131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Loftferðir.

699. mál
[21:40]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Breytingartillagan sem ég flyt við 9. gr. felur í sér að hergögn megi ekki flytja með íslenskum loftförum. Bann þetta á reyndar ekki við um loftför í eigu Landhelgisgæslu Íslands og íslenskra lögregluyfirvalda. Ég tel Ísland vera vopnlaust land sem eigi ekki að taka þátt í hergagnaflutningum.

Þá er og í öðru lagi lagt til að felld verði niður heimild samgönguráðherra til að samþykkja að vopnaðir verðir séu um borð í almenningsflugi. Ég er þeirrar skoðunar og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að hættulegast af öllu sé að hleypa vopnuðum mönnum um borð í almenningsflug og því eigi alls ekki að vera heimild hér. Því aðeins að þetta sé hluti af einhverju víðtæku alþjóðlegu samkomulagi í flugi skuli það skoðað en ekki á að vera með opna heimild eins og hér um ræðir. Því erum við alfarið á móti því að setja vopnaða verði um borð í almenningsflug.