131. löggjafarþing — 134. fundur,  11. maí 2005.

Tilk.

[23:00]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar nú áðan þar sem fyrir var tekin ósk hv. þm. Gunnars Örlygssonar um að ganga í þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Það var samþykkt samhljóða.

Hv. þingmaður hefur í ræðu sinni gert ágætlega grein fyrir þeim ástæðum sem liggja til grundvallar því að hann hefur nú kosið að ganga í raðir sjálfstæðismanna og jafnframt gert grein fyrir þeim lífsgildum sem hann vill berjast fyrir og hafa að leiðarljósi. Það er ljóst að þau fara mjög vel saman við þau sjónarmið sem liggja til grundvallar starfi Sjálfstæðisflokksins og við fögnum þessum góða liðsmanni sem nú hefur gengið til liðs við okkur og styrkt þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Við fögnum samstarfi við hann og hlökkum til þess í framtíðinni.

Með þessum orðum vil ég ítreka það að fyrir hönd þingflokks Sjálfstæðisflokksins býð ég hv. þm. Gunnar Örlygsson velkominn til starfa innan raða sjálfstæðismanna á Alþingi.