131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Rekstur skólaskips.

29. mál
[21:26]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Því miður var ég ekki viðstaddur þennan fund í sjávarútvegsnefnd og harma það en vil í upphafi þeirra löngu þakkarorða sem ég ætla að flytja hér þakka formanni nefndarinnar fyrir afgreiðslu þessa máls.

Ég hef þá trú að það skipti miklu máli fyrir æsku landsins að vel og skynsamlega sé staðið að því að fræða hana í grunnskólum, og framhaldsskólum ef því er að skipta, um það hvernig lífríki sjávar þróast, hvernig við stundum veiðar, rannsóknir o.s.frv. og hversu miklu máli nýting okkar á hafinu skiptir fyrir íslenska þjóð. Þó að svo hafi þróast á undanförnum árum að fleiri atvinnugreinar séu að verða stoðir í íslenska þjóðfélaginu með öflugri hætti en áður var þegar sjávarútvegurinn nánast bar uppi útflutninginn eru fiskveiðar okkar og nýtingin á auðlindinni engu að síður áfram stór hluti af velferð þjóðarinnar og afkomu hennar. Það verður áfram svo um langa framtíð þó að vægi sjávarútvegsins minnki hlutfallslega vegna þess að aðrar atvinnugreinar eru að sækja á, svo sem ferðamennskan og stóriðjan.

Það var löngum sagt fyrir nokkrum árum að ekki væri eftir miklu að slægjast til viðbótar í sjávarútveginum. Ég held að það sé að talsverðu leyti rangmæli, við höfum breytt sjávarútveginum á margan hátt. Fiskvinnslan hefur t.d. breyst mjög verulega á undanförnum árum frá því að vera í gamla daga hefðbundin flakavinnsla og frysting á afurðum og yfir í það að vera í miklu meira mæli útflutningur á fersku hráefni inn á ferskfiskmarkaði veraldarinnar. — Ég er að ávarpa formann sjávarútvegsnefndar og þakka honum fyrir afgreiðslu þessa máls. Ég hef hugsað mér að gera það í nokkuð ítarlegu máli og vona að hv. þingmenn hafi þolinmmæði til að sitja undir því.

Þess vegna segi ég að það skiptir máli að þjóðin, sérstaklega unga fólkið, haldi áfram að öðlast skilning á mikilvægi sjávarútvegsins og njóti þeirrar þekkingar sem rekstur skólaskips getur fært ungu kynslóðinni. Þess vegna fagna ég því að þessi tillaga skuli hafa verið tekin út úr sjávarútvegsnefnd og sé núna til afgreiðslu í þinginu, um það að að þessu verkefni verði staðið vel á komandi árum. Það er auðvitað vel að verkefnið skuli þegar vera hafið, það hófst núna í apríl, og að Fiskifélagið sé enn þá þátttakandi í að skipuleggja þessi námskeið eins og verið hefur.

Rannsóknaskipið Dröfn sem var selt sem slíkt er notað til þessara verkefna og það kemur sér örugglega vel. Þar er auðvitað þokkaleg aðstaða til að þjónusta þetta verkefni þó að vissulega gætu önnur skip og aðrar útgerðir tekið að sér hluta þess, einkum innfjarðar vítt og breitt um landið.

Ég fagna því sem sagt, hæstv. forseti, að þetta verkefni skuli vera í höfn og treysti því eins og hér birtist í nefndaráliti frá sjávarútvegsnefnd að vel og myndarlega verði staðið að þessu verkefni á komandi árum. Ég veit að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, formaður sjávarútvegsnefndar, mun á komandi árum styðja vel við þetta verkefni. Ég þakka honum fyrir að hafa tekið á þessum málum með þeim hætti sem hér liggur fyrir og treysti því að þetta sé vegvísir þess að við verðum sammála um það hvar í flokki sem við stöndum að fræða beri æsku landsins um sjávarútveginn. Um það getum við sameinast á komandi árum og munum finna því farveg, m.a. í gegnum fjárlaganefnd til að tryggja þessi verkefni og sjá til þess að ávallt verði samningar til staðar um að viðhalda þessu verkefni, hver svo sem mun annast það að veita grunnskólanemunum þessa þekkingu.