131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[22:27]

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta gengur greitt og það er ágætt að staldra aðeins við og vita út í hvaða vitleysu við erum nú að fara. Hér er verið að greiða atkvæði um allnokkrar tillögur sem hafa þegar borist við frumvarp til laga um Landbúnaðarstofnun. Ég benti á það við 2. umr. og skilaði um það ítarlegu nefndaráliti að þetta frumvarp væri afar illa unnið og óskynsamlegt. Ég lagði til að því yrði vísað til ríkisstjórnarinnar til nánari meðhöndlunar.

Bara á milli umræðna hér eru komin þrjú blöð af breytingartillögum frá meiri hlutanum, frá hæstv. landbúnaðarráðherra með þetta klúðurbarn sitt.

Staðreyndin er sú að þau embætti sem hér á að slá saman í eitt, yfirdýralæknisembættið, embætti veiðimálastjóra, embætti plöntueftirlits og plöntuverndar, eru allt embætti sem eru rekin með mjög skilvirkum hætti í dag. Þetta eru verkefni sem heyra undir Bændasamtökin, eru rekin þar og sinnt með mikilli prýði en er nú verið að taka þaðan til að setja undir eina nýja ríkisstofnun. Yfirdýralæknisembættið sem hér á að leggja niður er hluti af öryggis- og varnarkerfi þjóðarinnar. Yfirdýralæknir situr í sama sæti og landlæknir og sóttvarnalæknir. — Af hlátri manna heyri ég að þingheimur veit lítið hvað hér á að fara að greiða atkvæði um. Það sýnir bara flumbruganginn og sannar að hv. þingmenn ættu ekki að treysta hæstv. landbúnaðarráðherra svona vel.

Þetta frumvarp er því mjög illa undirbúið. Kostnaðarmat á þessari nýju stofnun liggur engan veginn fyrir. Umsögn fjármálaráðuneytisins um málið er hreinlega út í buskann. Við skulum vera þess minnug í haust þegar við förum að vinna fjárlögin hvað hér var tekin ákvörðun um. Þessi nýja stofnun þarf fjármagn.

Verkefnunum er vel sinnt nú. Þeir embættismenn sem gegna því gera það af mikilli samviskusemi, og verður ekki gert betur. Því legg ég áfram til, herra forseti, að þessu máli verði nú vísað aftur til ríkisstjórnarinnar en … (Gripið fram í: ... til Hóla?) Ef Hólar hefðu unnið þetta væri þetta í lagi en þetta er illa unnið og ábyrgðarlaust gagnvart þeim verkefnum sem hérna er verið að höndla um.