131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[22:09]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er komið til atkvæðagreiðslu flókið og viðamikið mál sem vel hefði þolað meiri umfjöllun í hv. umhverfisnefnd Alþingis. Hér takast á grundvallarsjónarmið verndar og nýtingar, og umsagnir um málið endurspegla það.

Málið kemur til með að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir sveitarfélögin í landinu þar sem þunginn af kærumálum og deilumálum í mati á umhverfisáhrifum kemur til með að færast af herðum umhverfisráðherra og Skipulagsstofnunar og yfir á sveitarfélögin sem eru misvel í stakk búin til að taka við þeirri ábyrgð. Málskotsréttur almennings og umhverfisverndarsamtaka er þrengdur og í nokkrum atriðum eru tillögurnar í frumvarpinu þess eðlis að þær stríða beinlínis gegn megintilgangi laganna og tilskipana sem þau styðjast við.

Virðulegur forseti. Löggjöfin um mat á umhverfisáhrifum þarf að tryggja það að leidd verði í ljós þau áhrif sem verða af fyrirhuguðum stórframkvæmdum í þeim tilgangi að hægt verði að forðast framkvæmdir sem vinna gegn meginreglum umhverfisréttar. Þær ganga út á það að varðveita, vernda og bæta umhverfið, stuðla að heilbrigði manna og tryggja að auðlindir náttúrunnar séu nýttar af varúð og skynsemi. Það verður einungis gert ef þessi löggjöf er notuð í beinu samhengi við lög um náttúruvernd og megintilgang skipulags- og byggingarlaga. Hér er því margs að gæta, hæstv. forseti.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tökum að sjálfsögðu málefnalega afstöðu til þessa máls og munum því ýmist sitja hjá, greiða atkvæði með eða á móti einstökum greinum bæði í frumvarpinu sjálfu og í breytingartillögum meiri hlutans. Sjálf erum við með talsvert margar breytingartillögur sem ég vona að hv. þingmenn hafi gefið sér tíma til að líta yfir og komi til með að styðja þær greinar sem þar eru tvímælalaust til bóta.