131. löggjafarþing — 134. fundur,  11. maí 2005.

Tilk.

[23:01]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég ætla að nota tækifærið hér og kveðja Gunnar Örlygsson. Mér finnst við hæfi að lesa nokkurn veginn niðurlag síðustu ræðu hans sem fulltrúa Frjálslynda flokksins sem hann flutti þegar verið var að ræða um frumvarp til samkeppnislaga. Það var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Virðulegur forseti. Hér er um hápólitískt mál að ræða. Umræðan öll og sá skýri klofningur sem er á milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu í málinu ítrekar og staðfestir pólitískar áherslur stjórnarliða sem einatt á síðustu árum hafa leitt til misskiptingar og ójöfnuðar í þjóðfélaginu. Það er hægt að stórefla íslenskt atvinnulíf, íslenska nýsköpun og almennt hagvöxt í þessu landi án þess að dekra við markaðsrisana sem jafnan greiða fúlgur fjár inn á reikninga stjórnarflokkanna.“

Svo mörg voru þau orð hér fyrir fjórum dögum. En skyndilega hafa orðið mikil sinnaskipti hjá hv. þm. Gunnari Örlygssyni. Hann skuldar ekki okkur, þingmönnum sínum og félögum til nokkurra ára, skýringar. Hann skuldar þær kjósendum og málstaðnum sem við berjumst fyrir og höfum barist fyrir um árabil. Ég vona svo sannarlega að hann gefi þeim einhverjar haldgóðar skýringar á þeim sinnaskiptum sem hafa orðið hér á örfáum dögum.