131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[21:45]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þingmenn Samfylkingarinnar eru alfarið á móti 9. gr. þess frumvarps sem hér verða greidd atkvæði um. Það heimilar með breytingu á fjarskiptalögum að lögregla fái aðgang að persónuupplýsingum einstaklinga um það hver eigi leyninúmer sem borgararnir hafa valið að hafa sem leyninúmer, og IP-tölum. Þetta ætlar meiri hlutinn að gera án þess að farið sé að ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur verið lögfestur hér á landi og meginreglum laga um meðferð opinberra mála um að dómsúrskurð þurfi fyrir afhendingu slíkra upplýsinga. Við munum því að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn 9. gr. frumvarpsins.

Við styðjum hins vegar 1. gr. þessa frumvarps um það að ráðherra sé heimilt að leggja fram og vinna að gerð fjarskiptaáætlunar.

Við munum sitja hjá við aðrar greinar frumvarpsins við 2. umr.

Virðulegi forseti. Vilji svo óheppilega til og verði það slys að meiri hlutinn samþykki 9. gr. frumvarpsins óbreytta munum við að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn frumvarpinu við lokaafgreiðslu þess.