131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Almenn hegningarlög.

67. mál
[21:21]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs örstutt til að lýsa ánægju minni með það að Íslendingar skuli nú bætast í hóp þeirra landa sem hafa lögfest ákvæði sem banna limlestingu á kynfærum kvenna. Málið á sér nokkurn aðdraganda sem er óþarfi að rekja hér en það hefur verið sjónarmið mitt að það sé skylda Íslendinga í samfélagi þjóðanna að leggja sitt af mörkum til að þessi forna hefð verði aflögð og að komið verði í veg fyrir limlestingu fjölda stúlkubarna. Nú hillir undir að þetta frumvarp verði að lögum. Ég lít svo á að það sé fyrst og fremst fyrirbyggjandi aðgerð og skýr yfirlýsing um stuðning Íslendinga við baráttuna gegn þessum hroðalega verknaði, þessum hroðalegu misþyrmingum og mannréttindabrotum á konum og börnum í heiminum.

Ég lýsi mikilli ánægju með vinnu alþjóðanefndarinnar undir forustu hv. þm. Bjarna Benediktssonar við afgreiðslu þessa máls í nefndinni. Það eina sem ég átti erfitt með að sætta mig við í breytingartillögunum var það orðalag sem lagt var til í umsögn refsiréttarnefndar að í 3. gr. yrði sett inn orðið líkamsárás, þ.e. „hver sem með líkamsárás veldur tjóni“ o.s.frv. en hv. þm. Bjarni Benediktsson skýrði vel í ræðu sinni hvers vegna það var gert. Það er gert til samræmis við annan lagatexta og eins og ég segi felli ég mig við það enda gefur nefndin yfirlýsingu í nefndarálitinu um það að út frá samheiti frumvarpsins og greinargerðarinnar með því sé átt við verknað sem fellur undir það hugtak sem skammstafað hefur verið FGM og stendur fyrir upp á engilsaxnesku „female genital mutilation“ eða limlestingu á kynfærum kvenna. Hér er sem sagt fyrst og fremst um lagatæknilega breytingu að ræða og ég vildi segja að á þeim forsendum felli ég mig við hana.

Að lokum vil ég ítreka þakkir mínar til nefndarinnar og til þingflokksformanna allra þingflokka á Alþingi fyrir að hafa lagt málinu það lið sem þau hafa gert í vetur. Ég tel að Íslendingar geti borið höfuðið hátt með því að vera nú komin í hóp þeirra landa, t.d. með Danmörku, Noregi og Svíþjóð, sem lögfesta ákvæði af þessu tagi.