131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[21:49]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Með því að samþykkja 9. gr. þessa frumvarps erum við að ganga á persónuréttindi allra. Við erum að vega að friðhelgi einkalífs og þeim rétti fólks að það skuli njóta friðhelgi að því er varðar einkahagi sína. Þar að auki erum við að festa þessa lagagrein, ef af verður, inn í lög um fjarskipti og hún mun þá stangast á við lög um meðferð opinberra mála sem segja fyrir um aðra málsmeðferð. Með því að samþykkja þessa grein erum við að búa til lagalegt klúður og ég held að það væri mjög misráðið.

Við munum greiða atkvæði gegn 9. gr., og síðan gegn frumvarpinu ef hún verður samþykkt.