131. löggjafarþing — 134. fundur,  11. maí 2005.

Þingfrestun.

[23:17]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd alþingismanna flytja hæstv. forseta og öðrum varaforsetum þakkir fyrir samstarfið í vetur og fyrir hlý orð í okkar garð. Alþingismenn í stjórn og stjórnarandstöðu hafa átt ágætt samstarf um margt á þinginu í vetur en við höfum líka tekist á þetta árið, eins og reyndin hefur verið frá fornu fari.

Strangt til tekið er of snemmt að ræða um mannaskipti á forsetastóli Alþingis því með fullri virðingu fyrir þeim einstaklingum sem í hlut eiga er það Alþingis að kjósa forseta sinn. Þegar er það þó umrætt að hæstv. núverandi forseti, Halldór Blöndal, komi ekki til með að vera í kjöri á hausti komanda. Verði sú niðurstaðan er ástæða til þess nú að þakka honum samstarfið.

Halldór Blöndal hefur gegnt embætti forseta þingsins frá því á vordögum 1999. Þótti mörgum vita á stormasama sambúð hans við þingið hvernig hann handlék fundarhamarinn í upphafi forsetaferils síns fremur sem verkfæri til stórátaka en léttan smíðisgrip úr trjáviði.

Í forsetatíð Halldórs Blöndals hefur oft verið veðrasamt við forsetastólinn. Því fer fjarri að þingheimur hafi ætíð staðið sameinaður að baki forseta sínum og stundum hefur soðið upp úr þegar þingmönnum hefur mislíkað framganga hans. Á hitt held ég að menn geti fallist að þegar á heildina er litið hefur hæstv. forseti Alþingis, Halldór Blöndal, haldið merki Alþingis Íslendinga á loft af reisn og myndarskap.

Í samskiptum við formenn þingflokka hefur Halldór Blöndal iðulega sýnt lipurð, á stundum meira að segja undraverða lipurð þegar hafðar eru í huga þær kringumstæður sem honum eru búnar að starfa samkvæmt, miklar eigin meiningar og funi í skapi. Ég veit að ég tala fyrir hönd annarra þingflokksformanna þegar ég þakka Halldóri Blöndal, hæstv. forseta, fyrir prýðilegt samstarf, og fyrir hönd okkar þingmanna þakka ég honum framlag hans til Alþingis. Um þau ágreiningsmál sem upp hafa komið hirði ég ekki að ræða nú, enda efast ég ekki um að forseti Alþingis, Halldór Blöndal, sé mér sammála um að mistök eru til að læra af þeim, vítin eru til að varast þau.

Á kveðjustund óskum við hvert öðru velfarnaðar. Ég vil færa forseta og fjölskyldu bestu kveðjur fyrir hönd okkar alþingismanna, og starfsfólki Alþingis vil ég einnig þakka fyrir góð störf, lipurð og fúslega veitta aðstoð. Bið ég þingmenn að taka undir góðar kveðjur til forseta Alþingis og fjölskyldu hans og þakkir til starfsfólks Alþingis með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]