri hópurinn tillögur að samræmdum aðgerðum og framkvæmdaáætlun sem lagðar verði fyrir ríkisstjórnina í apríl 2006.

Við mat á afleiðingum verði m.a. horft til áhrifa á einstaklinginn, heilbrigði hans og félagslega stöðu, á atvinnulífið og á heilbrigðis- og tryggingakerfið og heildarkostnaður samfélagsins af afleiðingum vandans metinn.

Við greiningu á orsökum verði horft vítt, svo sem á áhrif mataræðis og lífsstíls nútímafjölskyldna, áherslur á hreyfingu í starfi og aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Enn fremur verði hugað að verðlagsmálum, aðstöðu almennings til íþrótta, útivistar og hreyfingar, skipulagi byggðar og samgangna og hlutverki starfsmanna skóla og heilbrigðisþjónustu við greiningu á vanda einstaklinga í forvarnaráðgjöf til foreldra og eftirfylgni aðgerða.

Við skipun faghópsins verði haft í huga hve víðtækt verkefnið er og leitast við að tryggja þátttöku sem flestra viðkomandi ráðuneyta svo og fulltrúa Lýðheilsustöðvar sem hefur veigamiklu lögbundnu hlutverki að gegna á þessu sviði

Í starfi faghópsins verði haft til hliðsjónar markmið 11 í gildandi heilbrigðisáætlun, næringarráðleggingar manneldisráðs og samþykkt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Þannig hljóðar tillögugreinin og ég ætla að láta þar við sitja að gera grein fyrir henni og árétta síðan að ekki er gerð tillaga um að málinu verði vísað til nefndar þar sem það er flutt af heilbrigðis- og trygginganefnd.