131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[21:46]

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti hefði þurft að vinna miklu betur. Það er hægt að taka undir áherslur í 1. gr. frumvarpsins en aðrar greinar þess hefði þurft að vinna betur, enda kom það berlega fram á fundum nefndarinnar í skoðunum og umsögnum þeirra fjölmörgu aðila sem þessu máli tengjast.

Það sem sérstaklega gerir það að verkum að ekki er hægt að styðja þetta frumvarp er ákvæði 9. gr. sem lýtur að víðtækara persónueftirliti og möguleikum til að rjúfa friðhelgi heimilisins en áður hefur tíðkast. Ég hef sagt að þvílík ákvæði ættu að falla undir lög um meðferð opinberra mála. Þar ætti að taka á þeim í heild sinni og þau ættu að vera hluti af þeim málaflokki hvernig sem þau eru þar útfærð en það væri þá heildstætt á einum stað.

Persónuvernd hefur gert mjög alvarlegar athugasemdir við þessa grein eins og hún stendur núna. Ég leyfi mér að vitna í bréf frá Persónuvernd, dags. 6. maí 2005, með leyfi forseta. Þar segir:

„Mun rökréttara er, að mati Persónuverndar, að áskilja dómsúrskurð fyrir slíkum aðgangi lögreglu að persónuupplýsingum fremur en að víkja frá almennt viðurkenndum og stjórnarskrárvörðum réttindum manna til að njóta friðhelgi um einkalíf sitt. Í þessu sambandi er enn minnt á að hafa ber í huga grundvallarrétt einstaklinga til að njóta friðhelgi um einkalíf sitt, sem varinn er af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“

Herra forseti. Hér eru færðar svo alvarlegar athugasemdir að ég tel óverjandi að samþykkja þessa grein. Hins vegar legg ég jafnframt áherslu á að nauðsynlegt er að til séu úrræði í lögum til að taka á grunuðum brotaþegum en þá er hægt að leita dómsúrskurðar um það mál með greiðum hætti. Þess vegna, herra forseti, mun Vinstri hreyfingin – grænt framboð greiða atkvæði gegn 9. gr.